Það merkilegasta

Það varð eins og mig grunaði. Í síðustu skráningu gleymdi ég að minnast á það sem sennilega er það merkilegasta af því sem kom fram í fyrirlestrum Zachary Walker í síðustu viku. Þegar ég fletti í gegnum myndirnar af glærum hans með samstarfsfólki mínu voru þar nokkrar glærur þar sem hann bendir á og ræðir hvað hafi breyst með tilkomu tækninnar og samfélagsmiðlanna og hvaða áhrif þessar breytingar hafi á skólastarf. Það er auðvitað það merkilegasta.

Í fyrsta lagi gefa nýir miðlar og  ný tækni okkur fleiri möguleika en áður til skráningar og miðlunar. Í öðru lagi auðvelda þau aðgengi að meiri upplýsingum en nokkurn tímann áður. Hvoru tveggja hafa áhrif á skólastarf og þarf að taka tillit til við skipulag náms og kennslu.

Að mati Zachary þurfa nám og kennsla fyrst og fremst að viðurkenna að snjalltæki og samfélagsmiðlar séu hluti af veruleikanum í skólanum eins og utan hans. Skólastarf sem það gerir þarf svo að miðast við að nemendur læri að nýta og meta trúverðugleika upplýsinganna sem gefast á veraldarvefnum. Námið þarf einnig að taka mið af því að nemendur hafi tækifæri til að nýta upplýsingarnar til að búa til úr þeim eigin verk sem þeir geta birt öðrum.

Snjalltæki og samfélagsmiðlar. Nýjar áskoranir í skólastarfi

Búið til eftir fyrirlestur ZW í Hörpunni 5. okt. 2017. IÁ

Helstu áskoranir í skólastarfi sem viðurkennir snjalltæki og samfélagsmiðla í starfi sínu eru því að mati Zachary eftirfarandi:

 • Það er óraunhæft að takmarka það sem nemendur lesa og nýta sér við það sem kennarinn veit og kann og stendur í bókinni.
 • Það verður að kenna nemendum að leggja mat á efnið sem þeir afla sér á netmiðlum. Sjá spurningar sem Zachary kennir fimmtu bekkingingum að spyrja til að meta trúverðugleika efnis þegar þeir sækja það af veraldarvefnum.
 • Verkefni nemenda þurfa að gefa svigrúm til sköpunar.
 • Námið þarf að gera ráð fyrir því að kenna nemendum að birta verk sín á viðeigandi og ábyrgan hátt.

Niðurstaðan er því að skólastarf getur ekki horft framhjá því að snjalltæki og samfélagsmiðlar eru komnir til að vera; bæði innan og utan skólans. Frekar en að velta fyrir sér hvort snjalltæki eigi að vera í skólanum eða ekki er spurningin miklu fremur hvernig skólafólk ætlar að bregðast við nýjum áskorunum og tækifærum sem gefast með tilkomu þeirra.

 

Birt í Á ferð og flugi, skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , , , | 4 athugasemdir

My takeaways

Eins og víða hefur komið fram hélt Dr. Zachary Walker erindi og vinnustofur í Reykjavík í síðustu viku. Ég var svo lánsöm að hafa tækifæri til að taka þátt í hvoru tveggja. Fyrirlestrar hans voru tveir og einnig voru tvær vinnustofur. Of yfirgripsmikið yrði að segja frá öllu því nýja sem hann sýndi og kenndi þessa daga. Í þessum pistli skrái ég það sem mér finnst standa uppúr nú þegar ég hef náð að melta áhrifin í tvo daga.

Byrja ekki bíða!

Vertu fyrirmynd

Zachary sagði að ef kennarar og skólastjórnendur vildu einhverjar breytingar þyrftu þeir ekki bíða eftir því að annað í umhverfinu breyttist til að hefjast handa við að breyta umgjörð skólastarfs eða kennsluháttum. Hver og einn stjórnandi eða kennari eiga að geta byrjað hjá sjálfum sér vegna þess að skólastjórnendur og kennarar hafa meira vald til breytinga en þeir halda eða vilja kannast við.

