Fræðileg umfjöllun

Rafræn starfsþróun

Tæknin hefur gert okkur mögulegt að vera bæði færanlegri og snjallari en fyrr. Hún gefur þar með hugtökunum námsaðlögun og einstaklingsmiðað nám aðrar víddir til framkvæmdar en áður þekktust. Hún færir okkur tækifæri til að mæta fjölbreytileikanum með meira samstarfi og sveigjanleika en áður hefur verið hægt. Steve Wheeler (2015) gerir eigið persónulegt námsumhverfi (e. personalised learning environment) að umfjöllunarefni. Hann segir tæknina gera það enn betur mögulegt en áður að gera námsumhverfi nemenda þannig úr garði að námið og námsaðlögunin miði við aðstæður þeirra og áhuga þannig að þeir verði færir um að vera námsmenn allt lífið (e. livelong learners). Vegna þess að viðurkennt er að kennarastarfið er ævilangt nám þá er auðvelt að heimfæra umfjöllun og líkan Wheeler (sjá mynd 3) upp á starfsþróun kennara og stjórnenda. Enda notar Wheeler eigin starfsþróun sem dæmi í umfjöllun sinni.

Wheeler (2015, bls. 123-127) bendir á hvernig persónulegt tengslanet (e. personal learning network) sem hver og einn kennari og stjórnandi hefur komið sér upp sér til stuðnings og til að læra af, getur nýst þegar á þarf að halda. Hann bendir á að í PLE-líkaninu (sjá mynd 3) sé tengslanetið hluti af námsumhverfinu enda taki PLE-líkanið mið bæði af því sem hægt er að læra í formlegu námsumhverfi og einnig því óformlega. Með PLE-líkaninu hefur námsumhverfið verið stækkað og viðurkennt að nám getur víðar farið fram en innan fjögurra veggja skólastofnunar með áður þekktum og hefðbundnum leiðum.

Mynd 3: PLE-líkan Wheeler (2015, bls. 124).

Lærdómurinn innan PLE-líkansins hverfist um samskipti, bæði í raunheimum og netheimum. Í þessum samskiptum er búið til efni sem er miðlað og komið skipulega fyrir svo það megi nýtast við áframhaldandi lærdóm. Netið bætir verkfærum eins og bloggi og samfélagsmiðlum við þau verkfæri sem áður þekktust til að miðla nýrri þekkingu. Dæmi um það eru fyrirlestrar, bækur, greinar í tímaritum, listaverk eða samantekt á veggspjaldi. Wheeler leggur áherslu á að netið geri söfnun og aðgengi að efni fjölbreyttara og viðameira en nokkru sinni áður. Það sé lifandi þekkingarbrunnur sem byggist upp á tengslaneti þar sem fólk deilir sögum sínum og hugmyndum og hafi möguleika á að læra hvert af öðru; hvenær sem er og hvar sem það er statt í heiminum.

Mynd 4: Hefðbundið tengslanet kennara og tengslanet kennara sem nýta netið og verkfæri þess til að mynda tengslanet (Sheninger 2014, bls. 119-120)

Eric Sheninger (2014) er á sömu skoðun og Wheeler í umfjöllun sinni um kosti þess að nýta netið og samfélagsmiðla til starfsþróunar. Hann skrifar um eigin reynslu og annarra skólastjórnenda sem nota samfélagsmiðla til að segja sögur af skólastarfinu og eigin starfi ásamt því að nýta það til að fá ráð og leiðbeiningar. Hann ber saman hefðbundið tengslanet kennara (e. typical teacher network) og tengslanet kennara sem nýtir netið og verkfæri þess (e. the networked teacher). Eins og sjá má eru gagnvirk samskipti í starfsþróun meiri hjá kennurunum sem nýta netið og verkfæri þess til starfsþróunar en hjá þeim sem ekki gera það. Hvatning þeirra sem nota netið og verkfæri þess til að tengjast öðrum kennurum er löngunin til að læra meira og að gera betur en áður. Það er mat Sheninger að myndun faglegra tengslaneta á samfélagsmiðlum og samskiptin sem fara þar fram eigi að vera viðmiðið en ekki undantekningin hjá kennurum og sér í lagi hjá stjórnendum. Þannig geti þeir verið skapandi gerendur í eigin starfsþróun og lært hvar sem er, það sem skiptir þá máli og þegar þeir þurfa á því að halda. Hann leggur áherslu á að því stærri sem samstarfsnet kennara og stjórnenda verða, því snjallari verði þau.

Todd Whitaker, Jimmy Casas og Jeffrey Zoul (2015) byggja umfjöllun sína um tengda kennaranum (e. connected educator) á átta viðmiðum. Eins og í umfjöllun Sheninger er rauði þráður viðmiðanna samvinna, virkni og gagnvirkni. Í samantekt þeirra er drifkraftur kennaranna sem nýta tíma sinn í að tengjast öðrum kennurum víðs vegar um heiminn með aðstoð samfélagsmiðla og annarra verkfæra á netinu, viljinn til að vaxa í starfi, bæði sem persónur og fagmenn. Whitaker, Casas og Zoul segja að forsenda þess að kennarar geti stuðlað að námi sem miðar við hæfni 21. aldarinnar sé að þeir sjálfir tileinki sér verkfærin sem tæknin býður. Þannig geti þeir stutt við nám nemenda og þekkt hvernig hægt er að nýta netið og tæknina til náms alla ævi. Eins og Wheeler (2015) og Sheninger (2014)  hvetja Whitaker og félagar kennara til að vera sýnilegir á netinu og að vera óhræddir við að segja frá starfi sínu, spyrja spurninga og gefa ráð og leiðbeiningar. Þannig hafi þeir allt að vinna; fyrir eigin þróun í starfi, fyrir nemendur og ekki síst fyrir menntun til framtíðar.