Í pallborði – með sjálfa framtíðina í hendi mér og hendi minni

Fjærverunni stjórnað í Ipadinum og fylgst með á TweetDeck í tölvunni.

Í dag fékk ég að vera þátttakandi í pallborði vorráðstefnu Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Þrátt fyrir að ég væri ekki stödd á Akureyri var mér það mögulegt með aðstoð tækninnar. Ég var viðstödd aðalfyrirlestrana og tók þátt í pallborðinu í gegnum Kristu. Krista er fjærvera sem Kennslumiðstöð Háskólans á Akureyri fóstrar og viðheldur. Til þess að hljóðið væri gott í pallborðinu var því varpað til ráðstefnugesta í gegnum Zoom fundakerfið. Rektor Háskólans á Akureyri nýtti líka það kerfi til að setja ráðstefnuna. Svo fylgdist ég auðvitað með því sem þátttakendur tístu undir myllumerki ráðstefnunnar #vísindi19. Til þess notaði ég TweetDeck. Með því verkfæri er auðvelt að fylgjast með mörgum myllumerkjum, senda og svara tístum og skilaboðum á Twitter.

Fyrir ráðstefnuna fengu þátttakendur pallborðsins sendar tvær spurningar. Þær koma hérna á eftir ásamt því sem ég punktaði niður í kringum þær.

Hverjar eru helstu áskoranir í skólakerfinu þegar nám og kennsla í raungreinum og tækni eru annarsvegar?

Til að svara þessari spurningu valdi ég að ræða þrjár breytur/þætti og samspil þeirra:

  1. Kennarann. Afstaða hans til notkun tækninnar í námi og starfi og þá líka hvernig hann nálgast nám og kennslu.
  2. Námsefnið. Hvernig það er úr garði gert og úrvinnslu verkefna.  
  3. Nemandann. Aðkomu hans að skipulagi eigin náms.

Einnig valdi ég að hafa eftirfarandi áhrifaþætti á skólastarf í huga:

Í fyrsta lagi vitum við að sá sem hefur mest áhrif á það sem fram í skólastofunni er kennarinn. Það er í hans hendi að gera tæknina að sjálfsögðum hluta skólastarfsins og að haga skipulagi náms þannig að það kveiki áhuga og virkni nemenda. Það getur hann naumlega gert nema þekkja vel til áhugasviða nemenda og að ljá nemendum rödd við skipulagningu námsins. Og þar með að gefa táknfræðilegum veruleika hans pláss í námsferlinu.

Í öðru lagi vitum við líka að tvennt af því tæknin hefur gefið af sér að hún hefur gert okkur bæði færanlegri og snjallari en fyrr. Tæknin gefur þar með hugtökunum námsaðlögun og einstaklingsmiðað nám aðrar víddir til framkvæmdar en áður þekktist. Hún færir okkur möguleika á að mæta fjölbreytileikanum með meira samstarfi og sveigjanleika en áður hefur verið hægt. Þá eiginleika ætti að vera skylda að nýta til að auðga námsumhverfi nemenda. Það er m.a. mögulegt að gera með því að skipuleggja námið þannig að nemandinn sé virkur og skapandi í eigin námsferli.

Og í þriðja lagi er ljóst að tækninni fleygir fram og ef henni er almennt sleppt í skólastarfi hvernig sjáum við þá fyrir okkur að grunnskólinn sinni frumskyldu sinni við stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun?

Eins og ég sé þetta nú eru áskoranirnar þá:

  • Kennarar (og aðrir) þyrftu því að hætta að velta fyrir sér að tæknin sé eitthvað sem er fyrir utan skólann og að bara þeir sem hafa á henni sérstakan áhuga séu færir um að nýta sér hana í skólastarfinu. Tæknin er ekki einhver einkaeign og/eða áhugamál þeirra sem yngri eru. Hún er orðinn hluti af veruleikanum og á þess vegna að líka að vera hluti af skólastarfinu. Að geta nýtt sér hana hefur með hugarfar og afstöðu til tækninnar og möguleika hennar að gera. Að nýta sér hana er ákvörðun. Um leið og það er gert, ætti annað að fylgja á eftir.

  • Viðfangsefnin þurfa að vera raunveruleg og áþreifanleg. Að verkefnin séu þannig að þau feli í sér nýsköpun og séu þannig úr garði gerð að þau leysi raunveruleg vandamál. Það má t.d. velta fyrir sér fyrir hvaða áskorunum stendur mannkynið frammi fyrir í framtíðinni með tilliti til sjálfbærni, loftlags- og umhverfismála? Er hægt að virkja áhuga hjá nemenda að láta sig þessi mál varða?

  • Að víkka hugtakið „útinám“. Það er í mínum huga allt nám sem fer fram utan fjögurra veggja skólastofunnar; bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Þá á ég við samstarf við nærumhverfið; fyrirtæki, félög og stofnanir. Tæknin gerir þá óeiginlegu einfaldari en nokkru sinni áður. Við höfum bæði miðla og nettengingu sem tengja okkur við fólk og staði utan skólastofunnar. Sýndarveruleikinn og gagnaukni veruleikinn færa okkur líka nær fyrirbærum, stöðum og öðru en okkur hefur áður verið unnt.

Til hvaða aðgerða þarf að grípa til að mæta þeim áskorunum sem hér hafa verið nefndar?

  • Að gefa nemendum fleiri tækifæri til að hafa áhrif á viðfangsefnin sem þeir fást við. Að þeim sé ljóst hver markmið námsins eru og að skipulag námsumhverfisins sé þannig úr garði gert að það reikni með virkni og þátttöku nemenda við að finna leiðir að markmiðum námsins. Þ.e.a.s. að nemendur verði skapandi og gagnrýnir gerendur í eigin námi í meira mæli en áður. Með því viðhorfi og vinnulagi vinnst svo margt.
  • Að “afnörda” tæknina, þ.e.a.s. að skapa umhverfi og viðhorf þar sem það þykir sjálfsagt að tækni og þar með eigin snjallsímar nemenda séu hluti af hefðbundnu skólastarfi.

  • Að auka fjölbreytni starfsþróunartilboða fyrir kennara sem taka mið af því að þeir telji tæknina vera sjálfsagðan hlut í námi og starfi; bæði fyrir nemendur og þá sjálfa.  Og að það sé þannig að kennarar séu ekki hræddir við að bæta tækninni við námsgögnin og hún verði jafn sjálfsögð og blýanturinn og bókin.

  • Að skapa áhuga og vettvang þar sem verða til verkefni með raunverulegum vandamálum til að leysa.

PS: Næst þegar þú nýtir samfélagsmiðil í símanum þínum til að senda skilaboð (texta, mynd eða hljóðskrá) minntu þig þá á að nú þegar ert þú með framtíðina í þinni eigin hendi. Reyndu svo að svara spurningunni af hverju á að banna hana í skólanum?

Ef þig langar að svara þessari spurningu getur þú gert það með því að tísta hugleiðingu þinni með myllumerkinu #snjallirnemendur

Eða þú getur farið inn á www.menti.com og slegið inn kóðann 65 45 36 og skráð hugleiðingu þína þar.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.