Tvisvar í viku fæ ég þann heiður að vera boltasækjarinn við battavöllinn á skólalóðinni. Þegar boltanum er skotið út fyrir völlinn skokka ég af stað og kem honum aftur inn á völlinn. Ég æfi mig eins og ég get að skjóta boltanum beint af höndum og inn á völlinn. Í hvert skipti er grannt fylgst með því hvort ég hitti boltann eða ekki.
Fyrst á haustin og sérstaklega eins og veðrið hefur verið undanfarið finnst mér einstaklega skemmtilegt að fylgjast með börnunum á vellinum. Í frímínútunum áðan fylgdist ég með áhugasömum nemendur fyrsta bekkjar þeysast um völlinn ásamt nemendum 2.-5. bekkjar og þegar samræmda prófinu lauk bættust nokkrir 10. bekkingar í hópinn.
Það sem mér finnst lærdómsríkast að fylgjast með er félagsmótun fyrstubekkinganna; að sjá hvernig þeir reyna hvað þeir geta að lesa aðstæðurnar og bregðast við þeim, hver á sinn hátt. Ég sé hlédrægni þeirra, áræðni, útsjónarsemi, sáttfýsi og seiglu. Ég sé líka hvernig nemendur sem eru þeim eldri bregaðst við því að nýir og þeim yngri nemendur bætast í hópinn, tuddarnir verða jafnvel blíðari og „sólóspilararnir“ sjá oftar af boltanum en áður. Og ef fyrstubekkingur er í markinu er frekar skotið útfyrir en að dúndra í markið. Svo get ég aldrei fullþakkað þeim kennurum sem kenndu nemendum mismunandi aðferðir við að skipta í lið án þess að einhverjum nemendum finnist þeir vera útundan af því þeir eru valdir síðastir. Í morgun fylgdist ég með því hvernig stóru krakkarnir kenndu þeim yngstu eina af aðferðunum.
Um þessar mundir er víða um það rætt hvort gæsla í frímínútum geti talist til faglegra starfa eða ekki, þ.e. hvort hún eigi og hvort hana megi setja í B-hluta kjarasamnings FG. Eftir frímínúturnar í morgun og umhugsunina eftir þær þá flokka ég starf mitt sem boltasækjari sem faglegt starf og ef þess þyrfti ég myndi hiklaust setja það verkefni í B-hlutann á vinnumatsblaði mínu.