Vínarbrauðin volg þar fást…

Hjá Hérastubbi bakara í Hálsaskógi er meðal annars hægt að fá volg vínarbrauð og þannig var það líka í dag á Þelamörkinni af því að um þessar mundir breiðir rabbabarinn úr sér og í dag er haustveður þó það teljist vera mitt sumar. Þess vegna fannst mér tilvalið að draga fram uppskriftir að bakkelsi með rabbabara og lífga þannig uppá daginn. Ég hef áður skrifað um það að uppskriftir berast manna á milli með ýmsum leiðum. Í þessari færslu skráði ég þrjár uppskriftir sem ég hef fengið hjá tveimur vinkonum mínum og einni frænku. Allar uppskriftirnar eru fljótlegar. auðveldar og ljúffengar og oftast á maður allt í þær ef baksturlöngunin gerir vart við sig án fyrirvara.

FullSizeRender (5)

Það er notalegt að hreiðra um sig í sófanum með sumarbakkelsi og bók þegar rignir og blæs úti.

Fyrstu uppskriftina, vínabrauðin, fékk ég hjá nöfnu minni og frænku, Ingileif Auðuns á Selfossi. Þá næstu, hjónabandssæluna, fékk ég hjá Önnu Rósu Bjarnadóttur, vinkonu minni og þá síðustu, Fljótlegu rabbabarpæjuna, fékk ég hjá Þóru Rósu Geirsdóttur sem bæði er samstarfskona mín og vinkona.

 

Gamaldags vínarbrauð

IMG_3103

Þessi eru best ef kardimommufræin eru nýsteytt

500 g hveiti
250 g heilhveiti
250 g smjör (eða smjörlíki fyrir þá sem vilja)
225 g sykur, ég set yfirleitt 100 g af hrásykri
3 tsk lyftiduft
1 1/2 tsk hjartarsalt
2 egg
3,75 dl mjólk
3 tsk steyttar kardimommur (eða kardimommuduft, ég átti nýtt og ilmandi sem ég keypti á matarmarkaðnum Torvehallerne í Kaupmannahöfn í maí)

Allt sett í skál og hnoðað saman. Mér finnst best að setja það svo á borð og hnoða á borðinu þar til deigið „sleppir borði“. Deiginu er skipt í sex jafna hluta. Hver hluti er flattur út í lengju og rabbabarasulta sett í miðju lengjunnar, snyrt til með kleinujárni og lengjunni svo lokað. Lengjurnar eru settar á plötu (það komast þrjár á hverja plötu), þær pensla ég með eggi og stundum strái ég hentuflögum eða hökkuðum möndlum yfir þær. Síðan er lengjurnar bakaðar í 15-20 mínútur við 170-180 gráður.

Hjónabandssælan 300 g af öllu!

IMG_3105

Þessi er algjört sælgæti! Alveg mátulega sæt og seig.

300 g hveiti (í dag notaði ég 100 g af hveiti og 200 g af heilhveiti)
300 g sykur (ég notaði 100 g af hrásykri)
300 g gróft haframjöl
300 g smjör (eða smjörlíki fyrir þá sem vilja)
2 tsk natron
rabbabarasulta að smekk hvers og eins

Öllu blandað saman í skál. Þremur fjórðu hlutum deigsins er þrýst í botninn á ofnskúffu (uppskriftin passar í ofnskúffu sem ég á úr gamalli Rafha-eldavél) og afgangurinn af deiginu er mulinn yfir sultuna. Kakan er bökuð í 30-40 mín við 180 gráður. Á uppskriftarsíðunni Albert eldar kemur fram að sælan verður seigari eftir því sem hún er bökuð lengur.

Fljótlega rabbabarapæjan

4-6 rabbabarar
2-3 msk af sykri
Rabbabarinn er skorinn í smáa bita og dreift í eldfast mót. Sykrinum er stráð yfir.

Svunta pæjunnar
2 dl hveiti
2 dl sykur (ég nota 1 dl af hrásykri)
2 egg
100 g brætt smjör (eða smjörlíki fyrir þá sem vilja)

Þessa „svuntu“ má nota ofan á hvaða berja eða ávaxtablöndu sem er, eins og bláber, epli, jarðaber eða perur.
Egg og sykur eru þeytt saman. Hveitið er sigtað saman við og bræddu smjörinu er að lokum hrært varlega saman við „soffuna“. Deiginu er síðan hellt yfir rabbabarann. Það er hægt er að strá kókosmjöli eða hnetu- eða möndluflögum yfir pæjuna áður en hún er bökuð í 180 gráðu heitum ofni þar til hún orðin gyllt. Pæjan er borin fram volg með þeyttum rjóma eða vanilluís. Eða bara bæði.

