
Frá kynningu á Mentimeter á hraðstefnumóti á UTís2017
Nú er þriðja UTÍS atburðinum lokið, UTÍs2017, og eins og tvö fyrri skipti var lítill vandi að hafa bæði gagn og gaman af því sem var á dagskránni. Það var líka gaman að hitta kunningja og að sjá ný andlit í hópnum. Sérstaklega fannst mér gaman að sjá að það fjölgaði í hópi skólastjórnenda sem sækja UTís.
Dagskráin var fjölbreytt; vinnustofur, fyrirlestur, kynningar, örverkjur, menntabúðir og hraðstefnumót að ógleymdum samverustundunum með nýjum og gömlum vinum. Segja má að á UTís kraumi grasrótin og þar fari fram starfsþróun í hverju skoti allan sólarhringinn á meðan á viðburðinum stendur, því þarna kemur saman fólk sem brennur fyrir viðfangsefninu og hefur mörgu að miðla. Margir af þeim sem sækja UTís eru einyrkjar í starfi sínu og draga vagninn á eigin vinnustað þess vegna er UTís því næring bæði fyrir þá persónulega og einnig fyrir skólana sem þeir starfa við, vegna þess að þeir koma til baka faglega endurnærðir og hafa stækkað tengslanet sitt svo um munar.
Í ár valdi ég mér að setja dagskrá mína saman þannig að ég kynntist bæði því sem ég hef áhuga á, Google verkfærunum og einnig að kynnast því sem ég veit ekkert um, forritun og græjur í makerspace. Svo prófaði ég að taka þátt í hraðstefnumóti við vefverkfæri og smáforrit með því að kynna verkfæri sem ég sjálf held uppá, Mentimeter.

Á Makerspace
Ég kynntist:
- Nýju fólki; high five vin minn og klessuvininn hafði ég ekki hitt áður og svo vann ég að lausn verkefna með fólki sem ég hafði ekki valið mér að vinna með. Það er mér alltaf áskorun.
- Nýrri leið til að búa til spurningaleik fyrir nemendur þar sem hver getur svarað og unnið á eigin hraða.
- MakerSpace hugmyndafræðinni og leysti verkefni með leiðnilímbandi, lítilli ljósaperu, pappír, saumaði með leiðniþræði, leysti vandamál einhvers sem ekki gat beygt fingur sína og bjó til geimverupöddu sem bæði var með ljós á fálmurum og gat hreyft sig. Við það notaði ég dót sem heitir Little Bits.
- Fleiri viðbótum við Google verkfærin og Chrome vafrann og í viðbót leiðbeiningar í Google Sites umhverfinu.
- Leiðum til að kenna forritun hjá nemendum 4-10 ára og rökstuðningi fyrir því af hverju á að kenna börnum forritun: Svo þau skilji og geti nýtt sér tæknina svo að tæknin notfæri sér ekki þau.
- Enn betur ýmsu í Google Docs, Forms og Sheets.
- Hugmyndafræði og skipulagi Snilldarstunda
- Hraðstefnumóti við verkfæri og smáforrit

Það verða bara allir að eiga Little Bits
Ljóst er að ég
- ætla að halda áfram að nota verkfæri Google og æfast í að nota það sem þar býðst
- þarf að finna meiri peninga og kaupa meira dót fyrir skólann
- ætla að huga að skipulagi stundatöflu svo gefist rými fyrir snilldarstundir og makerspace
- ætla að kynna mér betur
- verð læra að nota 360 gráðu myndavélina sem ég fékk í verðlaun
- mun setja hraðstefnumót við vefverkfæri og smáforrit á dagskrá menntabúða #Eymenntar
UTís2017 staðfesti fyrir mér þá staðreynd að kennsla er skapandi frumkvöðlastarf og að samkoma eins og UTís nærir betur en önnur starfsþróunartilboð fagmennsku kennara ásamt því að efla tengslanet þeirra sem sækja samkomuna. Það verður seint fullþakkað.