Fræðileg umfjöllun

Samantekt

Af því sem hefur komið fram í þessu verkefni eru forsendur fyrir þróun fagmennsku kennara og stjórnenda, þeirra eigið frumkvæði að ígrundun og því hvaða samskiptaleiðir þeir velja til að deila þekkingu sinni og reynslu (Hargreaves og Fullan, 2012; Sheninger, 2014; Wheeler, 2015; Whitaker og félagar, 2015; Fullan og Hargreaves, 2016). Með tilkomu miðlanna sem vefurinn og tæknin gefa hefur einangrun kennara og skólastjórnenda minnkað og þeir hafa nú fleiri leiðir en nokkru sinni áður til að deila starfi sínu og ígrundun með öðrum.  (Sheninger, 2014; Wheeler, 2015; Whitaker o.fl., 2015). PLE-líkan Wheeler (2015) sýnir glöggt að tæknin gerir það einnig betur mögulegt en áður að hver og einn sérsníði eigin starfsþróun að áhuga og aðstæðum hverju sinni. Sheninger (2014) og Whitaker og félögum (2015) ber saman um að kennarar þurfi að eiga frumkvæði að því að gera sér tengslanet á samfélagsmiðlum og að á fyrstu skrefunum kosti það áræðni að gera sig og það sem þeir standa faglega fyrir sýnilegt á netinu.

Virk starfsþróun er líka sameiginlegt einkenni samvirkrar fagmennsku, framtíðarfagmennsku og hinnar nýju fagmennsku (Guðmundur Heiðar Frímannsson o. fl., 2013; Sigurður Kristinsson, 2013). Í framtíðarfagmennskunni og þeirri nýju miðla kennarar þekkingu sinni og hlusta eftir nýjustu rannsóknum á sviði menntamála og tileinka sér nýjungar sem skipta menntun nemenda máli. Með nýrri tækni og leiðum samfélagsmiðlanna geta kennarar og stjórnendur auðveldlega fylgst með rannsóknarniðurstöðum og nýjungum í menntamálum.

Segja má að með hnattrænu og stafrænu tengslaneti skreppi heimurinn saman en um leið fjölgar þeim sem kennarar geta átt í samtali við um starf sitt og ígrundun. Eins og Sheninger (2014) og Whitaker og félagar (2015) árétta Hargreaves og Fullan (2012) að fagmennska kennara byggi m.a. á að þeir eigi frumkvæðið að eigin starfsþróun með því m.a. að segja öðrum frá starfi sínu. Þannig geti þeir skynjað sjálfa sig sem hluta af fagstétt og sýnt að þeir séu tilbúnir til að taka þátt í þróun skólastarfs, hvar sem er og hvenær sem er.