IMG_0346

Í fyrrasumar aðstoðaði vinnukonan og rabbabarapæjan Freyja Ösp mig við að taka upp rabbabarann.

 

 

 

Birt í Að láni frá öðrum, Matarstúss | Merkt , , , , , | Færðu inn athugasemd

Ömmuskóli í sumarfríinu

Ég er svo heppin að hafa aðstæður til að geta boðið barnabörnum í heimsókn í sumarleyfum þeirra. Karen Sif er nú í heimsókn og við höfum uppgötvað að okkur finnst gaman að fara saman í skólaleiki. Hún er viljug að taka þátt í tilraunum ömmu sinnar og finnst flest það sem við höfum prófað undanfarna daga vera spennandi.

FullSizeRender (2)

Í gær bjuggum við til lestrarspil sem varð til eftir að ég hafði skoðað myndir og færslur á Facebooksíðu sem heitir Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka. Það er Hlín sem starfar við sérkennslu á yngsta stigi í Norðlingaskóla sem heldur úti síðunni og deilir þar með okkur hugmyndum sínum úr starfinu. Það er ekki lofað of mikið þegar kennarar opna kennslustofur sínar til að leyfa öðrum að sjá og nýta hugmyndir þeirra, svo ekki sé talað um allar hugmyndirnar sem kvikna hjá þeim sem skoða síðurnar þeirra. Þannig eflist lærdómssamfélag kennara. Það er aldrei of mikið af því.

Stafir í boxum

IMG_3085

Skyrboxin endurnýtt í lestrarspili

Spilið sem við Karen Sif bjuggum til og kviknaði einmitt út frá síðu og vinnu Hlínar er þannig að Karen Sif dregur spjald með orði á og les það upp. Fyrir framan hana eru spjöld með myndum af því sem stendur á spjaldinu. Sum orðanna eru bara á myndaspjaldi en önnur eru á spjaldi sem hafa verið fest við box (skyrbox) og í boxinu eru stafir úr Skröbblu heimilisins. Stöfunum raðar Karen Sif upp, myndar orðið og les það svo fyrir mig. Myndirnar eru ekki allar á boxum af því að í endurvinnslutunnunni áttum við ekki margar skyrdollur. Það gerði lítið til vegna þess að það setti spennu í leikinn; dró hún orð þar sem myndin var á boxi eða ekki?

100 algengustu orðin á lukkuhjóli

IMG_3088

Lestraræfing með morgunverðinum

Eins og aðrir krakkar á sama aldri og Karen Sif hefur hún gaman að því sem snjalltækin geta boðið upp á. Þess vegna prófaði ég að slá 100 algengustu orðin inn í lukkuhjól á ClassTools. Ég skipti orðalistanum upp í fimm hluta þannig að 20 orð eru á hverju hjóli en það má gera þetta eins og hverjum finnst þægilegast. Class Tools býður svo upp á að hjólunum sé t.d. deilt með QR-kóðum og auðvitað gerði ég það ásamt því að geyma hjá mér slóðirnar að hjólunum.

Leikurinn sem við Karen Sif höfum svo búið til og prófað út frá þessu er:

 1. Karen Sif velur sér QR kóða og skannar hann með Ipadinum.
 2. Hún snýr lukkuhjólinu sem birtist á skjánum og upp kemur orð sem hún les upphátt.
 3. Við ræðum hvað orðið þýðir og búum til setningu með orðinu.
 4. Karen Sif finnur orðið á spjöldum sem hefur verið raðað í kringum hana (þau 20 sem eru á hjólinu) og snýr spaldinu með orðinu sem hún fékk á hjólinu á hvolf. Hérna væri hægt að nýta möguleikann í lukkuhjólinu að henda út úr hjólinu orðinu sem kemur upp þannig að leikurinn verði búinn þegar hjólið hefur verið tæmt. En þá er gott að eiga orðalista hjólanna einhvers staðar á góðum stað í tölvunni svo hægt sé að setja orðin inn í hjólið aftur.
 5. Leikurinn er búinn þegar öll spjöldin á borðinu eru komin á hvolf.

