Mat á starfsþróun

Einn af kennurum mínum í háskóla minnti mig einu sinni á siðferðilega skyldu sem ég þá hafði ekki leitt hugann að í nokkurn tíma. Hún benti á að þegar háskólamenntað fólk fengi menntun sína fylgdi sú siðferðilega skylda með í kaupbæti að viðhalda og bæta við þekkingu sína og færni.

Þekkingin sem við í upphafi tileinkum okkur í háskólanum er þekking sem oftast hefur orðið til á löngum tíma, með vinnu og rannsóknum þeirra sem þar starfa. Við, sem getum nýtt okkur þetta eigum að deila þekkingunni með samstarfsfólki okkar, skjólstæðingum og öðru samferðafólki. Og til þess að þekkingin sé í takti við þann veruleika sem við störfum við hverju sinni ber okkur að auka við hana og viðhalda. Undan þessu verður ekki vikist. Enda hljóðar 9. grein siðareglna KÍ svo: Kennari viðheldur starfshæfni sinni og eykur hana.

Þegar þessi skylda er sett í samhengi við störf kennara má velta því fyrir sér hvort hún eigi ekki að skipa stærri sess en hún gerir í umræðum okkar um eigið starf, kaup og kjör. Daglega, erum við að fást við miðlun þekkingar sem miðar að því að undirbúa nemendur okkar fyrir framtíð sem hvorki við né þeir vita almennilega hvernig lítur út. Ekki minnkar vægi þessarar skyldu þegar við skoðum hana í því ljósi að velferð nemenda okkar í framtíðinni byggir að stórum hluta á því hvernig skólagöngu þeirra er háttað. Bara það eitt ætti að nægja til að hvetja okkur til að vera sífellt með hugann við það sem raunverulega ber mestan árangur í námi og kennslu barna og ungmenna.

Halda áfram að lesa