Við áramót

Það er svo skrýtið að við áramót finnst okkur eins og það sé svo mikill tími framundan, svo mikill að margir gera sér jafnvel róttæk heit á þeim tímamótum. Ég er ein þeirra sem lít til baka yfir árið, geri það upp og velti fyrir mér hvað það er sem ég vil hafa á annan veg eða hafa akkúrat eins og það er. Það hef ég gert á nokkra vegu, allt frá því að setja mér einkunnarorð til þess að búa mér til heilu verkefnin sem taka nokkurn tíma og orku.

Ég hef líka orðið vör við það að sumum finnst það ekkert merkilegt að gera sér áramótheit og gera lítið úr áformunum sem þau innihalda. Ég er þeirrar trúar að þau, eins og önnur tímamót sem maður leiðir hugann að, geti hjálpað til við að stilla fókusinn og leiða hugann að því hvernig maður nýtir tíma sinn. Tíminn er nefnilega takmörkuð auðlind og það skiptir máli að fara vel með hann ef eitthvað á að verða úr honum.

Upphaf nýs skólaárs eru ákveðin tímamót, þá er heilt skólaár framundan með 180 skóladögum sem á að fara vel með því innihald hverrar mínútu í skólastofunni skiptir framtíð nemenda máli. Síðastliðið haust rakst ég á þessa færslu á Twitter og hef geymt hana því hún minnti mig á að ekki er hægt að skila til baka illa nýttum tíma og fá nýjan í staðinn; það eina sem hægt er að gera er að vera meðvitaður um að nýta tímann vel; til uppbyggingar og ánægju, fyrir sjálfan sig og aðra.

Undanfarna daga hef séð á netinu nokkrar útfærslur fólks á því hvernig það ætlar að nýta tímann á nýju ári. Guðrún Bergmann skrifaði pistil á heimasíðu sína og hefur áform um að setja sér markmiðalista sem inniheldur jafnmörg markmið og aldur hennar. Sú framsetning var innblásin úr fréttabréfi Virgin, fyrirtækjasamsteypu Sir Richard Branson. Það þarf áræðni til að setja saman slíkan lista og að standa við hann og efast ég ekki um að svo verði.

img_1749Önnur kona sem ég fylgist með á netinu er Sylvia Duckworth, hún bæði bloggar og skrifar á Twitter um skólastarf. Í fyrra setti hún á Twitter færslu með mynd af því hvernig hægt er að setja upp áramótaheitið sitt. Sú mynd varð fyrirmynd mín í fyrra að áramótaheiti af því í þessari framsetninu eru ekki bara áform um persónulegar áskoranir heldur einnig hugað að því sem nú þegar er vel gert og að uppbyggilegum samskiptum. Þar sem mér fannst þetta gefast vel ætla ég að nota það aftur.

Um þessi áramót mun áramótaheiti mitt sem sagt innihalda:

  • Eitthvað tvennt sem ég veit að ég geri vel og ætla að halda áfram að gera.
  • Eitthvað eitt sem ég ætla að hætta að gera.
  • Heit um að bæta samband/samskipti mín við eina manneskju.
  • Sjö áskoranir sem mjaka mér út fyrir þægindarammann

Þetta vel ég af því:

timinn.png

Gleðilegt nýtt ár og gangi ykkur vel að nýta tímann sem það gefur.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.