Á kvennaþingi II

34308594_10212071924529656_2049852624680779776_nÁ sunnudagskvöldinu eftir ferðina til Essasouria var hægt að skrá sig inn á ráðstefnuna og sækja gögn hennar. Þar fannst mér gaman að sjá að starfsfólk ráðstefnunnar var með spjaldtölvur þar sem við skráðum okkur inn. Umfram hefðbundnar aðferðir við innskráningu var þetta fljótleg aðferð sem notaði engan pappír. Þar fyrir utan fylgdi ráðstefnunni app þar sem ráðstefnugestir gátu haldið utan um dagskrá, glósur og annað sem skipti máli á ráðstefnunni auk þess sem þaðan var hægt að deila ljósmyndum og hugmyndum á samfélagsmiðla.

SI_3rd EI World Women's Conference Marrakesh

Þema ráðstefnunnar var Að finna leiðina í gegnum völundarhúsið: konur, menntun, verkalýðsfélög og forysta. Fjallað var um þemað í aðalfyrirlestrum, á málstofum, pallborðsumræðum og umræðustofum. Á hverjum degi var úr mörgu að velja:

SI_3rd EI World Women's Conference Marrakesh (1)

Mánudagurinn 5. febrúar

Á mánudeginum fannst mér áhugaverðast það sem Susan Hopgood formaður EI sagði í setningarræðu sinni um að í samfélaginu væru forysta og völd karllægt fyrirbæri og samtök eins og kennarasamtökin þyrftu og ættu með kerfisbundnum hætti að búa svo um hnútana að gert væri ráð fyrir konum jafnt sem körlum í forystu þeirra. Hún benti á að ekki mætti skilja þessi orð hennar þannig að konur ætluðu að taka völdin af körlunum heldur væri jafnréttið til þess gert að deila völdum og áhrifum. Og það gætu konur ekki gert nema að fá karla til liðs við jafnréttisbaráttuna.

Ulrike Linacek hélt aðlfyrirlestur mánudagisins. Ulrike er fyrrverandi varaformaður Evrópuþingsins, formaður flokksins Græningjar í Austurríki, hún er þingkona á austurríska þinginu, aktivisti og feministi. Skilaboð hennar voru að konur ættu kröftuglega að minna á sig, taka sér stöðu, eigna sér pláss og að hvetja aðrar konur til forystu með því að segja frá reynslu sinni í forystustörfum og styðja aðrar konur til forystustarfa.

Á fyrri málstofu dagsins var rætt um hvort góð forysta væri það sama og sterk forysta. Niðurstaðan málstofunnar var að ekki væri hægt að skoða forystu einungis út frá öðru sjónarhorninu því að góð forysta hlyti einnig að vera sterk forysta. Í seinni málstofu dagsins sögðu konur alls staðar að úr heiminum frá reynslu sinni af því hvernig gengur að byggja upp tengslanet sín á milli til að styrkja hverja aðra í forystustörfum. Á málstofunni vorum við minntar á að það er ekki sjálfgefið að konur hafi rödd í samfélaginu og geti fundið kröfum sínum um jafnan rétt til áhrifa á við karla. Víða í heiminum er konum enn refsað bæði opinberlega og á bak við tjöldin fyrir að segja skoðun sína eða að koma kynsystrum sínum til hjálpar.

Þriðjudagurinn 6. febrúar

Þriðjudagurinn byrjaði á erindi Fred van Leeuwen, aðalritara EI þar sem hann tók undir orð Susan Hopgood frá því deginum áður um að nauðsynlegt væri að kennarasamtök sameinuðust um að gæta þess með kerfisbundnum hætti að kynin standi jafnt í forystu og öðrum störfum innan samtakanna.

Síðan voru pallborðsumræður þar sem konur víða að úr heiminum sögðu frá reynslu sinni af störfum við að hvetja og styðja konur til forystustarfa.

Að pallborðsumræðunum loknum tóku aftur við málstofur. Í þeirri fyrri hélt ég að ég væri að fara að læra á það hvernig hægt væri að nota samfélagsmiðla til að byggja upp og styrkja tenglsanet kvenna. Þegar ég kom á málstofuna þá kom í ljós að í henni var kennsla á samfélagsmiðla. Ég var svo heppin að kynnast Dorcus Sekabate frá Suður Afríku. Við tókum viðtöl hvor við aðra og birtum á Twitter og appi ráðstefnunnar.

 

Á seinni umræðustofu dagsins hittust konur sem kenna og/eða eru skólastjórnendur í grunnskólum. Í umræðustofunni kom fram að hvar sem konur eru í heiminum þá rekast þær á sams konar hindranir í forystustörfum sínum. Þó að hindranirnar séu þær sömu þá eru þær ekki alls staðar jafn stórar eða yfirstíganlegar. Aðferðir og árangur jafnréttisbaráttu á Norðurlöndunum eru til dæmis enn framandi í álfum eins og Afríku, Suður Ameríku og Asíu.

Miðvikudagurinn 7. febrúar

Óhætt er að segja að þessi morgunn ráðstefnunnar hafi verið sá sem hafði mest áhrif á mig. Hann byrjaði á pallborðsumræðum um #metoo byltinguna. Konur víðs vegar að úr heiminum sögðu frá áhrifum hennar í heimalöndum sínum, sögðu frá ástandinu í þessum málefnum þar og sumar þeirra höfðu frá persónulegri reynslu að segja. Eftir þessar áhrifamiklu umræður var ekki annað hægt en að heita sjálfum sér því að standa alltaf með fórnarlömbum kynferðisofbeldis og að vinna gegn þöggun og hvers konar smættun á áhrifum þess.

IMG_5721Eftir pallborðsumræðurnar fór ég á málstofu með formanni og fjölmiðlafulltúra kennarasamtakanna á Nýja Sjálandi, Stephanie Mills og Lyndu Stuart þar sem þær sögðu frá því hvað þeirra samtök höfðu gert til að virkja félaga sína. Þær skiptu aðgerðunum í sjö áskoranir þar sem allra leiða var leitað til að fá félagana til að finna að samtökin vildu heyra rödd þeirra til að geta unnið að framfaramálum í menntun nemenda og þar með bættum starfsaðstæðum og kjörum kennara.

Deginum lauk svo með spurningaleik og Susan Hopgood formaður EI sleit ráðstefnunni með því að hvetja konur til að efla og styðja hverja aðra til forystu.

Hvað lærði ég svo?

  • Ég lærði að það skiptir máli að konur deili reynslu sinni af forystustörfum og finni leiðir til að styðja hverja aðra til forystu.
  • Ég lærði að alls staðar í heiminum eru hindranirnar í jafnréttisbaráttunni af sama meiði og það þarf samtakamátt kvenna og karla líka til að yfirstíga þær hindranir.
  • Ég var minnt á að í samstökum eins og kennarasamtökum þarf að vinna gegn ójafnrétti með skipulegum hætti og að vera alltaf á jafnréttisvaktinni. Henni er hvergi nærri lokið.
  • Ég hét því að þegja aldrei þegar fórnarlömb kynferðisofbeldis eru annars vegar.

Og ég hef lokaorð Susan Hopgood formanns EI þegar hún sleit ráðstefnni að leiðarljósi í því að halda áfram vinnunni eftir ráðstefnuna:

IMG_5733

 

Samantekt á tístum ráðstefnunnar undir myllumerki hennar #eiwwc3 eru hérna,

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.