Nei, það er ekki pláss

Þegar ég hitti Karen Sif í fyrrakvöld átti hún, sem fyrr, svör við öllu sem við mamma hennar sögðum við hana. Hún sagði nokkuð oft það sama við beiðnum okkar: Nei, það er ekki pláss. Koddu, bíddu, sjáðu, heyrðu og sko voru líka vinsæl orð þetta kvöld.

Í sumum tilfellum fannst mér nei, það er ekki pláss alls ekki passa við og velti fyrir mér af hverju hún notaði þetta svar. Gat mér þess til að hún væri nýlega búin að uppgötva þetta svar og að það hefði þá verið endanlegt svar einhvers við beiðni frá henni. Lokasvar, án umræðu. Og nú væri um að gera að prófa frasann í sem flestum aðstæðum og kanna mátt hans.

Ég man ekki eftir að hafa fylgst jafn nákvæmlega og af eins mikilli aðdáun með málþroska barna minna eins og ég fylgist með framförunum hjá smælkinu. Og um þessar mundir þegar ég hitti þau sjaldnar verða framfarirnar mér augljósari og ekki minnkar aðdáunin. En það er víst náttúrulegt hlutverk ömmunnar og auðvitað líka afans.

Í gær og í morgun hef ég svo gert tilraunir með þetta svar og komist að því að það hentar við ansi mörgu; fleiru en ég átti von á:

Er búið að fara út með ruslið? Nei, það er ekki pláss.
Geturu lækkað í sjónvarpinu? Nei, það er ekki pláss.
Ætlaru með mér út að hlaupa? Nei, það er ekki pláss.
Eigum við að hittast á kaffihúsinu? Nei, það er ekki pláss.
Við viljum launahækkun. Nei, það er ekki pláss.
Það þarf að hagræða í ríkisrekstrinum. Nei, það er ekki pláss.
Það þarf að kaupa ný tæki á Landsspítalann. Nei, það er ekki pláss.

Eins og áður veit smælkið hvað það syngur. Prófaðu bara!

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.