„Spottuð“ af algoriðma You Tube

Fyrir helgi datt mér í hug að prófa hugmynd sem ég sá á bloggi hjá Flipgid. Hún gekk út á að vera með beina útsendingu á You Tube, leggja þar verkefni fyrir nemendur sem þeir svöruðu á Flipgrid. Þetta virtist snjöll hugmynd en eitthvað truflaði mig við hana svo mér fannst ég þurfa að prófa hana. Ég auglýsti eftir sjálfboðaliðum meðal kennara sem vildu leika nemendur í þessari prufu. Margir buðu sig fram.

Mér fannst þetta spennandi tilraun því ég hafði sjálf t.d. aldrei prófað beina útsendingu á You Tube, bara Facebook og Twitter. Og svo finnst mér Flipgrid svo mikið fyrirtak. Galvösk stofnaði ég beina útsendingu á You Tube svæðinu mínu. Ég hefði hana „unlisted“ og merkti við að útsendingin væri ætluð börnum (enda ekkert ósiðlegt á ferðinni; bara upplestur fyrir kennara). Ánægð með mig afritaði ég hlekkinn að viðburðinum og setti hann í loftið.

Rétt fyrir tilsettan tíma í gær varalitaði ég mig, greiddi mér smekklega, lagaði hálsmálið á fallega sumarkjólnum sem ég hafði farið í fyrr um daginn og kom mér fyrir á huggulegum stað niðri í stofu. Fyrir aftan mig var málverkið Við ströndina. Það er nokkuð abstrakt og má alveg með góðum vilja skoðast þannig að konan á myndinni sé klæðalítil. Svo kveikti ég á útsendingunni og stillti bæði mig og tölvuna af. Mér fannst þetta bara lúkka vel. Sá töluna tvo í áhorfi og fékk samstundis skilaboð frá vinkonu þar sem hún segir að ég líti vel út, ég svara henni í skilaboðunum, brosi framan í myndavélina og set stút á munninn. Þegar útsendingin á að byrja þá rofnar hún og skjárinn hjá mér verður svartur og þau sem voru við hinn endann sáu þessa mynd:

Skömmu seinna barst mér tölvupóstur frá You Tube þar sem stóð: Eins og þú kannski veist lýsa reglur netsamfélagsins því hvaða efni við leyfum og leyfum ekki á YouTube. Vídeóið þitt Tilraun með Flipgrid var tilkynnt til okkar til yfirferðar. Eftir yfirferð höfum við komist að þeirri niðurstöðu að það brjóti gegn reglum okkar og höfum fjarlægt það af YouTube.

Mistökin sem ég gerði voru að öllum líkindum þau að merkja við að þetta væri ætlað börnum. Og líka sennilega að í framhaldinu sat ég svo of lengi sæt og tilbúin til að lesa fyrir kollega mína. Algoriðmi You Tube lagði saman tvo og tvo og henti útsendingunni út.

Ég dag endurtek ég leikinn á sama tíma. En ég hef lært að haka ekki í „ætlað börnum“, ég verð ekki í flegnum sumarkjól heldur í rúllukragapeysu, ég mun ekki beina myndavélinni að málverki af hálf-nakinni konu, ég verð ekki með mjög áberandi varalit og mun ekki brosa smeðjulega með stút á munni til vinkonu minnar hinum megin á línunni. Þetta verður allt innan marka siðseminnar.

Hérna fyrir neðan fer upplestur dagsins svo fram kl. 15:00 ef allt fer vel