Sjálfur sýndi Zachary hvernig hann hefur innleitt hugmyndir sínar með því að byggja fyrirlestrana og vinnustofurnar upp eins og kennslustundir sínar í skólanum.

12 viðmið í námi og kennslu

Bæði á fyrirlestrunum og í vinnustofunum hamraði Zachary á 12 viðmiðum sem hann notar við skipulagningu náms og kennslu. Hann lét þátttakendur m.a. þylja þau upp hver fyrir öðrum og leika sér með hugtökin í klappleikjum. Þannig sýndi hann okkur hvernig var hægt að koma mörgum viðmiðanna (virkja skilningarvitin, tónlistin, hreyfingin, að hlæja og vinna með öðrum) fyrir í t.d. einum leik. Hérna fyrir neðan setti ég viðmiðin inn í Padlet. Þau skiptast í tvo flokka, annars vegar það sem þarf til að vekja starfsemi heilans og koma honum í gang og hins vegar hvað kennsluaðferðin/pedagógían þarf að taka tillit til svo kennslustundin komi að gagni.

Made with Padlet

Ný verkfæri

Ég kynntist tveimur nýjum verkfærum sem hægt er að nota svo nemendur geti nýtt eigin tæki í skólanum. Þessi verkfærin gefa m.a. fleirum en þeim sem þora að tala í kennslustundum vettvang til að tjá sig og er hægt að nota á marga vegu hvenær sem er í lærdómsferli; eins og við að kanna hvað nemendur vita nú þegar um viðfangsefni, í heimanám, til að tékka af framvindu námsins og til að spyrja í lok dags hvað nemendur hafi lært í dag eða í kennslustundinni.

Annað verkfærið er vefsvæði þar sem hægt er að gera kannanir og fá svörun strax. Það heitir Mentimeter og svipar til Poll Everywhere sem ég hafði nýlega kynnst. Hitt verkfærið er TodaysMeet þar sem þátttakendur geta sagt skoðun sína, sagt frá fyrri þekkingu á nýju efni eða þulið upp hvað þeir hafa lært af því sem lá fyrir. Einnig sýndi hann okkur hvað hann notar til að setja tímavaka inn í glærurnar sínar.

Og margt fleira

Zachary fór líka yfir viðmið og reglur sem hann notar í kennslustofunni þegar nemendur eru að vinna í snjalltækjunum, hann sýndi okkur og við ræddum marga möguleika á því að nota myndir og myndbönd í námi og kennslu. Hann benti á að það mikilvægasta er að nota þau tæki og tækni sem við notum frá degi til dags í stað þess kennarar og nemendur hlaði niður alls kyns smáforritum og sérhæfðum vefsvæðum. En það allra mikilvægasta er svo auðvitað að láta tæknina ekki vera aðalatriðið heldur námið og kennsluna.

My Takeaways – hvernig nýtist þetta svo?

 1. Ég er enn sannfærðari að það skiptir máli að halda áfram að þróa rafræna kennsluhætti sem taka mið af þeirri tækni sem nemendur handfjatla utan skólans.
 2. Ég lærði á ný verkfæri sem ég þegar hef sett inn í glærukynningu sem ég þarf að nota í næstu viku.
 3. Ég er þegar farin að setja upp námskeið fyrir kennara um efni sem ég hef kennt margoft áður en næst ætla ég að prófa að hafa viðmiðin 12 til hliðsjónar og taka fyrirlestra og vinnustofur Zachary mér til fyrirmyndar.
 4. Fleira á svo eflaust eftir að koma í ljós seinna.
 • Ég safnaði myndunum sem ég tók þessa tvo daga í þetta albúm.
 • Tístunum frá fyrirlestrunum í Hörpunni safnaði ég hérna.
 • Upptöku af fyrirlestrinum í Hörpunni og glærum Zachary er hægt að skoða hérna.

