Skilningur eða skærur?

SI_an-letursÁ ársfundi sínum í gær samþykktu félagsmenn Skólastjórafélags Íslands ályktun þar sem þeir lýsa yfir þungum áhyggjum vegna framkominna upplýsinga frá einstökum félagsmönnum um að vænta megi uppsagna frá þeim vegna þess skilningsleysis á kjörum þeirra og starfsaðstæðum sem er hjá viðsemjendum félagsins. Til að bæta kjör sín sjá skólastjórnendur nú þann kost vænstan að snúa sér að kennslu.

Ljóst er að til að ná fram kjarabótum þarf að ríkja skilningur beggja samningsaðila á stöðu hvors annars. Svo sá skilningur myndist ætti að nægja að miða viðræður og nýja samninga við launaþróun annarra sambærilegra stétta og samninga sem nýlega hafa verið undirritaðir.

Auk þess að hafa sett sér raunhæf markmið til 10 ára í kjarasamningaviðræðum hefur gildandi kjarasamningur Félags grunnskólakennara verið viðmið í kjaraviðræðum SÍ við launanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í mars á þessu ári undirrituðu samningsaðilar skjal um hlutverk skólastjórnenda. Skjalið er hluti af aðgerðaráætlun til undirbúnings á kjaraviðræðum 2015. Í skjalinu eru þættir starfsins tíundaðir undir fjórum yfirflokkum:

  1. Fagleg forysta, stefnumótun og skipulag
  2. Mannauður, nemendur og starfsmenn
  3. Fjármál og rekstur
  4. Samskipti og samvinna við nærsamfélag og fræðsluyfirvöld

Við undirritun skjalsins var skjalfestur sameiginlegur skilningur á umfangi og ábyrgð skólastjórnunar.

Núgildandi kjarasamningi Félags grunnskólakennara er ætlað, ásamt því að bæta launakjör kennara, að breyta starfsumhverfi innan grunnskólanna. Við undirritun þess samnings var lagður grunnur að sameiginlegum skilningi samningsaðila á að skólastjórnendur eru lykilaðilar í innleiðingu þess samnings.

Við útborgun launa samkvæmt þeim samningi er fulljóst að laun skólastjórnenda eru hvorki í samræmi við umfang og ábyrgð starfsins né það meginviðmið að yfirmenn stofnana séu hærra launaðir en aðrir starfsmenn stofnunarinnar.

Til að auka skilning viðsemjenda sinna á kjörum og starfsaðstæðum sínum hafa félagar SÍ á undanförnum mánuðum fundað með sveitarstjórnarmönnum, bæjar- og sveitarstjórum og sent frá sér ályktanir. Það virðist ekki hafa dugað, því ennþá er samningur ekki í sjónmáli.

Mér þykir það því eðlilegt að félagar í Skólastjórafélagi Íslands hugi nú að öðrum leiðum til að bæta kjör sín. Hjá fámennu félagi sem ekki hefur verkfallsrétt verða félagar þess að finna sér aðrar leiðir en verkföll til að fara í skærur svo ná megi auknum skilningi á kröfunni fyrir bættum kjörum. Ein þeirra er segja upp starfi sínu.

Það er ósk mín að skilningur viðsemjenda félagsins aukist við þessar fréttir af væntanlegum skærum félagsmanna og nú þegar verði lokið við kjarasamning við Skólastjórafélag Íslands svo ekki komi til þess að úr stéttinni tapist mikilvæg reynsla og þekking.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.