Myndir úr heimsókn í Farsta III – Midsommarfest i Hornby

Fimmtudaginn 20. júní notuðum við til að „hvíla“ okkur. Við keyptum inn, elduðum, bökuðum og pökkuðum niður fyrir Jónsmessugleðina í Hornby. En það er sumarbústaður í landi þar sem móðir Ingegerd er fædd og uppalin. Hornby er nálægt Vesterås og stendur við vatnið Mälaren, þriðja stærsta vatn í Svíþjóð.

Á laugardagsmorguninn ókum við til Hornby og hittum þar bróður Ingegerd, Hans, konu hans Ritu og dóttur þeirra Siri. Við fórum saman að „félagsheimili“ í nágrenninu, dönsuðum þar í kringum midsommarstangen, drukkum kaffi og borðuðum köku. Eftir það ókum við að „næsta bæ“ en þar á presturinn heima og rekur þar verslun með vörum beint frá býli sínu. Áður en við héldum aftur heim í Hornby skoðuðum við stað þar sem kokkur hefur komið sér fyrir með rekstur sem býður uppá ferðir með víkingayfirbragði. Þá er siglt á knerri um vatnið, etið við opinn eld og baðað í heitri sánu og potti sem er hitaður upp með við. Ég er nú ekki viss um að þannig hafi víkingar baðað sig en þarna er það alla vega í boði.

Deginum lauk svo með grillveislu með öllu tilheyrandi. Þar borðuðum við m.a. ístertu sem ekið hafði verið frá Stokkhólmi í kæliboxi í meira en 20 stiga hita áður en hún komst aftur í frysti. Og bragðaðist eins og hún hefði aldrei farið úr húsi í Farsta.

Binni sá auðvitað um að grilla eins og sést á myndunum.

Á laugardeginum fórum við í skógargöngu áður en við fórum aftur heim í Farsta.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.