 

 

 

Birt í Á ferð og flugi, skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , , | Færðu inn athugasemd

Ekki bara bé-in 4

Á haustin er hefð fyrir því að kalla foreldra til funda í skólunum og kynna fyrir þeim vetrarstarfið. Fundirnir hafa gjarnan verið á kvöldin og krydduð með fræðsluerindum sem varða uppeldi og menntun. Mæting hefur verið misjöfn á þessa fundi; foreldrar yngstu barnanna hafa oftast verið áhugasamastir og svo hefur fækkað í foreldrahópnum eftir því sem nemendur verða eldri. Flestir skólar hafa reynt að setja kynningarnar í nýja búninga sem höfða til foreldra og fundið nýjar tímasetningar sem henta uppteknum barnafjölskyldum.

Ég hef áður skrifað um það hvernig grunnskólalög og aðalnámskrá fjalla um skyldur skólans í að hafa frumkvæði til að virkja hlutdeild og og þátttöku foreldra í námi barna sinna.

Á kennarafundi í Þelamerkurskóla um daginn var námsefniskynning haustsins til umræðu. Þá benti einn kennarinn á að honum fyndist skemmtilegast að vera boðaður í skólann þegar hann gæti hitt börnin sín í skólanum og séð þau að störfum. Annar bætti við að það væri kannski tímabært að bjóða foreldrum í skólann og fá nemendur til að kynna fyrir þeim hvernig tölvur og tækni væru nýtt í námi barnanna: Þetta er löngu hætt að vera bara bé-in fjögur; barn, bók, blýantur og borð. En þannig þekkja flestir foreldrar skólastarf af eigin reynslu.

Úr varð var að bjóða til opinna kennslustunda í kringum hádegið og bjóða foreldrum í súpu og námskynningu en í skólanum er hefð fyrir námskynningum sem heita súpa og samtal. Í opnu kennslustundunum ætluðu kennarar að fá nemendur til að vera með kynningar á nýju námsumhverfi þeirra sem tekur mið af því að nýta rafræna kennsluhætti.

Í gær voru svo opnu kennslustundirnar. Dagskráin byrjaði á því að skólastjóri kynnti hugmyndir og framkvæmd skólans í notkun rafrænna kennsluhátta, síðan höfðu foreldrar tækifæri til að spjalla saman yfir súpu og brauði og svo tóku nemendur við. Um allan skóla voru litlir hópar nemenda með tæki, spil, bækur og dót sem þeir notuðu til að sýna og segja foreldrum frá starfi sínu.

Með þessu fyrirkomulagi tókst ekki bara að búa til aðstæður þar sem foreldrar sáu börnin sín við leik og störf heldur voru nemendur virkjaðir til þátttöku og gátu sýnt færni sína og þekkingu á tækjum og námsefni. Það er alltaf góð tilfinning þegar hægt er að slá margar flugur í einu höggi.

Í anda dagsins var gerð myndræn framsetning á deginum í forritinu Clips og það birt foreldrum á heimasíðu skólans, Facebooksíðu hans og sent heim til foreldra í tölvupósti með þökkum fyrir komuna.

Birt í skólastjórnun | Merkt , | Færðu inn athugasemd

Leyfir þú snilldina?

