Hvenær hefði ég trúað því að ég fengi tækifæri til að verða skiptinemi í útlöndum þegar ég væri orðin sex barna amma? En þannig er það núna því á morgun held ég til Edmonton í Alberta fylki í Kanada. Þar mun ég dvelja næstu tíu dagana og búa hjá og fylgja eftir skólastýrunni Aoife Cahill. Hún er skólastýra í St. Luke Catholic School. Ferðin er hluti af samstarfsverkefni Skólastjórafélags Íslands og Kennarasambands Alberta fylkis. Verkefnið er tveggja ára hér á landi. Í fyrravetur fóru þrjár skólastýrur frá Íslandi til Kanada og hver um sig dvaldi hjá skólastýrum þar. Og á vorönninni komu svo þær kanadísku í heimsókn til Íslands. Í ár erum við fjórar sem tökum þátt í verkefninu. Í fyrra blogguðu þær sem þá tóku þátt. Bloggið þeirra er hægt að lesa með því að smella hérna.
Skólinn sem ég heimsæki er í þéttbýlinu South Cooking Lake sem er um það bil 35 km. suðaustur af Edmonton. Nemendur St. Luke Catholic School koma í skólann með skólabílum og þeir sem ferðast um lengstan veg eru í skólabílnum í 75 mínútur. Aoife lýsir samfélaginu sem þéttu, vingjarnlegu og samhentu. Í skólanum eru 176 nemendur á aldrinum 4 til 14 ára. Í skólanum starfa 16 kennarar. Í starfi sínu leggur skólinn áherslu á heilbrigða lífshætti og því til stuðnings eru hann hluti af verkefni sem heitir APPLE Schools. Skólinn leggur sig fram að bjóða nemendum hollan og næringaríkan mat og hreyfistundir á hverjum degi, eins og jóga og hjólaskauta.
Frá því í haust höfum við Aoife verið í tölvupóstssambandi og við fylgjumst líka að á Twitter og Instagram. Í google skjali sem við bjuggum okkur til veltum fyrir okkur hvaða væntingar við hefðum til þessa verkefnis. Mig langar að kynnast því:
- hvernig skólayfirvöld styðja við skólastjórnendur
- hvernig starfsþróun kennara er háttað
- hvernig áherslur aðalnámskrár sjást í daglegu starfi skólans
- einnig hlakka ég til að sjá og heyra það sem Aoife og kennararnir við St. Luke Catholic School eru stoltastir af í starfi skólans
Í gær fékk ég dagskrá næstu viku. Mér þykir hún spennandi; sérstaklega þar sem ég næ því að vera í Kanada á hrekkjarvökunni. Það verður skemmtilegt að fá að fylgjast með henni bæði heima hjá Aoife og einnig í skólanum. Ég fæ líka að heimsækja tvo aðra skóla, hitta fleiri skiptinema og heimsækja skólaskrifstofu umdæmisins.





En þangað til á morgun ætla ég að njóta haustblíðunnar hjá bróður mínum og fjölskyldu í Portland í Oregon.