Inni í þessari útfærslu er engin ritun en það mætti alveg hugsa sér að bæta henni við (á marga vegu) til að nýta lukkuhjólin og auka fjölbreytnina í leiknum.

Ég safnaði QR-kóðunum inn á Google Photos svo að ég týndi þeim ekki og ætti þá aðgengilega hvenær sem er. Og til þess að ég týndi ekki slóðunum inn á hjólin setti ég þær og orðin á hverju hjóli í skjal á Google Docs.

Svo er að sjá hvort einhverjar fleiri hugmyndir kvikna hjá okkur langmæðgum á næstu dögum.

Birt í Fjölskyldan, skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd

Eykur Nearpod skilvirkni starfsmannafunda?

nearpod

Á starfsmannafundum kemur það fyrir að þar þarf að vera með fræðslu á glærusýningu. Það kemur líka fyrir að starfsmenn nota tímann á slíkum fundum til að hræra í tölvunni sinni eða snjalltækjum og sumir jafnvel taka fram handavinnu sína á meðan á fræðslunni stendur. Fræðsla með hefðbundnum glærusýningum getur líka verið ágæt til síns brúks, þegar það á við en á fundum með starfsmannahópi sem þarf að koma sér saman um viðbrögð og vinnulag eru þær kannski ekki alltaf skilvirkasta leiðin. Ég hef sennilega ekki tölu á þeim fundum og fræðsluerindum sem ég hef haldið með þessu formi. Fræðsla um Olweus-áætlunina gegn einelti er dæmi um fundi þar sem verkefnisstjóri fer yfir glærur með fróðleik sem starfsmenn eiga að tileinka sér og stilla saman vinnu sína eftir því. Í gegnum tíðina hef ég haldið marga slíka fræðslufundi.

Um daginn stóð einmitt til að halda fræðslufund um Olweus áætlunina á starfsmannafund í skólanum og til að slá nokkrar flugur í einu höggi ákvað ég að nýta mér Nearpod við fræðsluna á þeim fundi. Með því vildi ég:

 1. Að æfa sjálfa mig í notkun Nearpod
 2. Kynna Nearpod aftur og betur fyrir starfsmönnum
 3. Fanga athygli og auka virkni fundarmanna með því að klæða gamalt efni í nýjan búning
 4. Kanna hvort næðist meiri gagnvirkni með Nearpod en með hefðbundinni glærusýningu og umræðum

Nearpod PresentationÞað er auðvelt að búa til kynningu í Nearpod og skipanastikan er einföld og ég var fljót að átta mig á henni þannig að umhverfi Nearpod ætti ekki að vera mér þröskuldur til að nýta það meira. Ég kann vel að meta nýja fídusinn sem gefur möguleika til samtals og samstarfs á meðan kynningunni stendur. Ég prófaði þennan fídus í upphafi kynningarinnar og notaði opna spurningu um efni fundarins. Einnig setti ég þennan möguleika inn seinna í kynningunni þegar efnið gaf tilefni til og ég hélt að flestir væru farnir að missa athyglina. Einng setti ég spurningarnar sem við höfum venjulega rætt og ég skráð hjá mér inn í kynninguna og varpaði svörum fundarmanna upp eftir að allir höfðu svarað. Það voru svo þessi svör sem urðu uppspretta umræðnanna. Það er mat mitt að sú nálgun geti verið skilvirkari en sú sem ég hef nýtt fram til þessa.

Það er því niðurstaða mín að Nearpod er ekki síður verkfæri fyrir skólastjórnendur til að nota með starfsmönnum sínum heldur en verkfæri fyrir kennara með nemendum. Nearpod getur líka að mínu mati, betur en hefðbundin glærusýning, fangað athygli fundarmanna og einnig aukið gagnvirkni á starfsmannafundum. Það eitt ætti að geta orðið til þess að ég noti það aftur.

Fyrir þá sem hafa áhuga geta þeir smellt hérna og skoðað Nearpod kynninguna. Hún fjallaði um 4. kafla Olweus handbókarinnar sem er um eftirlitskerfi skólans.

