Sköpun í skólastarfi held ég að sé ekki bara að fjölga tímum sem eru sérmerktir list- og verkgreinum. Skapandi skólastarf snýst m.a. líka um að við sem þar störfum nýtum okkur tímann, kennslugögnin, tæknina og aðrar bjargir okkar á skapandi hátt.
Um daginn rak á fjörur mínar umfjöllun og myndband sem sýna hvernig kennari nýtir „dótið“ í kennslustofunni á nýstárlegan hátt í námsleik í samfélagsfræðitíma. Kennarinn notar landakort, kortabækur, Skype og smarttöflu. Þetta væri vel hægt að leika eftir þó maður eigi ekki smarttöflu. Hér er sú tafla einungis notuð í stað skjávarpa og sýningartjalds.
Í myndbandinu (tekur 20 mín) þótti mér sérstaklega skemmtilegt að sjá virkni nemenda, samvinnu þeirra, leik- og námsgleði og hvernig þeir af einskærum áhuga brjóta heilann við að búa til spurningar, svara þeim og að finna út hvaða upplýsingar þeir fengu úr vísbendingunum sem svörin gáfu þeim. Einnig fannst mér áhugavert að hlusta á hugtakanotkun nemenda.