Á námskeiði sem Skólastjórafélag Íslands hélt fyrir nýja og reynda skólastjórnendur 17. og 18. september hélt Anna Kristín Sigurðardóttir dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands fyrirlestur um kennslufræðilega forystu.
Í fyrirlestrinum lagði Anna Kristín m.a. áherslu á að kennslufræðileg forysta væri ekki verkefni sem væri unnið í eitt skipti fyrir öll. Það væri heldur ekki verkefni sem bankaði á dyrnar eða kæmi í tölvupósti og þyrfti að vinna fyrir ákveðinn tíma og skila áður en frestur rynni út. Hún sagði að kennslufræðileg forysta væri verkefni sem krefðist frumkvæðis skólastjórnenda. Kennslufræðileg forysta er verkefni sem þyrfti með ákveðnu kerfi, að koma fyrir í skólastarfinu, bæði hjá stjórnendum og starfsfólki skólanna. Það þýðir að til þess kennslufræðileg forysta verði hluti af daglegu starfi skólastjórnenda þurfa stjórnendur að gera hana að vinnuvenju, bæði sinni eigin og einnig kennara. Sem dæmi nefndi Anna Kristín að hún hefði einu sinni verið í viðtali hjá skólastjórnanda og í miðri heimsókn hringdi viðvörun í símanum hans, skólastjórinn stóð upp og sagðist þurfa fara í heimsóknir í kennslustofur. Hún mátti síðan bíða eftir honum á meðan hann sinnti heimsóknunum.
Önnu Kristínu ber saman við Moniku Törnsén sem flutti erindi á Ledarforum NLS í Umeå í byrjun september. Monika sagði að sýnileiki kennslufræðilegrar forystu í skólastarfi færi eftir því hvernig skólastjórnandinn liti á þann hluta starfsins og kæmi honum fyrir í daglegu starfi.
Í erindi sínu sýndi Monika lista af rannsóknum á kennslufræðilegri forystu sænskra skólastjórnenda:
Í samantekt hennar á þessum rannsóknum flokkaði hún niðurstöður þeirra í fimm flokka eftir því hvernig skólastjórnendurnir litu á og komu kennslufræðilegri forystu fyrir í starfi sínu:
- Ég er góður kennslufræðilegur leiðtogi og tekst að koma því fyrir í daglegu starfi.
- Ég vil auka kennslufræðilega forystu í starfinu en ég hef ekki tíma og aðstæður til þess vegna annarra stjórnunarverkefna. Ég myndi gera það ef aðstæður breyttust.
- Ég trúi því að kennslufræðileg forysta skipti máli en ég kann ekki aðferðirnar við að iðka hana.
- Ég vil koma kennslufræðilegri forystu fyrir í starfinu en kennararnir vilja það ekki. Það er ekki traust á milli mín og þeirra.
- Ég hef enga trú á því að kennslufræðileg forysta mín skipti máli í skólastarfinu.
Í erindi Önnu Kristínar kom fram að samkvæmt rannsóknum á starfi íslenskra skólastjórnenda vilja skólastjórnendur hér á landi helst helga sig málefnum um nám og kennslu og til viðbótar gefa TALIS rannsóknirnar og rannsóknin Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar vísbendingu um að skólastjórar geti bætt vinnuvenjur sínar í kennslufræðilegri forystu.
Anna Kristín fór yfir dæmi um vinnuvenjur sem stuðla að samvirku námi bæði nemenda og kennara. Eins og sést á listanum hérna fyrir neðan geta þær verið fleiri en heimsóknir stjórnenda í kennslustofur:
Í menntabúðum á námstefnu Skólastjórafélags Íslands þann 9. október n.k. geta félagsmenn SÍ kynnst fleiri vinnuvenjum sem efla kennslufræðilega forystu í skólastarfi. Þar munu á annan tug félagsmanna deila reynslu sinni og þekkingu með því að segja frá því hvernig þeir hafa meðal annars stuðlað að vinnuvenjum sem skerpa kennslufræðilega forystu innan skólanna.