Smælkinu á Þelamörk finnst fátt skemmtilegra en að leira við stofuborðið. Það getur verið pínlegt þegar þar á líka að halda kaffiboð fyrir fullorðna. Þá er fullorðna fólkinu uppálagt að færa sig yfir í borðstofuna eða að taka þátt í leir-verksmiðjunni.
Þegar foreldrar smælkisins voru sjálf smælki bjó ég yfirleitt til leirinn og um daginn rakst ég á þá uppskrift innan um brauð- og kökuppskriftir. Og svo hún „týnist“ nú ekki aftur set ég hana hér inn.
Þessi leir er mjúkur og hann helst vel ef passað er uppá að geyma hann í loftþéttu íláti á milli þess sem hann er notaður. Mér finnst hann haldast best ef ég set hann í plastpoka áður en hann fer ofan í plastdolluna.
1 bolli hveiti
u.þ.b. 1 bolli volgt vatn
2 teskeiðar cream of tartar
tæplega 1 matskeið matarolía
1/4 bolli fínt salt
matarlitur (hægt að skipta uppskriftinni í tvo hluta og hafa sitt hvorn litinn)
Allt sett í pott og hrært á lágum hita þar til innihaldið er orðið að leir og festist ekki við pottinn. Passa að hitinn sé ekki hár því þá brennur leirinn við. Þegar leirinn er tilbúinn er ágætt að hnoða hann í höndum en þá þarf að vera með uppþvottahanska því leirinn er sjóðheitur. Þegar hann er orðinn volgur er óhætt að leyfa smælkinu að fara höndum um leirinn.
Góða skemmtun.