
Kóðinn 1.0 er dæmi um verkefni þar sem tilbúið efni á vef sem kennarar og nemendur geta nýtt sér án mikilliar fyrirhafnar.
Það er ekki langt síðan ég beindi athyglinni að möguleikum forritunar í skólastarfi. Ég hafði fram að því sannfært mig um að hún væri ekkert fyrir mig, hún væri miklu fremur fyrir þá sem eitthvað vissu um hana og gætu þannig miðlað vitneskju sinni. En ég hef komist að því eftir að ég fór að leggja við hlustir að forritun er fyrir alla. Málið er úr hvaða átt maður nálgast hana og vill skilja hana. Ég hafði auðvitað kynnst Micro bit og kóðanum í fyrra og líka kúlukörlunum Sphero og átt skemmtilegar stundir í að koma þeim gaurum réttar leiðir á brautum. Ég hafði líka kynnst Osmo Coding og smáforritinu Box Island. Svo hef ég fengið að prófa að forrita smádróna og koma þeim rétta leið í loftinu og inn til lendingar á um það bil hárréttum stöðum. En það var ekki nóg til að ég kveikti á perunni og langaði til að prófa.
Á síðasta UTís sagði Margrét Þóra kennari í Brekkuskóla frá vefsvæðinu code.org , hún fullyrti að maður þyrfti ekkert að vita um forritun til að geta farið með nemendum í verkefnin sem þar eru. Ég trúði henni tæpast því ég veit hvers hún er megnug. Það sem hún sagði hafði samt þau áhrif að í menntabúðum #Eymenntar í síðasta mánuði fór ég á menntabúð þar sem við fengum að skoða fyrirbærið nánar og ræddum kostina og ég lærði að Code.org:
- er ókeypis og án áreitis auglýsinga
- er á mörgum tungumálum, þ.m.t. íslensku
- er einfalt í notkun, bæði fyrir nemendur og kennara
- er með urmul verkefna sem eru fyrir allan aldur svo það borgar sig fyrir kennarann að þekkja til þeirra og getustigs hvers þeirra
- er þægilegt því þar er auðvelt að fylgjast með framvindu verkefna hjá nemendum
- er með einfalt innskráningarkerfi sem miðað er við aldur og getu nemenda
- gerir ráð fyrir aldursblönduðum hópum
- er sett upp þannig að kennarinn getur bæði stýrt (sett fyrir) og gefið nemendum lausan tauminn
- gefur möguleika á samvinnu nemenda, þ.e.a.s. reiknar ekki með því að hvert og eitt barn sé með tæki
- gefur möguleika á forritunarverkefnum án tölva eða spjaldtölva
- er einu sinni á ári með sérstaka forritunarviku sem heitir Hour of Code þar sem hægt er að spreyta sig á forritunarákorunum
- er lifandi vefsvæði í stöðugri þróun
Og ég fékk bakteríuna
Það þurfti ekki meira til í bili en þessa menntabúð svo að ég settist niður og kynnti mér málið betur og opnaði ömmuskóla um stundarsaktir og æfði mig á barnabörnum og afa þeirra. Ég auglýsti svo meðal kennara Þelamerkurskóla eftir námshópum til láns og fékk þrjá hópa lánaða. Ég skráði alla hópana inn svo hver og einn nemandi ætti aðgang og hægt væri að fylgjast með framvindu þeirra. Nemendur í fyrsta og öðrum bekk unnu saman tvö og tvö í áskorun Box Island í Hour of Code og fengu fyrirmælin hennar Jennie Magiera þegar maður leiðbeinir samnemendum. Þeim nægði að vísu að halda sig bara við fyrstu fyrirmælin.
- Ekki snerta tækin hjá þeim sem þú leiðbeinir. Hafðu hendur fyrir aftan bak.
- Sýndu hlýlega framkomu.
- Farðu hægt yfir leiðbeiningarnar. Teldu upp að 3 áður en þú gefur næstu leiðbeiningar.
Það var gaman að fylgjast með nemendum reyna við áskorunina, ræða saman og hjálpast að við að finna lausnir. Tíminn leið hratt og allir unnu af áhuga.
Nemendur í áttunda og níunda bekk fóru svo í Minecraft verkefni Hour of Code og unnu hvert á einu tæki, annað hvort á Chrome Books vélum eða IPödum, allt eftir því hvað þeim þótti best sjálfum. Eins og gengur voru nokkrir nemendur sem þurftu meiri hvatningu en aðrir og verkefnið höfðaði mismikið til nemenda. Þeir sem komust hraðast í gegnum verkefnin aðstoðuðu þá sem síður komust áfram. Að lokum fór svo að allir komust áfram og sumir héldu áfram með verkefnin þegar heim var komið.
Nemendur í fimmta og sjötta bekk fengu sama verkefni og áttundi og níundi bekkur. Allir unnu á Chrome books vélum skólans og komust strax vel af stað og hjálpuðu hver öðrum. Allir unnu af áhuga og elju ásamt því að hjálpast að. Daginn eftir heyrði ég nemendur svo bera saman bækur sínar eftir að þeir höfðu unnið að verkefninu heima hjá sér.
Áhugi og gleði nemenda smitaði svo kennara þriðja og fjórða bekkjar þannig að ég settist niður með þeim og þær fiktuðu sig í gegnum skráningarkerfi Code.org, skráðu námshópinn inn og skipulögðu hvernig þær ætluðu bara að byrja með sínum nemendum.
Ég vona að við læknumst ekki af þessari bakteríu því hún er hvetjandi, skemmtileg og fræðandi.