Muffins með smælkinu

Banana- og bláberjamuffins

Banana- og bláberjamuffins

Í morgun heyrði ég fram í þvottahús að Árni Heiðar sagði í spurnartón við afa sinn: Kex? Afi hans svaraði eins og öfum ber: Já, fáðu þér kex. Ég heyrði svo að kexskúffan opnaðist og að gramsað var í henni. Stuttu seinna heyrði ég afa segja: Nei, ekki þetta. Þetta er ekki kex, þetta er Prins póló.

Svo hér verði nú ekki bara borðað sætt kex og annað sem smælkið velur sjálft úr skúffum og skápum um helgina (þá var Karen Sif líka komin og von var á Freyju Ösp), ákvað ég að baka muffins sem þykja í hollari kantinum. Það er líka mesta skemmtun fyrir smælkið að fá að baka á Þeló.

5 msk smjör eða kókosolía (við notuðum kókosolíu)

1/4 b hrásykur

1 stórt egg

1/2 b mjólk

2 1/2 b fínt spelt

1 tsk lyftiduft

2 vel þroskaðir bananar, stappaðir

1 b bláber (við áttum bara frosin, smælkið hafði úðað öllum nýtíndu berjunum í sig í morgunkaffinu)

Ofninn er hitaður í 200° C. Hræra saman kókosolíu og hrásykri þar til það er létt. Við settum þetta í hrærivélina og skiptumst á að setja hana í gang og slökkva á henni. Svo var egginu bætt við og síðan mjólkinni, mjölinu og lyftiduftinu. Að lokum er stöppuðum bönönum hrært saman við og síðast blárberjunum. Það er ágætt að miða við að hræra ekki mikið í deiginu eftir að mjölið er komið í og alls ekki mikið eftir að bláberin hafa verið sett í deigið.

Svo skipti smælkið á milli sín að raða formum á plötu og við settum deig með teskeiðum í formin. Það borgar sig að spara ekki deigið í hvert form. Kökurnar eru bakaðar í 20-25 mínútur.

Þetta smakkaðist vel og hefði smakkast betur ef við hefðum sett örlítið af salti útí deigið. Þess þarf sennilega ekki ef maður notar smjör.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.