Enn er gagn og gaman á UTís2016

Á síðasta föstudag og laugardag (11. og 12. nóvember) tók ég þátt í UTís2016 á Sauðárkróki. UTís2016 eru vinnu- og menntabúðir um upplýsingatækni í skólastarfi. Þar koma saman kennarar og aðrir sem hafa áhuga á upplýsingatækni í skólastarfi. Þetta er í annað sinn sem þessi viðburður er haldinn og sannarlega er vilji allra sem hann sóttu að hann verði endurtekinn. Um 80 manns sóttu UTís að þessu sinni og eru það um það bil 20 fleiri en í fyrra.

img_1432

Það vildi aftur svo heppilega til að við Lína vinkona fengum báðar pláss á UTís2016 og gátum aftur verið saman á herbergi og borið saman bækur okkur á marga vegu, ekki bara um kennslu og upplýsingatækni.

Í þessari færslu skrái ég eins og í fyrra það gagn og gaman sem ég hafði af vinnu- og menntabúðunum UTís2016:

Föstudagurinn 11. nóvember

10:10-10:30 Móttaka í Árskóla Sauðárkróki

10:30-12:00 Heimsókn í Árskóla – þátttakendur verða nemendur 

Á þessum degi lærði ég, gerði og datt mér í hug:

  • Ég sá hvernig hægt er að ganga hugvitsamlega frá Ipödum og hleðslusnúrum.
  • Ég lærði aðferð við að nota Ipada til kennslu í myndmennt, það er hægt að skapa með fyrirmynd í ljósmynd á skjá.
  • Heimsótti staði um víða veröld og fékk að sjá hvernig hægt er að nota sýndarveruleikagleraugu til að auðga kennslustundina og kveikju til ritunar
  • Fékk hugmynd að því að fá tækniteymið frá Árskóla í menntabúðir #eymenntar með gleraugun þeirra. Þetta verða bara allir að prófa!
  • Prófaði Sphero sem er eitt af því skemmtilegasta sem ég hef prófað lengi. Lærði að samvinnan borgar sig og að mistökin eru til að læra af þeim. Datt í hug að þetta yrði dótið sem fullorðna fólkið í fjölskyldunni myndi leika sér með í jólaboði ársins. Smælkið er auðvitað velkomið í leikinn líka.
  • Vann með og kynntist fólki sem ég þekkti ekki fyrir.
  • Ákvað að kaupa meira dót fyrir Þelamerkurskóla.

12:00-13:00 Hádegismatur 

img_1392

Hvert tækifæri er notað til að miðla þekkingu og reynslu

  • Kynntist ThingLink á milli bita.
  • Heyrði um Makerspace.
  • Lína og Hulla sögðu mér meira og betur af Teachers Pay Teachers
  • Lína sagði mér frá framhaldsnáminu sínu í stærðfræði og kynningu sem hún hélt í náminu um bjargir kennara í stærðfræðikennslu.

13:00-14:00 Keynote/Vinnustofur

14:00-16:00 Vinnustofur – fyrri hluti

  • Ég lærði aðferð  (Grape Jam Walk?) við að deila áhyggjum og vandamálum og hvernig hægt er að fá hóp til að aðstoða við að leysa þau og efla tengsl innan hóps. Við umhugsun þá leynir aðferðin á sér. Ég er þegar farin að leita lausna á mínum áhyggjum.
  • Eins og í fyrra valdi ég að læra meira á Google Suite, Google Apps, Chromebooks og nýja Google Sites. Að þessu sinni voru það Hans Rúnar á Hrafnagili og Bergmann í Árskóla sem sáu um vinnustofuna.
    • Í fyrri hlutanum fékk ég að prófa Chromebooks og fékk hugmynd að því að kannski væri ekki svo vitlaust að „fá meira fyrir peninginn“ með því að endurnýja tölvukostinn og kaupa þannig vélar.
    • Það eru nýir fídusar í Google Slides sem virkilega spara tíma.
    • Fattaði explore hnappinn í Google Slides, Google Docs og Google Sheets betur. Það er bara undravert hvað gervigreindin getur sparað tíma.
  • Ég kíkti á fleiri vinnustofur og fékk að prófa nýtt dót og fylgjast með. Þar sá ég hvernig hægt er að vera niðursokkinn í að þreifa sig áfram með nýja hluti.

16:30-19:30 Frjáls tími / afslöppun

  • Staðfesti að það er hægt að gera góð kaup í Skagfirðingabúð
  • Fundaði með #Eymenntarhópnum í heita pottinum við Hótel Tindastól og við lögðum línur fyrir framhaldið. Ræddum viðskiptahugmyndir nokkurra í hópnum sem enn eru iðnaðarleyndarmál.
  • Frétti af vefsíðu Spjaldtölvuverkefnisins í Kópavogi.

