Sykurbrúnaðar möndlur

IMG_2382

Sykurbrúnaðar möndlur á öllum stigum

Á Mörkinni eru brenndar möndlur brúnaðar í hrásykri og kanil ómissandi á aðventunni fyrir utan að vera tilvaldar til að gleðja vini og vandamenn.

Mig minnir að ég hafi fundið þessa uppskrift á læknabiðstofu fyrir nokkrum árum þegar ég fletti þar gömlu dönsku blaði. Það var áður en ég fór að nota símann til að taka myndir af öllu sem ég þarf að muna. Ég hripaði uppskirftina á umslag sem ég var með í veskinu og hef síðan gert hana margoft á hverri aðventu og aldrei er til nóg.

500 g möndlur með hýði

Þær eru settar í 200 gr heitan ofn í 10-15 mínútur. Hræra í þeim alla vega einu sinni á meðan þær eru í ofninum. Passa að þær dökkni ekki of mikið.

130 g hrásykur (í gömlu uppskriftinni eru 150 g af hvítum sykri)

Sykurinn er hitaður (ekki að bráðna alveg í karamellu) á pönnu við vægan hita. Ef notaður er of mikill hiti verða þetta að karamellu og þá er erfiðara að fá möndlurnar „hrímaðar“ af sykrinum.

2 tsk kanill

Bætt á pönnuna með sykrinum og hrært í á meðan sykurinn hálfbráðnar.

Þegar möndlurnar eru orðnar heitar í ofninum er þær teknar út úr honum og hellt saman við hálfbræddan kanilsykurinn á pönnunni. Hrært í öllu saman þar til möndlurnar hafa blandast vel saman við sykurinn. Þá er 0,5 dl af vatni bætt út á pönnuna og hrært í þar til möndlurnar eru orðnar hrímaðar af sykrinum (vatnið gufað upp og pannan orðin þurr). Þetta getur tekið smá stund og munið að hafa hitann vægan og vera þolinmóð.

Möndlunum er þá hellt af pönnunni og látnar kólna á smjörpappír. Líka hægt að borða þær volgar og sumir geta ekki beðið og borða þær beint af pönnunni.

Njótið sem allra best

 

3 thoughts on “Sykurbrúnaðar möndlur

  1. Mjög girnilegt! Ég fæ þetta hinsvegar ekki alveg til að ganga upp, ég er endalaust föst á mynd nr. 3! Þær eru bara húðaðar með sykurgumsi og það gengur ekkert að fá pönnuna að verða þurra. Getur þú ýmindað þér hvað ég gerði vitlaust?
    Kveðja!

  2. Sæl Auður, það þarf að gæta þess að sykurinn bráðni ekki alveg áður en möndlurnar eru settar á pönnuna. Hann á bara að hitna á vægum hita en ekki að bráðna og brúnast. Þær verða glansandi þegar maður setur vatnið í og síðan eiga þær að þorna á pönnunni.

Leave a Reply to AuðurCancel reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.