Súkkulaðikakan Ljúflingur

Image

Hjá okkur, eins og á fleiri heimilum er til uppskrift að súkkulaðikökunni sem öllum finnst sú allrabesta. Hún er eiginlega bökuð við öll tækifæri og þykir ævinlega ljúffeng. Uppskriftin er sjálfsagt upprunalega úr einhverju blaði eða bók, alla vega er sú sem hér er farið eftir handskrifuð á umslag sem er orðið kámugt af súkkulaði og smjöri. Aldrei hefur verið reynt að gera þessa uppskrift „holla“ með nýmóðis æfingum. Alltaf notað íslenskt smjör, hvítur sykur og hvítt hveiti. Sykurinn hefur að vísu verið minnkaður miðað við upphaflegu uppskriftina (úr 225 g í 180-200 g). Það hefur ekki komið niður á gæðum kökunnar.

Í dag var hún bökuð í tilefni af afmælisveislu frumburðarins og hafði hann sjálfur pantað hana í veisluna sína. En uppskriftin er svona:

4 egg

180-200 g sykur

200 g íslenskt smjör

200 g suðusúkkulaði (hef bara prófað Síríus konsúm)

75 g hveiti

Smjör og suðusúkkulaði er brætt saman í potti og kælt. Síðan eru eggin og sykurinn þeytt saman og kældri súkkulaðibráðinni bætt varlega saman við. Hveitinu bætt útí með sleif.

Ég set þetta deig í tvö lausbotna mót (22 cm). Ég bý til tvo hringi úr bökunarpappír sem eru jafnstórir og botninn á mótunum. Set pappírinn í botninn á mótunum og maka smjörlíki í hliðarnar á mótunum. Þannig verður auðvelt að losa kökurnar eftir baksturinn og þær fá jafnar og fallegar hliðar. Þetta kenndi Hulda Rós vinkona mín mér þegar ég bakaði 15 svona kökur fyrir brúðkaup frumburðarins. Þannig urðu allar kökurnar eins og pantaðar úr príslista.

Kökurnar eru bakaðar við 170-180° C heitum ofni í 30-35 mínútur. Það fer eftir því hve blauta maður vill hafa hana í miðjunni.

Ofan á kökurnar set ég krem sem ég bý til úr Góa kúlum (sumir nota Fílakaramellur en þær eru ekki alltaf til í „búðinni“), suðusúkkulaði og pínulítið af rjóma.

150 g Góa kúlur

60 g suðusúkkulaði

0,5 dl rjómi

Kúlurnar eru bræddar í rjómanum við vægan hita og súkkulaðinu bætt útí. Þegar karamellan í kúlunum hefur bráðnað er kremið tilbúið og hægt að hella þvi yfir kökurnar.

Þær eru svo bornar fram með þeyttum rjóma og jarðaberjum (eða öðrum berjum eða ávöxtum sem hver vill). Það er líka gott að borða kökuna volga með vanilluís.

Stundum hef ég sett allt deigið í eitt eldfast form og borið kökuna fram í forminu.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.