Gæti ekki verið betra

Fyrri helgin hérna í Sherwood Park leið hratt og nýttist vel til að kynnast Aoife og fjölskyldu hennar. Á laugardeginum fórum við og dætur Aoife, Kathleen (5 ára) and Eileen (3 ára) í göngutúr í fyrsta snjó vetrarins í Elk Island Park. Þar náðum við að sjá bjór spóka sig í ísköldu vatninu, bison-uxa næra sig á sinunni og öðru sem bauðst í haustgróðrinum og leika okkur í hálkunni og sprengja örþunna ísskán af pollum. Það er greinilegt að hérna er haustið liðið og veturinn er mættur. Eins og heima talar fólk um að það sé sjaldan viðbúið því að veturinn sé kominn; á hverju ári komi hann of snemma og sé kaldari í ár en í fyrra.

Bjórinn sýndi okkur sundkúnstir.

Á meðan við gæddum okkur á kakóbolla og kanilsnúð var Poul, eiginmaður Aoife heima að útbúa fimm rétta kvöldverð fyrir okkur, foreldra Aoife, systur hennar, mág og þeirra börn. Kvöldið var ánægjulegt með yndislegum mat og góðum veigum. Fjölskylda Aoife kemur frá Írlandi og þau flutti hingað þegar hún var barn vegna þess að á þeim tíma sá faðir hennar, sem er læknir, fleiri tækifæri fyrir sig og fjölskylduna utan Írlands. Við gátum spjallað um Írland, Kanada, Ísland, pólitík, mat, vín og ferðalög.

Í gær (sunnudag) bauð Aoife mér á íshokkýleik í borginni, Edmonton. Það var til að kynnast „þjóðarsál“ Kanadabúa enn betur. Sem það sannarlega gerði. Leikurinn var á Rogers Place leikvanginum sem einnig þjónar sem tónlistarhús. Ég sá að á næsta ári eiga þau t.d. von á Ozzy Ossbourne og Celine Dion. Hokký-leikurinn var á milli Oilers (sem er heimalið Edmonton) og Florida Panthers sem unnu leikinn. Og að mér sýndist naumlega.

Það vakti athygli mína að næstum allir sem komu á leikinn voru klæddir í búning leikmanna og merktir með nafni og númeri einhvers liðsmanna. Á meðan á leiknum stóð voru alls kyns uppákomur og leikir fyrir áhorfendur. Í a.m.k. tveimur þeirra gátum við notað símana okkar. Í einum þeirra kveiktum við á verkfæri sem heitir Flash Mob og þá blikkaði síminn í takti við tónlistana. Í hinum leiknum loggaði maður sig inn á kappaksturleik og valdi sér bíl til að aka eftir braut. Eftir leikinn var dreginn út einn áhorfandi og hann fékk gjafakort í verðlaun. Í einu leikhléinu var pizzum dreift til þeirra sem stóðu sig vel í því að hvetja heimaliðið. Einnig var pizzukössum sleppt yfir leikvanginn í fallhlífum. Einnig var hægt að taka þátt happdrætti þar sem helmingur vinningsins fór til góðgerðamála og hinn féll í hlut þess sem var dreginn úr pottinum.

Þetta fannst mér bæði skemmtilegt og svalt.

Eftir leikinn gengum við aðeins um miðbæinn og fengum okkur svo hressingu á Fairmont hótelinu. Það var notaleg upprifjun frá því á Ulead ráðstefnunni í Banff í maí.

Mér er óhætt að segja að fyrsta helgin hefði ekki getað verið betri og Aoife og fjölskylda hennar hafa undirbúið dvölina af kostgæfni. Ég hlakka til þess að hitta nemendur og kennara St. Lukes skóla á morgun.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.