Lét greipar sópa

Í gær lét ég greipar sópa í ísskáp annarra en eftir á að hyggja finnst mér það afsakanlegt af því ég gerði það í nafni Kvenfélagsins Tilraunar í Svarfaðardal.

Frá því í byrjun júní hafa fornleifafræðingar leigt skólann hérna á Þeló og líka haft aðgang að mötuneyti skólans. Þegar þeir fóru í byrjun vikunnar sagði forsprakki þeirra að þeir hefðu skilið eftir dálítið af mat sem þeir gætu ekki tekið með sér og hann þyrfti að nota fljótlega. Ég fór ekki sama dag út í skóla en fór þangað fljótlega eftir hádegið í gær því ég hugsaði með mér að ekki væri gott fyrir næsta hóp sem kemur í skólann um helgina að matarleifar síðasta hóps tækju á móti þeim í ísskápnum.

Þegar ég kom yfir í eldhús tók ég eftir því að ekki hafði allt verið þvegið upp og sett aftur á sinn stað og svo var rusl í ruslafötunni. Ég skolaði könnur og glös, þurrkaði af borðum og fór út með ruslið svo þetta væri nú þokkalegt fyrir næsta hóp. Svo opnaði ég ísskápinn. Og þar blasti við mér augafullur ísskápur af mat! Ég dæsti og hugsaði með mér að mér myndi ekki takast að koma þessu í notkun áður en það skemmdist allt saman. Ég þyrfti liðsauka til að bjarga þessum verðmætum. Ég velti líka fyrir mér hvurs lags innkaup þetta hefðu eiginlega verið. Mitt í þeim pælingum mundi ég eftir því að Kvenfélagið Tilraun eldar fyrir gönguhóp í Svarfaðardal frá miðri viku og fram að helgi. Ég hafði nefnilega nýlega verið búin að tala við Óggu Siggu formann kvenfélagsins og lofa mér í eldamennsku í einni máltíðinni.

Ég reif símann uppúr rassvasanum og hringdi í formann kvenfélagsins og þuldi upp fyrir hana það sem var í ísskápnum og sagðist myndi koma með þetta út eftir á fimmtudagsmorguninn. Við vorum sammála um að nú hefði aldeilis hlaupið á snærið fyrir litla kvenfélgið í dalnum væna; nú kæmi sér vel að til eru fornleifafræðingar sem ekki kunna að kaupa inn.

Síðan tók ég til við að raða góssinu snyrtilega í frystihúskassa sem ég fann inni í búri og rogaðist svo með hann heim á Mörk. Sigri hrósandi sýndi ég Halldóri allt fíneríið sem kvenfélagið gæti nýtt úr þessum „matarleifum“. Ég kom þeim svo fyrir í kæli og í skottinu á bílnum svo allt yrði nú klárt áður en ég héldi með það út eftir. Ég hugsaði samt með mér að brettin tvö af eggjum sem ég kom ekki fyrir í kassanum myndi ég bara geyma í kælinum í skólanum þar til ég héldi út eftir á fimmtudagsmorguninn.

Eftir þessa miklu aðgerð fannst mér komið að því að setjast niður og fá mér kaffi í rólegheitum og láta mér líða vel yfir þessum happafeng kvenfélagsins. Þegar kaffið var rétt komið í bollann hringdi síminn og í honum var Skúli Gauta, atvinnu- og menningarfulltrúi sveitarinnar. Hann var áhyggjufullur og sagði: Ingileif, hér hjá mér eru nokkrir SEEDS sjálfboðaliðar og segjast hafa verið rændir. Nú? segi ég, hvar voru þeir eiginlega og hverju er hægt að stela af sjálfboðaliðum? Skúli svaraði: Þeir gista hér í skólanum um nokkurn tíma og voru búnir að birgja sig upp af mat fyrir dvölina. Á meðan þeir voru í vinnunni hvarf hann úr ísskápnum. Hefur þú orðið vör við mannaferðir í dag? Samstundis rann upp fyrir mér að hvalreki kvenfélagsins var þá ránsfengur! Ég vissi ekki alveg hverju ég átti að svara en stamaði: Ummm, ehhhh, já ég veit hvar maturinn er og kem strax.

Ég mátti sem sagt rogast aftur yfir í skóla með góssið og útskýra á útlensku fyrir aumingja sjálfboðaliðunum að góðgerðasamtök kvenna hefðu ætlað að gera gott úr „þessum matarrestum“ sem „fundust“ í kælinum. Ég veit ekki hvort boðskapurinn komst til skila en sjálfboðaliðarnir voru að vonum glaðir þegar þeir sáu aftur girnilegu útlensku pylsurnar sínar og ostana sína fínu sem gönguhópurinn í næsta dal átti að fá að gæða sér á.

Réttarkaffi Tilraunar í sept. 2012. Engu stolið, allt vel fengið.

Réttarkaffi Tilraunar í sept. 2012. Engu stolið, allt vel fengið.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.