19:30-20:00 Fordrykkur í Árskóla

20:00-21:30 Hátíðarkvöldverður á Drangey Restaurant

  • Sat hjá kennara við Menntaskólann á Tröllaskaga og skipulagði í huganum skólaheimsókn starfsfólks Þelamerkurskóla í Fjallabyggð.

21:30-23:30 Hittingur þátttakenda á MicroBar

  • Ég gat ómögulega vakað lengur svo ég fór heim á hótel að hvíla mig.

Laugardagurinn 12. nóvember

Eftir góðan göngutúr með Línu á Vegagerðarhringum lærði ég, gerði og datt mér í hug:

Sá skemmtilega samsetningu stuttra myndbanda á Twitter í morgunsárið sem sýndi það sem við höfðum gert daginn áður og spurði Hönnu Rún sem það gerði hvað hún hefði notað til að búa það til.

Svarið kom um hæl á Twitter, RoadMovies.  Svona er #UTís2016!

10:00-12:00 Menntabúðir frá þátttakendum (2×50 mín)

  • Ég gaf mér loksins tíma til að prófa Micro Bit og lærði að nota það. Á Krakkarúv eru góðar leiðbeiningar. Núna fer kassinn með þeim af skrifstofunni minni og í hendurnar á nemendum.
  • Ég fékk að prófa að vera kennari og nemandi með sýndarveruleikagleraugunimg_1443
    • Ég kynntist smáforritum sem hægt er að nota með gleraugunum.
    • Ég var enn minnt á að tæknin ruggar gömlum viðmiðum um nám og kennslu. Nú er ekki nauðsynlegt að snúa fram og horfa á kennarann tala, heldur að fylgja örinni á myndinni í gleraugunum og horfa þangað!
    • Lærði að handleika þau og hvað skiptir máli í tengingum og fleiru.
    • Kynntist smáforritinu Blippbar sem samt hefur ekkert með gleraugun að gera.
    • Fékk staðfestingu enn og aftur hvað það er einfalt og skiptir miklu máli fyrir þróun hugmynda og áframhaldandi vinnu að setjast niður með hópi og fá að prófa sig áfram.

12:00-13:00 Hádegisverður á Drangey restaurant (Súpa og brauð)

  • Gekk frá því að það verði gleraugna- og tækjasmiðja á menntabúðum hjá #eymennt fljótlega.

13:00-15:00 Vinnustofur – seinni hluti (framhald frá föstudeginum)

  • Kynntist nýrri viðbót í Google Forms – formlimiter sem auðvitað einfaldar lífið og sparar tíma.
  • Kynntist Flubaroo og sá að tæknin getur sparað tíma við yfirferð prófa og hægt að nota hann þá í annað.
  • Lærði betur á Doctopus og Goobric og sannfærðist um að kennararnir í Þelamerkurskóla verða bara að kynnast þessu.
  • Flakkaði um Google Photos með Hans Rúnari. Var minnt á að það er í lagi að tæma símann sinn um leið búið er að hlaða þeim þangað. Kannski óþarfi að hafa 6000 myndir á símanum sínum.
  • Skoðaði og fékk aðeins og prófa nýja Google Sides. Greinilega miklar framfarir og umbætur.
  • Fékk umræðu og leiðbeiningar um hvernig væri hægt að standa að því að koma skóla inn í Google Suite. Það urðu góðar umræður um hvort ætti að fara „alla leið“ eða hliðarleið.

15:00-16:00 Kaffi, kynning á afurðum, samantekt og slit 

Þá var komið að kveðjustund þar sem þess var heitið að halda áfram að vera í sambandi og styðja hvert annað í starfinu með að kveikja áhuga, innleiða, þróa og festa í sessi upplýsingatækni og sköpun í skólastarfi.

Samantekt

Það er erfitt að taka saman í fáum orðum hvaða áhrif viðburður eins og #UTís2016 hafa á þá sem taka þátt svo ekki sé talað um áhrifin til framtíðar á störf þeirra og samstarfsmanna þeirra. Fyrir mig eru það ómetanlegt að fá að taka þátt og fá að sjá hvernig eldmóður þessara kennara gerir skólastarf bæði meira skapandi og hvetjandi fyrir nemendur og kennara. Ég fullyrði að skólastarf er ríkara eftir #UTís2015 og #UTís2016. Það sanna m.a.:

  • umræðan á #menntaspjalli morgunsins á Twitter,
  • tístin sem þátttakendur sendu frá sér á UTís2016
  • myndirnar sem ég og Lína vinkona tókum
  • og frásagnir kennara á Twitter sem nú þegar eru farnir að nýta sér það sem þeir lærðu á UTís2016

Verði leikurinn endurtekinn er ég farin að hlakka til #UTís2017 og mun reyna að láta það ekki framhjá mér fara.

2 thoughts on “Enn er gagn og gaman á UTís2016

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.