Pestó

Image

Uppistaðan í rauðu pestó

Ég veit ekki hvernær ég kynntist pestó en eins og hjá fleirum er það orðið sjálfsagður hluti af því sem naslað er á Mörkinni. Oftast er það notað sem álegg eða viðbit á brauð en líka út á gott pasta; bæði út á heitt pasta og í kalt pastasalat.

Það eru til allnokkrar útgáfur af pestó. Sú sem er vinsælust hér á bæ er sú rauða (kallað Rauða hættan) og einnig hið hefðbundna græna basilikkupestó og líka klettasalatspestó. Þó ég eigi uppskrift að hundasúrupestó hefur ekki enn orðið úr því að ég búi það til.

Uppistaðan í pestó er auðvitað basil og besta bragðið fæst þegar næst að fá ferskt basil úr eldhúsglugganum. Síðan þarf í það furuhnetur eða möndlur (helst hýðislausar), parmesanost, hvítlauk og ólífuolíu. Í rauða pestóið bætast svo sólþurkkaðir tómatar.

Þó pestó hafi upprunalega verið búið til í morteli þá er venjan nú á dögum að nota matvinnsluvélar. Ég nota gamla múlínexið. Ég á enga eiginlega uppskrift að pestói en reyni að miða við það sem er hér fyrir neðan. Bæti því sem mér finnst vanta í uppskriftina hverju sinni til að fá „rétta“ áferð, þykkt eða bragð.

Grænt pestó I

2 lúkur af basil blöðum

25 g ristaðar furuhnetur

2 hvítlauksrif

75 g nýrifinn parmesanostur

Góð ólífuolía (ca 0,5-1 dl.) þar til maukið hefur fengið þá áferð og þykkt sem vill. Örlítið af salti (osturinn er saltur svo það þarf ekki mikið) og malaður svartur pipar og sítrónusafi.

Setjið basilblöðin, furuhneturnar og hvítlaukinn í matvinnsluvél. Setjið maukið í skál, rífið ostinn yfir og blandið ólífuolíunni saman við. Saltið og piprið eftir smekk.

Grænt pestó II (frá Önnu Rósu Bjarnadóttur vinkonu minni)

150 g kasjúhnetur sem hafa verið aðeins ristaðar í ofni

Safi úr einni sítrónu

2 hvítlauksgeirar

2 dl ólífuolía

2 tsk maldon salt eða auðvitað saltið af Reykjanesi við Djúp

1,5 búnt af ferskri baskilikku

Allt er sett í matvinnsluvél þar til það er orðið að mauki.

 

Grænt pestó III

2-3 lúkur af klettasalati

0,5 lúka af basilblöðum

25 g ristaðar furuhnetur

1 hvítlauksrif

75 g rifinn parmesanostur

Góð ólífuolía (ca 0,5-1 dl.) þar til maukið hefur fengið þá áferð og þykkt sem vill. Örlítið af salti (osturinn er saltur svo það þarf ekki mikið) og malaður svartur pipar og sítrónusafi.

Setjið klettasalatið, basilblöðin, furuhneturnar og hvítlaukinn í matvinnsluvél. Setjið maukið í skál, rífið ostinn yfir og blandið ólífuolíunni saman við. Saltið og piprið eftir smekk.

Rauða hættan (hættulega gott, maður hættir ekki fyrr  en allt er búið)

1 krukka af sólþurrkuðum tómötum (veiða tómatna uppúr og setja olíuna til hliðar)

1,5 lúka af basil blöðum

2-2,5 lúkur af ristuðum furuhnetum (fara samt varlega með magnið því bragðið á þeim má ekki yfirgnæfa tómat-, basil- og parmesanbragðið). Sumir nota hýðislausar möndlur í rautt pestó og það er í lagi. Mér finnast furuhneturnar samt betri.

1 hvítlauksrif

50-75 g (eftir smekk) nýrifinn parmesanostur

Olían af tómötunum. Örlítið af salti (osturinn er saltur svo það þarf ekki mikið) og nýmalaður svartur pipar. Setjið tómatana, basilblöðin, furuhneturnar og hvítlaukinn í matvinnsluvél (eða hakkavélina). Setjið maukið í skál, rífið ostinn yfir og blandið olíunni saman við. Saltið og piprið eftir smekk. Ef olían af tómötunum dugar ekki til að fá þá þykkt bæti ég góðri ólífuolíu saman við maukið.

Hundasúrupestó

Í matreiðsluþættinum Á bak við eldavélina í fréttabréfi Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá því í maí 2010 gefur kona að nafni Bolette upp uppskrift að hundasúrupestó. Til gamans læt ég þessa uppskrift fylgja með því á henni sést og einnig hinum hér að ofan að uppistaðan í maukinu er oftast sú sama og það er um að gera að leyfa hugmyndafluginu og bragðlaukunum að ráða við pestógerðina.

80 g hundasúrur, graslaukur, fíflablöð, steinselja eða annað grænt sem til er í húsinu eða garðinum

25 g furuhnetur

1 hvítlauksgeiri

salt

ólífuolía

3 msk ferskur rifinn parmesanostur

Setjið það græna, hnetur, hvítlauk og salt í matvinnsluvél þannig að það saxist smátt. Bætið olíu út í þangað til að ykkur finnst það mátulega lint. Bætið ostinum við í lokin.

 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.