Bara byrja, núna!

Just-Do-It-NowVið áramót hef ég haft það fyrir sið að líta yfir liðið ár og skoða hverju ég myndi vilja breyta á því næsta. Nú við síðustu áramót voru þó nokkur verkefni sem ég átti óunnin; verkefni sem voru búin að velkjast á listanum lengur en ég vildi muna. Einnig voru þar verkefni sem ég fann að ég þurfti að gera en fannst ég ekki finna tíma til að klára. Upp úr þeim hugleiðingum varð til nafnið á þetta blogg: Bara byrja.

Það er þannig með mörg verkefni að um leið og byrjað er á þeim þá er eins og þau minnki og verði ekki eins óyfirstíganleg og þau virðast í fyrstu. Á þessari vefsíðu um tímastjórnun hafa einhverjir komist að því sama.

Á síðasta ári las ég bók sem heitir The Happiness Project  Þar segir Gretchen Rubin frá því hvernig hún vann að því að auka hamingju í daglegu lífi, leik og starfi. Hún setti sér markmið fyrir hvern mánuð ársins og gerði það upp í lok mánaðar og setti sér nýtt markmið fyrir næsta mánuð. Þegar ég hugaði að verkefnum ársins 2013 datt mér þessi aðferð Rubin í hug og ákvað að prófa hana. Og til að halda utan um verkefnið þótti mér tilvalið að setja saman vefsíðu um það. Ég hafði hvort eð er haft það lengi á stefnuskránni að koma mér upp bloggsíðu, að skrifa meira og að halda dagbók. Held að bloggsíða geti náð utan um mörg þessara verkefna. Svo læri ég kannski eitthvað nýtt.

Ég áforma að setja inn stutta pistla á síðuna tvisvar í viku. Ef það tekst ekki þá endurskoða ég það bara. Annar pistlanna á að vera um verkefnið, Bara byrja, hinn um eitthvað af eftirtöldu: Á ferð og flugi, gönguferðir, fjölskyldan,  handavinna, nám, ræktun og berjatínsla, matarstúss eða hlaup). Pistlarnir geta verið langir eða stuttir eða kannski bara mynd. Allt eftir því hvað tíminn og skapið leyfir.

Verkefnið Bara byrja fær að taka á sig mynd á meðan árið líður. Nú þegar hef ég ákveðið að í janúar muni ég skoða hvernig ég ver tíma mínum og kanna hvort ég geti stýrt betur í hvað hann eiginlega fer. Nú þegar veit ég að listinn minn yfir óunnin verk í vinnunni er lengri en ég þoli. Svo að til að lengja tímann sem ég get unnið í ró úti í skóla áforma ég að vera kominn yfir á skrifstofu kl. 7 á morgnana nú í janúar. Eftirmiðdagurinn fer svo eins og venjulega í hreyfingu og matarstúrss. Handavinnan verður svo að bíða þar til eftir kvöldmat og vera í samkeppni við námið og þetta blogg. Þessi áform verða gerð upp í lok mánaðar.

Febrúar ætla ég að nota til að taka til á skrifstofunni og hér heima. Það eru fimm ár liðin frá því að við fluttum á Mörkina og ég byrjaði í Þelamerkurskóla og þegar ýmislegt „ónauðsynlegt“ farið að safnast fyrir.

Í mars verður hugað að ræktun. Sáð fyrir kryddjurtum og þá verður endanlega búið til skipulagið á ræktuninni hér á Mörkinni. Ræktun gefur mér ómælda ánægju en ég hef ekki sinnt henni eins mikið undanfarin vor og sumur eins og ég vildi.

Fleiri áherslur er ekki komnar á blað. En skrái þær hér jafnóðum og þær verða til.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.