Birt í Bara byrja, skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , , , | 3 athugasemdir

Áhrif rafrænu veraldarinnar á heilann

IMG_2486

Um þessar mundir les hópur kennara saman bókina br@in-based teaching 🙂 in the digtal age eftir Mailee Sprenger. Það kom í minn hlut að gera grein fyrir innganginn og fyrsta kaflanum. Til að æfa mig betur í notkun Padlet og hvernig það virkar bæði á tölvu og Ipad gerði ég samantektina mína í því umhverfi. Það gekk vel enda er Padlet einfalt og auðvelt í notkun.

Samantektina var auðvelt að setja inn í WordPress umhverfið og er því hægt að lesa hérna fyrir neðan:

Made with Padlet

Og til að fá útrás fyrir Qr-kóða aðdáun mína nýtti ég mér líka þann möguleika í Padlet til að deila samantektinni:

padlet

Birt í skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt | Ein athugasemd

Lært á Word Press

Eitt af verkefnum ársins var að læra betur á Word Press og laga þetta blogg. Í þeim tilgangi skráði ég mig á vefnámskeið hjá Promennt um Word Press sem heitir Vefurinn minn. Námskeiðið er í sex sinnum í mars, þrír þriðjudagar og þrír fimmtudagar frá kl. 18-21. Það eru 10 manns skráðir og átta þeirra mæta á staðinn og ég og önnur erum í fjarfundi í gegnum Skype.

Nú eru fjögur skipti búin og fyrir næstu kennslustund áttum við að skoða þemu eða útlit fyrir síðuna sem stendur til að búa til og einnig að finna út úr því hvar við vildum hýsa hana og setja Word Press upp á síðunni. Með góðri hjálp hafði ég lokið við að ná mér í lén og setja upp Word Press. Lénið er auðvitað https://barabyrja.is/ en þar er ekkert um að vera ennþá því ég er enn að finna mér útlit og að skissa upp skipulag síðunnar.

Síðan skissuð upp

Í morgun skissaði ég upp síðuna og áforma ég að sama innihald og á blogginu en skipuleggja það betur og láta það líta betur út en sú sem hérna er. Fyrst krassaði ég það upp en svo notaði ég tækifærið og reyndi að finna út hvort til væri viðbót í Google fyrir hugarkort eða flæðirit. Þá fann ég grein á Educational Technology and Mobile Learning þar sem fjallað er um fjórar leiðir til að búa til hugarkort og flæðirit á Google Drive. Ég valdi að setja upp MindMup af því ég hafði aldrei heyrt um það áður. En Lucidchart hafði ég séð og fengið kynningu á enda virðist það meira notað ef marka má umfjöllun um það á síðu Google þar sem hægt er að ná sér í viðbætur.

Skissa að skipulagi heimasíðu

Skissan sem gerð var í MindMup

Þema og útlit

Framboð af þemum fyrir heimasíður í WordPress er mikið og það er lítill vandi að gleyma sér við að skoða smartheit og fídusa. Ég byrjaði einfaldlega á því að slá inn „free Word Press themes“ og datt þá inn á síðu Colorlib þar sem sagt er frá 50 ókeypis þemum og kostum þeirra. Ég er langt komin að skoða hann og er búin að búa mér til lista yfir þau sem mér líst vel á. Þegar ég hef skoðað mig sadda á Colorlib og víðar áforma ég að nota útilokunaraðferðina við að velja mér þema. Ég vil að þemað sé:

 • Stílhreint og einfalt í útliti
 • Fallegt
 • Nokkuð hefðbundið en samt smart
 • Einfalt í vinnslu

Lært af ferlinu

Til að halda utan um lærdóminn sem er framundan hef ég sett upp lokaðan hóp á Facebook sem heitir Bara byrja.  Þar ég set inn stuttar færslur um ferlið. Þar geta þeir sem hafa áhuga fylgst með ferlinu og vonandi gefið mér ráð um útlit og innihald. Þegar vefurinn verður svo tilbúinn er meiningin að gera hópinn opinberan (e. public) og að þangað verði settir hlekkir með pistlum af vefnum. Svo ætla ég auðvitað að setja saman stutta pistla eins og þennan um það sem ég geri. Meiningin er að allt sem er á þessu bloggi flytjist yfir á nýja vefinn. Hvernig sem það verður nú gert. Það verður gaman að læra það og koma í verk.

