Heimanám eða ekki?

Á haustin birtast gjarnan fréttir og spinnast umræður um skólastarf á ljósvaka- og vefmiðlum. Í morgun birtist á fréttavef Vísis grein þar sem vitnað er í blogg Sigurðar Hólm Gunnarssonar iðjuþjálfa þar sem hann telur heimanám íþyngjandi og búa til neikvæða tengingu við skóla. Einnig er rætt við Ólaf Loftsson formann FG.

Það vakti athygli mína að í greininni á Vísi komu ekki fram fagleg rök fyrir því að minnka eða afnema heimanám. Þó hefur efnið verið rannsakað víða og lengi og niðurstöður margra þeirra nokkuð aðgengilegar. Meðal rannsakenda er dr. Harris Cooper. Hann hefur gert viðamiklar rannsóknir á gagnsemi heimanáms og einnig gert tillögur að því hve lengi sé æskilegt að börn vinni að heimanámi.

Í grein sem hann og fleiri skrifa á SEDL er bent á að skoðanir okkar geta ekki sagt okkur hvort heimanám geri gagn eða ekki, það geri hins vegar rannsóknir.

Í grófum dráttum sýna niðurstöður Cooper og félaga að heimanám í hæfilegu magni og í samhengi við námið í skólanum og veruleika barnanna gera mest gagn hjá börnum á unglingastigi og framhaldsskólastigi. Heimanám hjá yngstu nemendum geta verið liður í byggja upp jákvæðar námsvenjur. Enda leggja Harris og félagar til að heimanám yngstu barnanna sé ekki meira en 10-20 mínútur á dag. Nemendur á miðstigi ættu svo ekki að nota meiri tíma en 30-60 mínútur á dag í heimanám, allt eftir því hvert viðfangsefnið er hverju sinni.

Í niðurlagi greinarinnar er lagt til að opinber stefna um heimanám taki mið af rannsóknum en jafnframt sé hún þannig úr garði gerð að hún gefi hverjum skóla og kennara rými til að taka tillit til aðstæðana á hverjum stað fyrir sig ásamt hverju og einu barni og aðstæðum þess. Varað er við öfgum í báðar áttir.

Ég get tekið undir orð Harris og félaga því sveigjanlegt skólastarf byggist meðal annars upp á því að nálgun að námi barnsins  taki mið af á reynslu þess, áhuga og aðstæðum hverju sinni.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.