Ítalskar kjötbollur

Image

Sumir réttir hafa fylgt fjölskyldum eins lengi og elstu menn þeirra muna (hér er það frumburðurinn sem nýlega varð 30 ára). Þetta má segja hér á bæ um ítölsku kjötbollurnar.

Þessar bollur hafa verið eldaðar vetur, sumar, vor og haust, hvunndags og spari, í Noregi, á Ísafirði, Dalvík og Mörkinni. Og alltaf eru þær jafnmikill uppáhaldsmatur. Í gær eldaði ég þær fyrir litlu fjölskylduna sem fer stækkandi sem um þessar mundir flytur búferlum til Reykjavíkur.

Uppskriftin er á „eldgamalli“ úrklippu úr DV. Og á henni er mynd af konu sem er sögð matgæðingur. Því og vinsældum bollanna treysti ég fullkomlega og hefur mér aldrei dottið í hug að finna mér aðra uppskrift að ítölskum kjötbollum. En hún er svona:

Sósan:

1 meðalstór saxaður laukur

3 hvítlauksgeirar (upphaflega var bara einn, okkur finnst sósan þola meira)

3 msk olía

2 dósir niðursoðnir tómatar (stundum kaupi ég í misgripum kryddaða tómata í dós, það skemmir ekki bragðið)

ca 1 bolli tómatpuré

1,5 bolli vatn

1,5 tsk salt og svartur pipar

1,5 tsk oreganó eða eftir smekk

1-2 lárviðarlauf

1 tsk sykur

Laukurinn er hitaður í olíunni þar til hann er glær. Hvítlauk og afganginum er síða bætt út í og látið krauma þar til bolludeigið er búið til (eða lengur. Sósan verður betri eftir því sem hún sýður lengur).

Bolludeig (ég geri það í hrærivélinni)

6-8 sneiðar af grófu samlokubrauði sem hafa legið í bleyti í ca 0,5-1 bolla af vatni. Sneiðarnar eru rifnar niður í smáa bita áður en þær eru lagðar í bleyti

2-300 g nautahakk (stundum set ég meira og fækka þá brauðsneiðunum)

2 egg

1/4-1/2 bolli af rifnum osti

2 msk fersk steinselja (má vera meira. Í gær var hún úr beðinu)

1 tsk salt

nýmalaður pipar

Hrært saman og litlar bollur eru formaðar með teskeið eða lítilli matskeið. Þær er hægt að setja beint í sósuna og sjóða þar (10-15 mín), steikja þær á pönnu og setja svo í sósuna eða steikja í ofnskúffu inni í ofni og setja í sósuna þegar rétturinn er borinn fram. Þegar ég geri stóra skammta set ég sósuna í ofnskúffu og bollurnar ofan á og elda þetta allt í ofninum.

Með bollunum finnst okkur best að borða ferskt taglíatellí, brauð og nýrifinn parmesan ost.

Þetta dugar venjulega fyrir 5-6 venjulega munna.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.