Á næsta fimmtudag, 5. október er Alþjóðadagur kennara. Þá standa Kennarasamband Íslands og Skólameistarafélag Íslands fyrir skólamálaþingi. Aðalfyrirlesari skólamálaþingsins er dr. Zachary Walker. Hann var einnig einn af aðalfyrirlesurum á ráðstefnu ESHA í Maastricht fyrir ári síðan. Þá talaði hann út frá 12 spurningum sem ég tel að skólafólki sé hollt að velta fyrir sér:

mass-flourishing

 1. Tekur kennslan þín mið að veruleikanum utan skólans og samtímanum?
 2. Hvort stunda nemendur þínir námið af áhuga eða hlýðni?
 3. Miða kennsluáætlanir þínar við það að „komast yfir námsefnið“ eða að nemendur skilji það og geti nýtt það í framtíðinni?
 4. Veltir þú fyrir þér hvernig þú getur hvatt til nýsköpunar með því að segja: Já, og …. í stað þess að segja: Já, en ….. 
 5. Hvernig leyfir þú snilldinni að blómstra í skólanum þínum?
 6. Myndir þú vilja vera nemandi hjá sjálfum þér?
 7. Kenna þú og samkennarar þínir af ástríðu eða vana?
 8. Myndir þú vilja vinna með sjálfum þér?
 9. Lætur þú 5%-in stjórna ákvörðunum þínum í starfi?
 10. Hverja velur þú til þess að læra af og ráðfæra þig við?
 11. Hvetur þú samstarfsfólk til að blómstra og vera frábær í starfi?
 12. Hvað gerir þú á hverjum degi sem þú ert stolt/ur af?

Ég hlakka til að hlusta aftur á Zachary segja frá rannsóknum sínum, kenningum og starfi á kennaradaginn í næstu viku.

Birt í skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , | Færðu inn athugasemd

Kyrrstaða er ekki í boði

Screen-Shot-2015-11-27-at-11.37.21

Mynd fengin af heimasíðu http://big-change.org/growth-mindset/

Það er ekki langt síðan ég kynntist hugmyndum Carol Dweck um festuhugarfar og hugarfar vaxtar. En þær fjalla í stuttu máli um hvernig við hugsum um möguleika okkar til að bæta við okkur færni og hæfni í því sem tökum okkur fyrir hendur. Skólafólk sem tekur mið af kenningum hennar setur sig í þær stellingar að allir geti bætt við sig þekkingu og færni; það sé bara spurning um hvernig námsumhverfið hvetur til þess, bæði nemendur og kennara.

Ég fæ seint leið á því að prísa þann hluta í kjarasamningum grunn- og framhaldskólakennara sem gerir ráð fyrir því að tekinn sé frá tími í vinnutíma þeirra til að bæta við sig þekkingu og vaxa í starfi. Í daglegu tali meðal fólks í grunnskólanum ganga þessir tímar undir nafninu „150 tímarnir“. Bara það eitt og sér að gert sé ráð fyrir tíma í vinnutímaskilgreinu kennara til vaxtar er viðurkenning á því að eðli starfsins krefst þess að kennarar séu stöðugt að bæta við sig þekkingu og færni; bæði í daglegu starfi og utan þess.

Eins og annars staðar skipar stafræna veröldin og verkfæri hennar æ stærri sess í skólastarfi. Oftar en ekki heyri ég kennara og aðra samstarfsmenn segja: Æ, ég og tölvur eigum litla samleið eða ég og tölvur náum ekki saman. Þá spyr ég gjarnan til baka: Og ætlar þú að hafa það þannig? Eða Og hvað ætlar þú að gera í því? Eins hröð og þróun tækninnar hefur verið og mun verða, þá er það svo að skólar geta ekki sleppt því að innleiða rafræna starfshætti. Með þessu er ég samt ekki að segja að þeir komi í staðinn fyrir eða ýti úr vegi því sem vel hefur verið gert fram til þessa, alls ekki. Rafrænir starfshættir geta bætt og eflt það sem fyrir er eins og til dæmis sköpun, samvinnu og leik. Því má ekki gleyma. En forsenda þess að svo verði er að skólafólk trúi því að það geti bætt þekkingu sína og leikni í notkun rafrænna kennsluhátta og nýti sér til dæmis rafrænar leiðir, samvinnu og stuðning hvers annars.

