Þó að um þessar mundir margar færslur í mánuði fari ekki inn á Bara byrja þá er ekki þar með sagt að lítið eða ekkert sé verið að skrá. Skráningin fer helst fram í formi verkefna sem skilað er inn til kennara við Háskólann á Akureyri. Í vikunni fékk ég eitt þeirra til baka frá kennaranum og get því birt það hérna. Þetta var verkefni á námskeiðinu Menntun og upplýsingatækni og þar reyni ég að svara spurningunni: Hvaða nýjungar í upplýsinga- og tæknimennt hafa, að mati kennara, haft mest áhrif á skipulag kennslu þeirra?
Inngangur
Almennt er rætt um að 20. öldin og sú 21. séu aldir hinna mörgu nýjunga og hröðu breytinga. Meðal nýjunganna eru tækniframfarir sem má reikna með að hafi áhrif á skólastarf. Í þessu verkefni skoða ég hvernig nýjungar í upplýsinga- og tæknimennt hafa haft áhrif á skipulag kennslu. Rannsóknarspurningin sem leitað var svara við er:
Hvaða nýjungar í upplýsinga- og tæknimennt hafa, að mati kennara, haft mest áhrif á skipulag kennslu þeirra?
Tilgangur þessa verkefnis er að auka eigin skilning á því hvaða nýjungar í upplýsinga- og tæknimennt kennarar telja að hafi haft áhrif á skipulag kennslu þeirra. Sá skilningur ætti að gefa mér mynd af því hvað kennarar telja að gagnist þeim í kennslu og þá jafnframt nemendum þeirra í námi. Ég tel að meiri skilningur á viðfangsefninu auðveldi mér að stýra og styðja við skólastarf sem nýtir upplýsinga- og tæknimennt í námi.
Til að leita eftir svörum við spurningunni skoðaði ég lesefni námskeiðsins sem snerti efni rannsóknarspurningarinnar ásamt öðru lesefni sem ég átti í fórum mínum. Einnig ég tók viðtal við kennara í upplýsinga- og tæknimennt. Sá kennari hefur langa og víðtæka reynslu og áhuga á notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Til viðbótar gerði ég stutta netkönnun meðal kennara í Facebook hópnum Upplýsingatækni í skólastarfi.
Nýjungar sem leiða til breytinga
Í þessum kafla er fræðileg umfjöllun um viðfangsefnið. Fyrst er gerð grein fyrir því sem stefnuplögg grunnskólans segja um efnið. Því næst er greint frá innlendum rannsóknum og að lokum eru reifuð nýleg skrif sem tengjast efni verkefnisins.
Stefnuplögg og rannsóknir
Markmið grunnskóla er samkvæmt lögum tvíþætt. Hið fyrra er að grunnskólinn skal veita nemendum almenna menntun sem eflir alhliða þroska þeirra ásamt virkri þátttöku nemenda í lýðræðisþjóðfélagi, jafnt í nútíð og til framtíðar. Hið seinna er að búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og námi að loknum grunnskóla (Aðalnámskrá grunnskóla, almennur hluti 2011; Lög um grunnskóla nr. 91/2008).
Ljóst er að kennarar gegna lykilhlutverki í námi nemenda. Aðalnámskrá grunnskóla bætir því við að samfélagsbreytingar geri þá kröfu til kennara að þeir greini hinar öru og gagngeru samfélagsbreytingar og felli þær að starfsemi skóla á ábyrgan hátt. Sagt er að það sé gert til að aðstoða samfélagið í að átta sig á breytingunum og að takast á við nýjar aðstæður (Aðalnámskrá grunnskóla, almennur hluti, bls. 13-14).
Núgildandi námskrá er ekki fyrsta og eina stefnuplagg skóla eða skrif sem hafa bent á mikilvægi tölvu- og upplýsingatækni í skólastarfi. Í greiningu Hrefnu Arnardóttur (2007) á hugmyndum og umræðu um mikilvægi tölvu- og upplýsingatækni í skólastarfi á árabilinu 1985-2005 kemst hún að þeirri niðurstöðu að spár þeirra sem fyrst hugleiddu þýðingu tölvu- og upplýsingatækni fyrir rúmum 40 árum um að ný tækni myndi gjörbreyta skólastarfi hafi ekki gengið eftir. Af þeim fimm lykilþáttum úr umræðunni sem Hrefna skoðaði voru það einna helst þættirnir tölvur sem öflug kennslutæki og breytt nám og kennsla sem ekki urðu að veruleika á því árabili sem hún tók til skoðunar.
Rannsókninni Starfshættir í grunnskólum ber saman við greiningu Hrefnu. Í þeirri rannsókn var m.a. kannað hvernig aðgengi að upplýsingatækni væri háttað í kennslustundum og hvernig nemendur og starfsmenn skólanna nýttu upplýsingatækni í námi og kennslu. Niðurstöður benda til þess að mikið skorti á gott aðgengi að búnaði í mörgum skólum og að yfirleitt voru fáar tölvur í kennslustofum umfram kennaratölvur. Aðgengi nemenda að tölvubúnaði var að mestu í hefðbundnum tölvuverum. Einnig kemur fram að tölvunotkun og heimildaleit á netinu í almennu skólastarfi er fremur lítil en að kennarar nota upplýsingatæknina töluvert við undirbúning kennslu en nemendur að mestu í sérstökum tímum í upplýsinga- og tæknimennt (Sólveig Jakobsdóttir, Torfi Hjartarson og Bergþóra Þórhallsdóttir, 2014).
Bergþóra Þórhallsdóttir (munnleg heimild, 4. september 2018) bendir á að frá því að gögnum rannsóknarinnar var safnað hafi margt í starfsumhverfi kennara breyst. Hún segir að það sé reynsla hennar að kennarar og nemendur hafi nú aðgang að fleiri tækjum og að stuðningur við notkun þeirra sé meiri en áður. Dæmi um það er spjaldtölvuvæðing skólanna (eitt tæki á nemanda), skipulagðar menntabúðir, námssamfélög á samfélagsmiðlum og víða starfa sérstakir kennsluráðgjafar í upplýsinga- og tæknimennt.
Eins og fram hefur komið eru hugmyndir um notkun nýjunga og góður ásetningur við innleiðingu þeirra ekki nóg til að notkun þeirra festist í sessi. Kemur þar eflaust margt til. Hrefna Arnardóttir (2007) nefnir að kennslufræðilegir og skólakerfislægir þættir virðast hafa mikil áhrif. Má þar nefna fjármagn, stundaskrá, kunnátta kennara og ekki síst tæknileg aðstaða.
Það er reynsla mín að það dugar ekki til eitt og sér að auka aðgengi að tækni og fjölga tækjum til að notkunin verði að sjálfsöguðum starfsháttum í skóla. Zachary Walker er einn þeirra sem sem hefur innleitt tækni og snjalltæki í kennslu sinni og deilt reynslu sinni og rannsóknum með áhugasömum. Hann segir hiklaust (2017) að kennarar og skólastjórnendur eigi ekki að bíða heldur að byrja. Þeir hafi meiri völd til breytinga en þeir vilja viðurkenna og nýta sér. Að hans mati er það viðhorf hvers og eins til eigin starfshátta og starfsþróunar sem skipti máli. Wheeler (2015) tekur í sama streng og bætir við að nýrri tækni fylgi nýjar kennsluaðferðir. Kennarar þurfi að þora og einnig að hafa tækifæri til að skoða nýja möguleika, gera uppgötvanir og þar með að geta farið nýjar leiðir starfi sínu.
Af ofansögðu er skýrt að aðalnámskrá grunnskóla (2011) setur þær kröfur á kennara og skólastjórnendur að þeir fylgist með örum breytingum samfélagsins. Það hefur líka komið fram að þrátt fyrir augljósa kosti við notkun upplýsinga- og tæknimenntar í skólastarfi hefur hún ekki aukist í takti við þróunina. Dregið hefur verið fram að það geti verið vegna þess að upp á vanti áræðni kennara og skólastjórnenda við að prófa nýjar leiðir og skorti á stuðningi við innleiðingu tækninnar.
Gagnaöflun og greining
Við vinnslu verkefnisins var leitað svara við rannsóknarspurningu þess á tvo vegu. Annars vegar með viðtali við reyndan kennara í upplýsinga- og tæknimennt og hins vegar með stuttri afmarkaðri netkönnun.
Viðmælandi var valinn með hliðsjón af því að hann hefur langa reynslu, þekkingu og yfirsýn á viðfangsefninu. Valið er því markmiðabundið. Í viðtalinu var stuðst við viðtalsramma (fylgiskjal 1). Viðtalið telst vera hálf opið viðtal (e. semi-structured) og gefur viðfangsefnið tilefni til að ætla að um frásagnarviðtal (e. narrative interview) sé að ræða (Flick 2006; Helga Jónsdóttir 2013).
Markmið viðtalsins var að kanna hvaða reynslu viðmælandi hefur af notkun upplýsinga- og tæknimennt í skólastarfi. Kannað var hver reynsla viðmælanda væri af þróun og innleiðingu nýjunga í upplýsinga- og tæknimennt ásamt því að ræða hvað hvetji hann til starfsþróunar.
Í greiningu viðtalsins voru svörin flokkuð í þemu sem varpa ljósi á rannsóknarspurninguna eða ákveðna þætti hennar.
Netkönnunin (fylgiskjal 2) var gerð meðal kennara í Facebookhópnum Upplýsingatækni í skólastarfi. Þátttakendur eru á sama hátt og viðtalið, markmiðabundið úrtak þar sem ætla má að þátttakendur séu handgengir viðfangsefninu og hafi reynslu til að leggja mat á það. Með könnuninni var leitast við prófa ákveðin þemu eða þætti í viðtalinu til að meta áreiðanleika þeirra túlkana og veruleikans sem þar kom fram.
Könnunin var sett upp í Google Forms og var send inn á hópinn með stuttu kynningarbréfi um tilgang hennar og höfð opin í 24 klukkustundir.
Niðurstöður
Í þessum kafla er sagt frá því helsta sem kom fram í gögnunum og svarar rannsóknarspurningunni: Hvaða nýjungar í upplýsinga- og tæknimennt hafa, að mati kennara, haft mest áhrif á skipulag kennslu þeirra?
Til að gæta trúnaðar við viðmælanda verður hann kallaður Bjarni.
Þessum kafla er skipt í tvo undirkafla. Annar kaflinn fær heitið úr lykilorði í rannsóknarspurningunni, nýjungar ásamt þemum sem komu fram í gögnunum, sveigjanleiki, virkni og meðvituð notkun. Hinn kaflinn heitir eftir þema sem kom fram í viðtalinu, hvatning: áhugi og stuðningur. Í fyrri kaflanum er farið yfir reynslu Bjarna og þátttakenda í netkönnuninni. Í seinni kaflanum er sagt frá því sem hvetur Bjarna til notkunar nýjunga í skólastarfi.
Nýjungar: sveigjanleiki, virkni og meðvituð notkun
Bjarni hefur rúmlega 30 ára reynslu af grunnskólastarfi. Fyrst sem umsjónarkennari en nú sem verkefnisstjóri og kennari í upplýsinga- og tæknimennt (UT). Bjarni vill að nemendur geti nýtt það sem þeir læra í tölvustofunni við úrlausn verkefna í öðrum kennslugreinum. Þannig fulltnýti þeir tímann sinn í öðrum greinum og þurfa ekki að fá kennslu á tæki eða tól.
Að sögn Bjarna höfðu nemendur fyrir 30 árum engan aðgang að tölvum, aðeins kennsluefni í bókum. Í undirbúningi fyrir kennslu gátu kennarar skipst á að nota borðtölvur á sameiginlegu vinnurými. Bjarni sagði að ef hann bæri saman árin 1997 og 2018 þá væri ekki annað hægt að segja en það hafi orðið bylting í aðgengi nemenda og kennara að tækjum. Í skólanum þar sem Bjarni starfar nú hafa allir nemendur í 5.-10. bekk eigin spjaldtölvu og sameiginlega hafa nemendur skólans aðgang að 30 Chromebooks fartölvum, bekkjarsettum af Ipödum að viðbættu tölvuveri og auk þess nýta nemendur símana sína til að taka upp myndbönd. Kennarar hafa hver sína fartölvu og allflestir eru með splunkunýjar vélar. Bjarni áréttaði að hluti byltingarinnar væri líka að nú skipti ekki máli á hvaða tölvur eða tæki væri unnið, hugbúnaðurinn væri orðinn þannig að hann gerir ráð fyrir að notendur séu að vinna á fjölbreytileg tæki. Hann nefndi líka að skýjalausnir og margs konar tól, eins og Google býður uppá, gerðu það mögulegt að hægt er að vinna að verkefnum hvar og hvenær sem er. Það auðveldar alla samvinnu, bæði nemenda og kennara. Hann benti á að áður hafi margir nemendur setið iðjulausir á meðan einn vann í verkefni á tölvunni. Það er reynsla hans að skýjalausnir og aukinn fjöldi tækja efli virkni nemenda.
Grunnskólakennarar sem tóku þátt í netkönnuninni voru að flestu leyti sammála Bjarna. Þeir nefndu að aðgangur hvers og eins nemanda að snjalltækjum og neti, skýjalausnir og smáforrit hafi breytt skipulagi þeirra á eigin kennslu. Nefnt var að netið og tækin gerðu það mögulegt að vera í sambandi og samstarfi við fólk hvenær sem er og hvar sem er í heiminum.
Það er mat Bjarna að tækjavæðing skólanna skipti miklu máli. Hann sagðist bíða eftir þeim degi að honum fyndist skólinn vera orðinn mettur af tækjum og að ekki væri hægt að nota tækjaleysi sem afsökun fyrir því að nota ekki tæknina meira í kennslu. Bjarni tók það skýrt fram að hann vildi ekki að skólinn yrði fylltur af tækjum sem ekki væru í notkun. Það þyrfti að ígrunda þörfina og tilganginn vel. Hann vill t.d. að næst eignist skólinn meira af tækjum og dóti til forritunar og skilningi á henni. Markmið hans með kennslunni er að nemendur verði óhræddir við að prófa nýjungar í upplýsinga- og tæknimennt og að þegar þeir byrja í framhaldsskóla komi ekkert þeim á óvart sem tölvur og tækni geta gert.
Bjarni segir að næsta skref væri að fylgjast með þróuninni í notkun á sýndarveruleika og gagnaukins veruleika í skólastarfi ásamt því að setja upp Apple TV í allar stofur. Þannig eykst sveigjanleikinn og fjölbreytileikinn í starfinu enn meira.
Hvatning: áhugi og stuðningur
Bjarni sagði að tækni og tæki væru áhugamál hans og að hann nýti frítíma sinn til að fylgjast með nýjungunum, grúska og prófa nýja hluti. Hann sagðist hiklaust setja nýjungar inn í kennsluna sína og henda úr kennsluáætlunum því sem hann teldi að kæmi nemendum síður að gagni.
Hann sagðist vera á tánum og hann vildi síður vera kallaður “gamli tölvukennarinn”. Hann er í stóru tengslaneti fólks með sömu áhugamál og að tæknin geri það mögulegt að tengslanetin geta verið á samfélagsmiðlum jafnt sem í raunheimum. Hann sagðist mæta á allar menntabúðir sem hann kemst á, hann fari á ráðstefnur, á Íslandi og í útlöndum. Hann fer líka í heimsóknir þangað sem honum finnst að nýjungar séu nýttar. Bjarni nefndi að hann fengi stuðninginn frá nemendum og skólaumhverfinu. Hann mat fjárframlög til tækjakaupa einnig mikils.
