Ingileif frænka kenndi mér að sykurbrúna möndlur (jóla- og aðventunasl) og svo hef ég vanið mig á að eiga alltaf tamari-ristaðar möndlur. Þegar ég gerði granólamúslið í dag varð afgangur af möndlunum og í stað þess að setja þær ofan í skúffu prófaði ég að búa til orkunasl innblásið af múslíblöndunni. Orkunaslið verður auðvitað nesti í gönguferðunum í næstu viku.
400 g möndlur með hýði
Setjið möndlurnar í 180°C heitan ofn þar til þær fara að verða gylltar á litinn.
Á meðan þær eru í ofninum setjið pönnu á eldavélina og stillið á meðalhita. Á pönnuna fara:
2 msk hnetusmjör
2 msk himnesk kókosolía
2 tsk hunang
salt milli fingra
2 msk sesamfræ
Hitið þessa blöndu að suðu.
Þegar möndlurnar eru orðnar gylltar er þeim dembt saman við blönduna á pönnunni. Hafið meðalhita á hellunni og hrærið í blöndunni þar til möndlurnar eru þurrar og losna hver frá annarri.
Sumum finnst betra að sjóða upp á möndlunum áður en þær eru ristaðar á pönnunni. Ég hef aldrei gert það. Mér dugar að setja 2-3 msk af vatni yfir möndlurnar um leið og ég tek þær úr ofninum og áður en ég set þær á pönnuna. Vatnið sýður á möndlunum og gufar upp og möndlurnar mýkjast mátulega.