Ein af dillum mínum er að geta ekki gengið framhjá fjallagrasaþúfu án þess að fara fingrum um hana og velta fyrir mér hvort ég eigi nokkuð nóg af grösum heima. Oftast rata nokkur grös ofan í vasa minn eða poka. Þegar heim er komið þarf að hreinsa grösin, þurrka þau og ég geymi þau í glerkrukkum sem ég merki fundarstað þeirra og ártali.
Bestu grösin finnast mér auðvitað grösin frá Hornströndum. Það eru engar ýkjur að þau grös eru stærri og kraftmeiri en þau sem ég rekst á nærri byggð. Það sé ég greinilega þegar ég ber þau saman önnur grös úr merktu krukkunum!
Helst nota ég fjallagrösin í bakstur og í morgun hrærði ég í fjallagrasabrauð. Upphaflegu uppskriftina fékk ég hjá Lillu á Hnjúki í Skíðadal en ég hef aðeins lagað uppskriftina að því sem mér þykir best.
Fjallagrasabrauð
2 bollar fínt speltmjöl
2 bollar gróft speltmjöl (eða íslenskt malað bygg)
2 msk hrásykur (eða hunang)
2 tsk vínsteinslyftiduft (allt í lagi að nota það venjulega)
1/2 tsk natron
1/2 dl kúmen (má steyta það ef tími er til)
1/2 dl sesamfræ
4,5 dl mjólk (það má líka setja bara 2,5 dl. á móti 2 dl af AB mjólk)
um það bil 1 bolli af bleyttum fjallagrösum
0,5-1 tsk af Reykjanessaltinu góða (þá fæst líka bragð af Ísafjarðardjúpinu í brauðið)
Allt sett í skál og hrært vel saman. Ekki hræra mikið því speltbrauðin verða seig ef maður hamast mikið í deiginu. Deiginu er skipt í 2 lítil form og brauðin eru bökuð neðst í ofni í 1 klst við 190°C. Ekki er mælt með því að nota blástur.