Ég er enginn sérstakur tölvunörd af guðs náð; ég bara ákvað það fyrir nokkrum árum að það þýddi ekkert að láta eins og tölvur og tækni væru ekki til og að ég ætlaði að nota tækin mín í meira en að lesa tölvupóst, fara á Facebook og spila Candy Crush. Ég hef farið ýmsar leiðir til þess og er þetta blogg ein af þeim leiðum. Önnur var að nýta verkfæri Google í starfinu. Google (eins og fleiri fyrirtæki) bjóða skólafólki vettvang til fræðslu og þjálfunar. Þjálfunin felst í að nota verkfærin í skólastarfinu en ein gjöfulasta starfsþróunin er einmitt að geta nýtt nýja þekkingu í starfinu með nemendum sínum og starfsmönnum. Þess vegna eru t.d. menntabúðir og jafningjastuðningur á vettvangi öflug og hraðvirk þróun í starfi.

vidurkenning

Í gær tók ég grunnpróf hjá Google til að fá viðurkenningu á að ég gæti nýtt mér verkfæri þeirra í skólastarfi. Á meðan ég sat í prófinu rann upp fyrir mér að með því að hafa ákveðið að sækja mér þekkinguna og að hafa nýtt hana í starfinu hafði ég lært svo miklu meira en mig hafði órað fyrir þegar lagt var af stað í upphafi. Og með því að velja hugarfar vaxtar hafði ég grætt færni sem bæði auðveldar mér starf mitt ásamt því að auðga það. Því verður það áfram mottóið: Kyrrstaða er ekki í boði!

Birt í Bara byrja, skólastjórnun, Starfsþróun | Færðu inn athugasemd

Gagnvirkni í glærusýningum

Ég hef áður skrifað um mögluleika á gagnvirkni í kynningum, m.a. með Nearpod og með því að virkja spjallsvæðið á Google Sildes. Um daginn rakst ég á umfjöllun um viðbót við Google Slides sem heitir Poll Everywhere. Það borgar sig nefnilega stundum að þvælast um á Twitter og fylgjast með myllumerkjum sem eiga hugann hverju sinni. Þar sem ég hafði nýlega virkjað spjallsvæði í Google Slides sýningu fannst mér þetta áhugavert og hlóð viðbótinni niður og stofnaði mér ókeypis aðgang á vefsvæði Poll Everywhere.  Um leið og það hefur verið gert bætist flipi sem heitir Poll Everywhre við skipanaröðina efst þegar Google Slides er opnað. Til þess að setja könnun, spurningu eða annað sem viðbótin býður uppá þarf ekki annað en að smella á þennan flipa og velja hvað á að setja inn í glærusýninguna.

Svo virðist sem hægt sé að gera sér safn af spurningum og könnunum inni á vefsvæðinu hjá Poll Everywhere og geyma þær þar og sækja þær og setja inn í glærusýningar þegar hentar. Einnig er hægt að búa til nýjar spurningar sem henta hverju tilefni fyrir sig og þá að gera það beint úr Google Slides og setja inn í sýninguna.

Poll Everywhere

Hægt er að velja um sex möguleika á svörun

Eins og sést á myndinni hérna fyrir ofan er hægt að velja um sex mismunandi möguleika á því hvernig salurinn svara spurningum fyrirlesara:

 • velja einn af mörgum möguleikum,
 • svörin raðast í orðaský,
 • spurningu varpað fram og svarað,
 • færa og raða möguleikum,
 • smella á mynd sem á við svarið.
 • könnun, opnar spurningar/stutt textasvör

Screen Shot 2017-08-27 at 12.48.38Til að svara spurningunum þurfa þátttakendur að fara á netslóð (eða senda textaskilaboð sem mér tókst ekki). Netslóðin birtist á glærunni hjá spurningunni, þátttakendur svara og svörin safnast jafnóðum saman og birtast á skjánum hjá fyrirlesara og hann getur sýnt þátttakendum niðurstöðuna jafnóðum og hún verður til. Síðan er hægt að ræða efni spurningarinnar og/eða taka afstöðu eftir niðurstöðunum. Eða gera þetta bara til gamans til að vekja salinn eftir langar tölur.

Ég prófaði að svara spurningunum bæði í tölvu og á snjalltækjum. Það virkaði vel á báðum en aðeins snúnara í tölvunni því það þarf að nota músina til að svara. Tölva með snertiskjá virkaði líka vel.

Niðurstöðurnar safnast saman á eigin svæði á vefsvæði Poll Everywhere og þar er líka hægt að vinna frekar bæði með kannanasafnið sitt og niðurstöður.

Niðurstaða mín er því sú að Poll Everywhere er hagnýt og handhæg viðbót við Google Slides sem auðvelt er að læra á. Poll Everywhere eykur gagnvirkni fyrirlestra og kennslu almennt þar sem það býður til þátttöku þeirra sem hlusta og gefur möguleika á umræðum um viðbrögð þeirra og svör.

 

 

Birt í skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , , , , , , , | Færðu inn athugasemd

Rauða sáðfruman og fleiri fídusar

Á dögunum tók ég saman vinnustofu fyrir kennara og skólastjórnendur um möguleika G Suite í skólastarfi og hvernig það hefði nýst mér undanfarna mánuði.

Þegar ég var að útbúa glærurnar í Google Slides kom ég auga á að starfsmenn Google hafa ekki setið auðum höndum frá því ég notaði Slides síðast. Núna er bendill orðinn innbyggður í forritið og þegar búið er að virkja hann í glærusýningunni lítur hann út eins og lítil rauð sáðfruma sem ferðast um skjáinn og sýningartjaldið. Það vekur sannarlega athygli og kátínu sumra sem hlusta á kynninguna.

Bendillinn er virkjaður með því að færa mús tölvunnar neðst á skjáinn/glærusýninguna og þá birtist þar svört stika með litlu stjórnborði fyrir glærusýninguna. Í miðjunni eru nýjungarnar sem ég kom auga á um daginn.

 

Google Slides

Svarta stikan er neðst á glærunni nýjungarnar eru um það bil í miðjunni

FullSizeRender (6)

Möguleiki á gagnvirkni

Fyrsta nýjungin sem ég kom auga á var Q & A, næsta var Notes og sú þriðja er bendillinn. Þegar ég var búin að prófa að finna bendilinn þá var að smella á hina hnappana sem ég þekkti ekki.

 • Q & A: gefur fyrirlesara möguleika á búa til spjallsvæði um fyrirlesturinn/kynninguna. Á spjallsvæðinu er hægt að spyrja spurninga og svara þeim. Fyrirlesarinn getur einnig birt spurningar úr sal eða spurt salinn að einhverju. Þennan fídus er hægt að virkja á tvo vegu; í stikunni sem ég sýndi hérna að ofan eða með því að velja á fyrsta valmöguleikann þegar smellt er á „sýna“ efst í hægra horni glærusýningarinnar. Þá bætist grá stika inn á allar glærurnar með slóð inn á spjallsvæðið. Hægt er að stýra því hvenær „opnað“ er fyrir spjallsvæði með því að nýta svörtu stikuna neðst í glærusýningunni.
 • Notes:  Sýnir fyrirlesara glósurnar sem hann skráði við hverja glæru. Svo sem ekki nýjung en lítur út fyrir að vera aðgengilegra en í fyrri útgáfu Slides.

Á kynningunni fyrir skólstjórnendurna um daginn virkaði spjallsvæðið vel og við sáum fyrir okkur að þessi vísir að gagnvirkni gæti nýst með nemendum og einnig á fundum með starfsfólki og foreldrum.

Eins og flest hjá Google er þetta einfalt í notkun og það er notenda að sjá mögleikana til að nýta fídusana.

 

 

Birt í skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , , | Færðu inn athugasemd