Umræða
Í þessu verkefni var lagt upp með rannsóknarspurninguna: Hvaða nýjungar í upplýsinga- og tæknimennt hafa, að mati kennara, haft mest áhrif á skipulag kennslu þeirra?
Ljóst er að meginmarkmiðum skólastarfs verður ekki náð nema með sveigjanlegum og fjölbreyttum starfsháttum. Í gögnum þessa verkefnis hefur komið fram að fjöldi tækja á nemanda og nýjustu lausnir í upplýsinga- og tæknimennt auki sveigjanleika og fjölgi möguleikum til samvinnu og efli einnig virkni nemenda. Ennfremur kemur fram að hvatning kennara til notkunar nýjunga í starfi er áhugi á viðfangsefninu og fjöldi og gæði tækja í skólanum.
Niðurstöður gagnaöflunarinnar eiga sér samhljóm í fræðilega hluta verkefnisins. Hrefna Arnardóttir (2007) og Sólveig Jakobsdóttir og fleiri (2014) nefna í skrifum sínum að fé, kunnátta kennara og tæknileg aðstaða hafi staðið í veginum fyrir því að tölvur hafi verið algengar í skólastofum og orðið öflug kennslutæki. Miðað við gögnin má ætla að þær hindranir séu ekki lengur til staðar. Áhugi Bjarna og áræðni við að prófa nýjungar og setja þær inn í kennslu ásamt því að henda úr kennslunni því sem hann telur að síður komi nemendum að gagni ásamt ummælum Zackary Walker (2017) og Steve Wheeler (2015) kveikja spurningar um hvað vekur og viðheldur áhuga kennara á að prófa nýjungar. Þær spurningar gefa tilefni til frekari skoðunar.
Við yfirfærslu á niðurstöðum verkefnisins verður að hafa í huga að þátttakendur í gagnaöflun þess voru fáir og valdir vegna reynslu sinnar og áhuga á viðfangsefninu. Niðurstöðurnar gefa samt sem áður tilefni til að ætla að áherslupunktar mínir í skólastjórnun verði að halda áfram að finna leiðir til að fjölga tækjum í skólanum og að glæða áhuga kennara á notkun upplýsingatækni í námi og kennslu. Þannig muni ég ná markmiðinu um að nýjungar leiði til breytinga sem nýtast til að bæta námsaðstæður nemenda.
Heimildaskrá
Aðalnámskrá grunnskóla, almennur hluti (2011). Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneytið. .
Flick, U. (2006). An introduction to qualitative research (3. útg.). London: Sage.
Helga Jónsdóttir. (2013). Viðtöl í eigindlegum og megindlegum rannsóknum. Í Sigríður Halldórsdóttir (ritstjóri), Handbók í aðferðafræði rannsókna (bls. 137–153). Akureyri: Ásprent Stíll.
Hrefna Arnardóttir. (2007). Verkfæri, miðill, samskiptatól eða kennari: Hugmyndir um notkun tölvunnar í skólastarfi síðustu 30 ár. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands. http://netla.hi.is/greinar/2007/019/prent/index.htm
Lög um grunnskóla nr. 91/2008.
Sólveig Jakobsdóttir, Torfi Hjartarson og Bergþóra Þórhallsdóttir. (2014). Upplýsingatækni í skólastarfi. Í Gerður G. Óskarsdóttir (ritstjóri), Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar (bls. 277-319). Reykjavík: Háskólaútgáfan. Sótt af vef Menntavísindastofnun Háskóla Íslands
Walker, Z. (2017). Changing World, Changing Students. Fyrirlestur í Reykjavík á alþjóðadegi kennara 5. okt. 2017. Sótt af http://ki.is/skolamal/starfid/radstefnur-og-fundir#sk%C3%B3lam%C3%A1la%C3%BEing-k%C3%AD-%C3%A1-al%C3%BEj%C3%B3%C3%B0adegi-kennara-5-okt%C3%B3ber-2017
Wheeler, S. (2015). Learning wtih ´e´s. Educational theory and practice in the digital age. Carmarthen: Crown House Publishing.