Afleysing í 5. og 6. bekk

Í gær leysti ég af í tvær kennslustundir í 5. og 6. bekk og á skipulagsblaði kennarans stóð að nemendur ættu að vinna í áætlunum sínum. Þegar leið á fyrri tímann kom í ljós að flestir voru búnir eða langt komnir með áætlanirnar sínar. Ég greip þá til Ipadanna sem ég sá að voru lausir og bað nemendur um að sameinast tveir og tveir um hvern Ipad. Ég tengdi minn Ipad við skjávarpann og saman fórum við inn á Class Tools og ég bað nemendur um að leita að þraut sem heitir Fuglarnir sem ég hafði búið til um daginn til að prófa hvernig þetta virkaði. Það er skemmst frá því að segja að nemendur sökktu sér ofan í spjaldtölvurnar og tóku verkefnið mjög alvarlega og fannst þetta jafnframt skemmtilegt. Leikurinn vakti spenning og börnin ræddu um hvað fuglarnir gætu mögulega átt sameiginlegt.

Dæmi um ferningaþraut. T.d. hægt að nýta í vinnu með lykilorð.

Ég vissi að þessi nemendahópur hafði nýlega lokið við hópastarf um Norðurlöndin og einnig kynningar á hópverkefnum sínum svo ég spurði börnin hvort þau langaði til að búa sjálf til þrautir af þessu tagi um Norðurlöndin. Þau sögðust vera meira en til í það en einhver taldi að þetta gæti orðið svo flókið tækniatriði en annar sagði: Iss, við getum þetta ef Ingileif ræður við það!

Þar sem ég vildi ekki að tæknileg atriði í misgóðu netsambandi og tölvukosti sem ekki er uppá sitt besta eyddu spenningi nemenda bað ég þá um að skrá þrautirnar fyrst á blað. Kennarinn sem tók við hópnum á eftir mér var svo með nemendum á meðan þeir blöðuðu í kennslubókunum, leituðu á netinu og í kortabók til að finna fjögur lykilorð sem lýstu þeim fjórum löndum sem þau völdu í þrautina sína. Á meðan ætlaði ég að vinna í nýju vinnumati kennara en stóðst ekki mátið og bjó í snarhasti til 10 spurninga Kahoot! þraut um Norðurlöndin sem ég ætlaði að hafa í handraðanum þegar og ef við hefðum tíma til áður en nemendur héldu heim í gær.

Það er eiginlega ekki hægt að lýsa vel snilldinni í Kahoot. Þú verður að prófa til að sjá það með eigin augum.

Þegar ég kom svo inn í stofuna í seinni tímann sem var skráður á mig kom í ljós að flestir höfðu lokið við að skrá þrautirnar og tók ég við blöðunum og sagðist myndi skrá þrautirnar inn um helgina. Þær er hægt að nálgast hérna. Þá var ljóst að hægt var að trompa daginn með Kahoot! þrautinni um Norðurlöndin og þá færðist  heldur betur fjör í leikinn, gleði, kappsemi og samtal um svarið, allt í senn, streymdu um kennslustofuna. Og við keyrðum þrautina tvisvar sinnum, bara skemmtunarinnar vegna! Næst verður að gefa nemendum tækifæri til að búa sjálf til Kahoot! þrautir.

Til að spinna þráðinn sem varð til í gær lengur er á dagskrá:

  1. að nemendur vinni í þriggja manna hópum og hver hópur með einn Ipad og einn úr hópnum leggur þrautina sína fyrir hina tvo og þannig koll af kolli þar til allir í hópnum hafa lagt þrautina sína fyrir hina í hópnum.
  2. að nemendur fái aftur að spreyta sig á því að búa til „ferninga-þraut“ frá hugmynd og skráningu til þess að leggja hana fyrir hóp. Þá þyrftum við sennilega að hafa aðgang að tölvustofunni eða fartölvunum þar sem mér finnst að vinnsla í Class Tools komi ekki vel út í spjaldtölvu (það getur nú líka verið fyrirsláttur). Svo þarf að finna tilefni þar sem nemendur fá að leggja þrautirnar sínar fyrir aðra, t.d. foreldrakvöld, skólavinastund eða annað sem fellur til. Ég þyrfti líka að kanna hvort ég þyrfti að hleypa þeim inn á aðgang skólans að Class Tools eða hvort þetta er hægt að gera á ókeypis aðgangi.
  3. að nemendur fái einnig að gera það sama og stendur í punkti nr. 2 í Kahoot! Þá þyrfti að finna bæði viðfangsefni og tilefni.

Þessi morgunn:

  • varð svo ein af þeim stundum sem minnti mig á og staðfesti fyrir mér hvað það er óskaplega skemmtilegt að kenna og að vera með börnum þegar þau hafa gaman að því að læra.
  • staðfesti líka fyrir mér að snjalltæki og UT eiga að vera sjálfsagður og daglegur hluti af námi og veruleika barnanna. Það er ekki lengur val heldur skylda skólafólks að búa svo um hnútana að það sé mögulegt.

Áfram Samspil!

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.