Einu sinni hélt ég að það væri eins og í jólalaginu Nú skal segja, bara fyrir gamlar konur að prjóna sokka og að snúa sér svo í hring. Ég myndi ekki geta lært að prjóna hæl á sokka þó að ég gæti léttilega snúið mér í hring. En svo kom að því að ég bara byrjaði og prófaði að prjóna röndótta sokka með hæl sem var prjónaður í garðaprjóni (kallaður stundaglas hæll). Það fannst mér einfalt og framleiddi þá eitt haustið í jólagjafir.
Uppskrift sokkanna fann ég í bókinni Sokkar og fleira eftir Sigrúnu Harðardóttur. Í þeirri bók er líka uppskriftin að snúningssokkunum vinsælu. En þeir eru án hæls og „vaxa“ því með börnunum. Freyja Ösp fékk eina bleika um daginn svo henni yðri ekki kalt á fótunum þegar hún svæfi úti í vagninum sínum.
Það eru til margar bækur og netsíður um sokkaprjón og hælagerð. Sú sem ég nota mest heitir Sokkaprjón og er eftir Guðrúnu S. Magnúsdóttur. Mér finnast mynstur og leiðbeiningar hennar vera skýrar og lýsandi. Núorðið tek ég mynd á símann minn af leiðbeiningunum hverju sinni. Það er óneitanlega hentugra en að hafa bókina eða ljósrit með sér í veskinu.
Fyrstu sokkarnir sem ég prjónaði úr Sokkaprjóni voru handa sjálfri mér. Þeir eru nokkuð víðir og passa því ekki ofan í skó eða stígvél. Þetta eru eiginlega „innikúrisokkar“.
Með leiðbeiningar í símanum og prjónana í veskinu er hægt að grípa í sokkaprjón næstum hvenær sem er. Og þá sérstaklega ef mynstrið er ekki flókið eða litirnir ekki margir. Ég hef keypt marglitt garn í Storkinum og gert hnésokka á Karen Sif og Árna Heiðar. Garnið heitir Regia og er ullargarn með 25% polamyd sem gerir sokkana sterkari en ella.
Eiginlega urðu fyrstu sokkarnir óvart hnésokkar vegna þess að þing KÍ fyrir 3 árum dróst úr hófi, ég var ekki með leiðbeiningarnar að hælaprjóninu í veskinu og því lengdist sokkurinn. Þar kom málþóf að góðu gagni því eitt par að liprum hnésokkum þykir nú nauðsynlegt ofan í stígvélin hjá smælkinu í fjölskyldunni. Sérstaklega ef sokkarnir eru liprir og sterkir.
Upphaflega hafði ég keypt hnotur af þessu garni til að gera sokka fyrir sjálfa mig en það beið nú þar til sl. vor. Mér fundust þeir sokkar svo liprir og hlýir að mig langaði í annað par. Svo nú eru aðrir sokkar úr þessu góða garni á prjónunum. Mér finnst þægileg að styðjast við þessar leiðbeiningar Basmonster_REGIA_No.
Næstu sokkar verða hnésokkar fyrir Freyju Ösp því þegar hún fer að ganga þarf hún auðvitað að eiga hnésokka með hæl ofan í stígvélin sín. Þá gæti ég til dæmis haft hnésokkana sem ég sá í vetur á Byggðasafninu á Húsavík til hliðsjónar. Eða fengið mér nýja hnotu af litríka garninu hjá Regia.
Með því bara að byrja að prjóna sokka get ég bæði prjónað sokka og snúið mér í hring þó ég sé ekki orðin svo svakalega gömul kona.