Birt í Bara byrja, Starfsþróun | Merkt , | Færðu inn athugasemd

UT í skólastarfi-hvað þarf til?

Í morgun var menntaspjall á Twitter um nýjustu tækni og vísindi í skólastarfi og var kveikjan að spjallinu sumarbústaðarferð sjö kvenna sem hafa áhuga á málefninu. Þær fóru í bústaðarferðina til að gefa sér tíma til að fikta og leika sér með tækin sem þær höfðu sankað að sér. Einnig nýttu þær tímann til að ræða um notagildi tækjanna og tækninnar í námi og kennslu.

Það hefur margoft og allvíða verið rætt og ritað um innleiðingu nýjunga í skólastarfi. Upplýsingatækni er ekki alveg splunkuný í skólastarfi en það sem er nýtt er allt dótið sem nú er hægt að verða sér út um og nýta til að gera námið fjölbreyttara og raunverulegra en áður, bæði fyrir nemendur og kennara. Og hvort sem við viljum það eða ekki þá er tæknin og dótið sem henni fylgir komið til að vera og hlutdeild þess í lífi og starfi okkar mun ekki minnka í framtíðinni. Það eitt ætti að duga til þess að skólastarf gæfi tækninni meiri tíma og krafta.

En hvað þarf til?

inneiding-ut-i-skolastarfi-4

Eftir að hafa heimsótt spjaldtölvuteymið í Kópavogi og Snælandsskóla í janúar áttaði ég mig á einni leið til að horfa á innleiðingu UT í skólastarfi og gerði mér þá teikninguna hérna fyrir ofan.

Það er ekki nóg að kaupa dótið, það þarf að finna út og gefa aðgang að þeim hugbúnaði sem hentar tækjunum og markmiði starfsins. Svo kemur að því að miðla til kennara því sem búið er að kaupa og græja. Það þarf að kveikja áhuga og skapa skilning á notagildi tækninnar, bæði fyrir nemendur og kennara. Ekki frekar en aðrir, gefa kennarar sér ekki tíma til að skoða nýjungar fyrr en þeir hafa sannfærst um notagildi þeirra. Til þess að það geti gerst þarf bæði peninga og tíma. Og líka nokkuð mikla þolinmæði og útsjónarsemi, því í þessum efnum (eins og öðrum) hentar ekki ein aðferð öllum kennurum. Sumum dugar að fara á eina menntabúð og þá eru þeir komnir í gang. Aðrir þurfa að fá að prófa sjálfir og fá stuðning til þess inni í kennslustundum. Og enn aðrir þurfa að horfa á hjá öðrum til að komast af stað.

Það er reynsla mín að hlutverk skólastjórnenda í þessu ferli, eins og öðru, er að fylgjast vel með bæði innan skólans og utan hans. Það flýtir fyrir þróuninn ef þeir ná að vera fyrirmyndir í notkun tækninnar í eigin starfi. Skólastjórnendur þurfa að styðja við frumkvöðlana í skólanum og síðast en ekki síst að taka fullan þátt í innleiðingu nýjunga í skólastarfinu. Þannig græða allir á innleiðingunni, nemendur, kennarar og stjórnendur sjálfir.

Birt í skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , , | Færðu inn athugasemd

Smáskonsur

img_2261Þegar legið er í kvefpest verður að gera vel við sig og þess vegna prófaði ég að hræra í glútenlausar smáskonsur.

1 dl glútenlaust haframjöl

2dl All purpose baking flour frá Bobs Red mill

2 tsk lyftiduft

1 tsk Xanthan Gum frá Now

1 msk góð olía

1 -2 egg

Salt milli fingra

Mjólk þar til deigið er eins og þykkur grautur. Ég notaði afgang af haframjólk síðan litli Ívar Helgi var hérna um síðustu helgi.

Ég hitaði pönnu og setti á hana 1 msk af kókosolíu sem ég bætti svo í deigið. Hver skonsa er ein matskeið af deigi og steikt á pönnunni við vægan hita. Snúið við þegar skonsan er farin að þorna örlítið á hliðinni sem snýr upp.

Borið fram með hvaða áleggi sem er og líka hægt að nota þær í staðinn fyrir pönnukökur með beikoninu og egginu.

Verði ykkur að góðu.

Birt í Matarstúss | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd