Í vetur rak á fjörur mínar freistandi uppskrift að granolamúsli. Þá fór hún í bunkann með öllum hinum sem á eftir að prófa.
Nú þegar göngurnar eru framundan og við Halldór tókum að okkur að sjá um morgunmatinn fyrir allan hópinn var tímabært að draga fram þessa uppskrift. Og í dag prófuðum við Árni Heiðar að vinna eftir henni. Hann fékk að sjálfsögðu að hræra í þurrefnunum og síðan að sjá um forþvottinn á skeiðinni sem ég notaði til að hræra í blautefnunum.
Þetta er nokkuð stór uppskrift svo undir venjulegum kringumstæðum myndu vinir mínir fá að hluta hennar.
Þurrefni:
250 g hafrar
75 g kókosflögur
75 g kasjúhnetur
75 g pekanhnetur
75 g saxaðar möndlur með hýði
75 g sólblómafræ
40 g graskersfræ
40 g sesamfræ
1 tsk vanilluduft
2 tsk rifið múskat (hægt að nota duft)
1 tsk gróft salt
Blautefni:
80 g kókosolía
80 g hnetusmjör
1/2 dl hunang
Blanda þurrefnum saman í eina skál og blautefnunum í aðra. Blanda svo blautu blöndunni saman við þurrefnin. Gott að nota einnota hanska við það. Dreifa svo öllu jukkinu á ofnplötu og baka í ofni við 170°C í 15-20 mínútur. Hræra öðru hverju í blöndunni á meðan hún er í ofninum.
Við Árni Heiðar getum bæði mælt með þessu músli því eftir að það kólnaði gátum við ekki hætt að næla okkur í bita úr blöndunni og stinga uppí okkur.