
Horft og kúrt á rigningadegi sumarið 2015
Fyrir um það bil tveimur árum gaf tengdamóðir mín mér afganga af bómullargarni sem hún gat ekki notað og við héldum að ég gæti notað það í klúta- eða tuskuhekl. Seinna kom í ljós að svo var ekki, þannig að ég ákvað að hekla dúkkuteppi fyrir ömmustelpurnar. Úr varð að ég heklaði teppi sem er ögn stærra en ungbarnateppi (120 cm x 80 cm) og ég kallaði krakkakúru; þ.e.a.s. teppi fyrir krakka til að kúra undir. Í teppið fóru líka aðrir garnafgangar sem ég tíndi til úr öllu skúffum og skápum. Það er mesta furða hvað hefur safnast mikið upp af garni í húsinu. En úr þessu safni varð hið besta teppi sem krakkar kúra undir og láta sér líða vel eða nota það til að leika sér.
Þó fyrsta krakkakúran væri komin í notkun var ennþá nóg til af garni og mér sýndist ég geta gert aðra. Ég byrjaði á annarri krakkakúru í jólaleyfinu 2015. Þetta var verkefni sem ég greip af og til í og vann með annarri handavinnu árið 2016. Ég vann í því þegar ég tyllti mér niður í stofunni og vantaði eitthvað til að hafa á milli handanna eða ég hafði ekkert annað að hekla eða prjóna.
Ég lenti að vísu í vandræðum þegar mér datt í hug að setja ömmudúllur í miðjuna og þurfti að hugsa framhaldið uppá nýtt. Það fór svo að ég þurfti að „byrja á endanum“ og hekla þann hluta svo við dúllurnar í miðjunni. Í þessu brasi komst ég næstum í fýlu út í verkefnið en dúllaði samt við það af og til. Í jólaleyfinu um daginn komst ég svo að því að lítið var eftir og að nú væri kannski hægt að nota tímann til að sættast við þessa krakkakúru og ljúka við hana.
Nú bíða tvær krakkakúrur í sófanum á Þelamörk eftir því að krakkar komi í heimsókn kúri undir þeim eða noti þær í leiki, úti eða inni. Og hver veit nema þriðja krakkakúran verði svo til á þessu ári?

Enn er nóg til af garninu