Google fyrir skráningu og miðlun

_76118263_photo

Ég þreytist seint á því að segja að tölvur og ný tækni gefi okkur fleiri tækifæri en áður til skráningar og miðlunar. Nýlega æfði ég mig vel í að nota verkfæri Google til að skrá og síðar að miðla til annarra námsferð og lærdómi af henni. Það var auðveldara en mig grunaði að nota þessi verkfæri. Það var auðvelt af því það sparaði tíma bæði á meðan á skráningu stóð og í eftirvinnslu upplýsinganna sem urðu til í ferðinni. Síðast en ekki síst er auðvelt að miðla lærdómnum þegar búið er að taka hann saman. Í æfingunni var notast við Google Drive, Google Photos, Google Docs, Google Sites og Google Drawings.

Áður en haldið var af stað í ferðina

  • var gerð mappa á Google Drive til að safna saman gögnum ferðarinnar og henni dreift á ferðafélagana þannig að allir gætu sett í hana gögn sem skiptu þá, ferðina og úrvinnslu hennar máli.
  • var gerð grind að heimasíðu í Google Sites og henni var deilt meðal ferðafélaga þannig að allir gætu unnið í síðunni jafnóðum og/eða þegar hentaði hverjum og einum. Inn á síðuna voru líka sett öll gögn sem áttu við ferðina og markmið hennar. Þar sem námsferðin sem um ræðir var styrkt af Erasmus+ þá hafði hún skýr markmið svo auðvelt var að búa til síður og undirsíður áður en haldið var af stað.
  • var gert sameiginlegt albúm á Google Photos þar sem myndum allra sem voru í ferðinni var safnað saman.

Á meðan á ferðinni og skólaheimsókninni stóð

  • skráði hver og einn hjá sér minnispunkta á þann hátt sem hann kaus að gera.
  • tóku allir myndir og auðvitað notuðu þeir símana sína til þess.

Í lok hvers dags ferðarinnar

  • hlóð hver og einn inn myndum dagsins á sameiginlega albúmið á Google Photos og inn á albúið var skráður texti með dagskrá dagsins og ef á þurfti að halda voru settar skýringar eða minnispunktar við einstakar myndir í athugsemdir við þá mynd sem þurfti að útskýra eða leggja sérstaklega á minnið.
    • Þannig varð myndasafnið sameiginleg dagbók ferðarinnar.
  • var búið til sameiginlegt skjal í Google Docs með lærdómi dagsins og hvernig væri hægt að miðla honum. Einnig var lærdómurinn speglaður í markmiðum ferðarinnar og úr urðu þemu sem breyttu smám saman grind heimsíðunar sem átti að verða skýrsla ferðarinnar. Og af því grindin var unnin áður en haldið var af stað var auðvelt að breyta henni jafnóðum og setja inn viðeigandi punkta og myndir til útskýringar.
    • Þannig varð grindin að skýrslu ferðarinnar til jafnóðum og upplýsingarnar söfnuðust saman.

Eftir að heim var komið

  • var auðvelt og alls ekki tímafrekt að flytja texta úr sameiginlega skjali hvers dags á heimasíðuna sem þegar var komin með þemun úr lærdómi ferðarinnar.
  • var auðvelt að tengja myndir og minnispunkta inn á heimasíðuna.
  • var auðvelt að búa til líkan sem skipti máli fyrir framsetningu í Google Drawings og setja inn á heimasíðuna
  • var auðvelt að koma skjölum sem ekki fengust rafrænt fyrir á heimsíðunni með því að nota símann til að skanna þau og flytja yfir á Google Drive og setja þaðan inn á heimasíðuna.
  • verður auðvelt að miðla lærdómnum með því að dreifa heimasíðunni eða einstökum hlekkjum úr síðum hennar sem skipta máli hverju sinni.
  • sparaðist tími hjá öllum ferðafélögunum við úrvinnslu því hver og einn gat, þegar hann hafði tíma til, kíkt inn á síðuna og sett inn á hana það sem skipti máli og einnig sagt skoðun sína á sameiginlegu minnis-skjali þar sem hægt var að setja inn punkta varðandi úrvinnsluna. Það sparði okkur öllum fundatíma.
  • sparast tími hjá öllum ferðafélögunum þegar kemur að kynningum á ferðinni; í stað þess að hver og einn búi sér til glærukynningar fyrir eigin kynningar verður heimasíðan, í heild eða að hluta, notuð fyrir kynningar.

Það er niðurstaða mín að vefverkfæri Google auðvelduðu mér og ferðafélögum mínum skráningu, úrvinnslu og kynningu námsferðarinnar. Ég sé líka fyrir mér að það sé lítill vandi að setja sams konar ferli upp þegar nemendur vinna að verkefni þar sem þeir afla sér gagna og greina frá niðurstöðum sínum.

Sem fyrr er það bara að byrja og prófa sig áfram. Afraksturinn er svo hérna.

 

 

1 thought on “Google fyrir skráningu og miðlun

  1. Bakvísun: Gerum gott betra – Að koma til móts við nemendur með sértæka námserfiðleika – Skólaþræðir

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.