Sáttmáli um snjalltækjanotkun

Reglulega verða umræður innan skólasamfélagsins og víðar um hvort leyfa eigi nemendum að vera með eigin snjalltækja í skólanum. Það vill verða svo að umræðan verði á köflum svarthvít og fólk skiptist í hópa; með eða á móti notkun snjallsíma í skólum. Í þessu eins og öðru er það ekki þannig að ein niðurstaða útiloki aðra:

 • ef eigin snjalltæki nemenda eru leyfð þá þurfi ekki önnur tæki til náms
 • eða ef eigin snjalltæki eru ekki leyfð þá sé nóg að skólinn græji sig upp og eignist fartölvur, Chrome books og Ipada fyrir nemendur.

Ljóst er að ef nemendur eiga að hafa tækifæri til að vinna fjölbreytt verkefni sem reyna á margs konar hæfni sem muni nýtast þeim bæði í námi og starfi til framtíðar þurfa þeir að hafa aðgang að margvíslegum tækjum; þar á meðal eigin snjalltækjum. Það sem nefnt er „góður tækjakostur skóla“ dugar þá ekki til.

Það er vegna þess að einn helsti kostur eigin snjalltækja er m.a. að hver og einn getur sniðið uppsetningu þess að eigin þörfum og notkun, í námi, leik og starfi. Öppin og verkfærin í þessum tækjum eru þau sem eigiandi tækisins hefur fundið út að nýtast honum. Að útiloka eigin snjalltæki nemenda frá skólastarfi, þ.á.m. símana þeirra, er þá val skólans um að nýta ekki möguleika tækninnar til að aðlaga námsumhverfi barnanna að hverju einu þeirra.

Árið 2014 var umræða meðal kennara Þelamerkurskóla um aukna og truflandi símanotkun nemenda í skólanum. Enda hafði skólinn þá nokkru áður sett upp opið net í skólanum. Í kjölfarið á umræðu starfsmanna skólans var ákveðið að setja af stað umræðu meðal nemenda mið- og elsta stigs um símanotkun á skólatíma. Í gegnum Olweus áætlunina gegn einelti og uppeldisstefnuna Jákvæðan aga er í skólanum hefð fyrir bekkjarfundum og þótti við hæfi að nýta bekkjarfundi til umræðna um símanotkun og almennt um það hvernig tíminn í skólanum er nýttur. Til að ramma inn umræðuna og að „ydda“ hana voru settar fram spurningar um hvernig og hvenær hægt væri að nýta símana, annars vegar til afþreyingar og hins vegar til náms. Einnig var rætt um hvað annað væri hægt að gera sér til afþreyingar en að „hanga“ í símanum. Í umræðunni sýndi það sig að það sem við fullorðna fólkið töldum vera hangs í síma var oftar en ekki uppbyggileg tómstundaiðja eða samskpti. Símana notuðu nemendur líka t.d. til að tengja við hátalara í stofunum svo þeir gætu hlustað saman á tónlist í frímínútum; lagalista sem nemendur höfðu sjálfir sett saman og höfðu aðgang að í eigin tæki.

Ég sem þá starfaði sem skólastjóri skólans og aðstoðarskólastjóri hans mættum á þessa bekkjarfundi og lögðum á þeim fram tillögu að sáttmála um notkun eigin snjalltækja nemenda í skólanum:

 • Við erum sammála um að það megi koma með farsíma og snjalltæki í skólann en þau eiga að vera ofan í tösku og slökkt á þeim á skólatíma (kl. 8:30-14:20)
 • Við erum sammála um að þegar ekki er farið eftir þessari reglu er síminn eða snjalltækið gert upptækt og foreldrar þurfa að sækja tækið til skólastjóra.

Nemendur fengu tækifæri til að velta tillögunni fyrir sér á fundinum en svo fengu þeir viku til að gera skriflegar breytingatillögur á sáttmálanum. Tillögunum var skilað í kassa á gangi skólans. Þær þurfti að merkja með nafni svo að tillagan yrði tekin gild. Þegar vikan var liðin skráðum við tillögur nemenda og flokkuðum í þrjá flokka:

 • Notkun
 • Geymsla
 • Viðurlög

Flestar tillögurnar frá nemendum vörðuðu notkunina og þeir voru nokkuð sammála og meðvitaðir um að símarnir gætu verið truflandi í kennslustundum. Einnig komu fram athugasemdir á tillöguna um að foreldrar ættu að sækja símana ef nemendur þyrftu að afhenda þá starfsfólki skólans.

Eftir að hafa farið yfir tillögur nemenda var settur saman eftirfarandi sáttmáli:

 • Við erum sammála um að það megi koma með farsíma og snjalltæki í skólann en í kennslustundum eiga þau að vera ofan í tösku og slökkt (öll hljóð og titringur) á þeim nema kennari leyfi annað.
 • Nemendur bera sjálfir ábyrgð á tækjum í persónulegri eigu sem þeir koma með í skólann.
 • Við erum sammála um að síma og snjalltæki er hægt að nota til afþreyingar í hádegishléi, morgunverðarhléi, þegar kennslustundir falla niður og þegar nemendur 7.-10. bekkjar eru inni í frímínútum á þriðjudögum og fimmtudögum.
 • Það er með öllu óheimilt að taka upp hljóð, myndir eða myndbönd á hvers konar rafeindatæki án leyfis.
 • Við erum sammála um að þegar ekki er farið eftir þessum reglum þá afhendi nemandi starfsmanni skólans símann/snjalltækið. Nemandinn getur sótt símann/tækið til skólastjórnenda að loknum skóladegi. Atvikið skal skrá í Mentor og tilkynna foreldrum. Við ítrekuð brot á reglunum þurfa foreldrar að sækja símann/snjalltækið í skólann að loknum skóladegi.

Tillögur nemenda og ofangreindur sáttmáli voru síðan lögð fram til umræðu á bekkjarfundum með nemendum og sáttmálinn var samþykktur án breytinga. Foreldrar fengu upplýsingar um ferlið á meðan á því stóð og endanlega útgáfu sáttmálans eftir að hann hafði verið samþykktur. Tveimur árum seinna (í febrúar 2016) var sáttmáliinn endurskoðaður og þá þótti ástæða til að bæta einum lið við hann.

 • Við erum sammála um að matmálstíma og útifrímínútur notum við til samtala, samveru og leikja. Þess vegna eru símar og snjalltæki ofan í tösku á þessum tíma.

Og í síðusta punktinum var síðasta setning hans tekin út. Foreldrum var ekki blandað frekar í brot á þessum reglum. Enda hafði aldrei reynt á þennan hluta sáttmálans á þeim tveimur árum frá því að hann var gerður og þar til hann var endurskoðaður.

Þetta vinnulag nýttist okkur á þeim tíma sem það var unnið. Það er ekki víst að það myndi henta hverju skólasamfélagi á hvaða tíma sem er. En með þessu vinnulagi vildum við nota tækifærið til að efla nemendur til umræðna um málefni sem varðaði þá sjálfa og í leiðinni gefa þeim færi á að hafa áhrif á eigið umhverfi. Með þessu móti lærðu nemendur á lýðræði með eigin þátttöku og virkni í umræðum að sameiginlegri niðurstöðu. Það er reynsla mín að nemendur eru verulega snjallir og þeir verða enn snjallari með ígrundaðri og meðvitaðri notkun snjalltækjanna sinna, þar á meðal eigin síma. Þess vegna eiga símarnir að vera hluti af formlegu námsumhverfi þeirra, eins og öðru umhverfi þeirra.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.