Kjúklingasalat frá Maggý

Ég á margar vinkonur sem hafa gaman að því að elda góðan mat og meðal þeirra er Maggý á Dalvík. Maður getur verið nokkuð viss um það að maturinn sem hún ber á borð er bæði ljúffengur og fallegur. Ég fékk þetta kjúklingasalat hjá henni fyrir all nokkru og hef gert hann nokkrum sinnum.

Séð yfir sveitina frá Galmaströndinni

Séð yfir sveitina frá Galmaströndinni

Nú um verslunarmannahelgina bjó ég hann til fyrir okkur litlu hjónin á Mörkinni eftir góða hlaupaæfingu. Halldór fór vegalengdina sem hann ætlar sér í Reykjavíkurmaraþoninu og ég fór 2/3 af minni vegalengd (30 km). Hitastigið rétt náði í tveggja stafa tölu, það var súld og blés að norðan. Ég reyndi að velja mér leið þar sem ég þurfti ekki berjast lengi á móti norðanáttinni. Ég fór það sem ég kalla öfugan Guðmund. Það þýðir að ég  byrjaði þar sem ég endaði í vor þegar ég hljóp og safnaði í gjöf fyrir Guðmund sveitarstjóra. Þessi leið inniheldur báðar uppáhaldsleiðirnar mínar í Hörgársveit, Skottið og Galmaströndina. En til að hún verði nógu löng og að tengja þessar leiðir saman verð ég að hætta mér á þjóðveginn, bæði þann sem liggur út á Dalvík og þjóðveg 1. Vegna umferðarþungans í gær hætti ég mér ekki upp á þjóðveg 1 og hljóp þess í stað fram og til baka á Skottinu þar til vegalengdinni var náð.

Eins og svo oft áður þá var veðrið betra þegar út var komið en á meðan horft er á það út um gluggann og býsnast er yfir hitastigi og skýjafari.

Svo var ljúft að fara í Jónasarlaug á eftir og dunda sér síðan við salatgerð. Ekki skemmdi fyrir að í garðinum er núna mikið af góðu salati.

Uppskriftin hér miðar við 5 kjúklingabringur en í gær gerði ég hana úr 3:

5 kjúklingabringur eru skornar í hæfilega bita og marineraðar í sweet chilisósu í um það bil 2 klst. Síðan er þær steiktar á pönnu og kældar. Það má líka hafa þær volgar í þessu salati.

Núðlur sem eru soðnar eftir leiðbeiningum á pakkanum. Gott að miða við að hafa helminginn af því sem gefið er upp á pakkanum sem skammtur fyrir einn.

Svo er búin til dressing á salatið með því að sjóða 1/2 bolla af ólífuolíu, 1/2 bolla balsamik ediki og 2 msk af sojasósu. Þetta er svo kælt.

Svo hefst salatgerðin. Þá raðar maður innihaldinu á fat í þessari röð:

Klettasalat (í gær bætti ég öðru salati við en til að halda „rétta“ bragðinu passaði ég að klettasalat væri í meirihluta. Það spillti ekki bragðinu að ég setti nokkur blöð af kóriander saman við)

Tómatsneiðar

2-3 mangó

núðlur

ristaðar furuhnetur og graskersfræ

kjúklingabitarnir

Hella svo dressingsósunni yfir í lokin.

Kjúklingasalat Maggýar

Kjúklingasalat Maggýar

Borið fram eins og það kemur fyrir og þeir drykkir sem hver velur sér. Gott og vel kælt hvítvín passar vel í kvennahópi en í gær fékk ég mér ljósan Kalda og Halldór kókið sitt.

Pestó

Image

Uppistaðan í rauðu pestó

Ég veit ekki hvernær ég kynntist pestó en eins og hjá fleirum er það orðið sjálfsagður hluti af því sem naslað er á Mörkinni. Oftast er það notað sem álegg eða viðbit á brauð en líka út á gott pasta; bæði út á heitt pasta og í kalt pastasalat.

Það eru til allnokkrar útgáfur af pestó. Sú sem er vinsælust hér á bæ er sú rauða (kallað Rauða hættan) og einnig hið hefðbundna græna basilikkupestó og líka klettasalatspestó. Þó ég eigi uppskrift að hundasúrupestó hefur ekki enn orðið úr því að ég búi það til.

Uppistaðan í pestó er auðvitað basil og besta bragðið fæst þegar næst að fá ferskt basil úr eldhúsglugganum. Síðan þarf í það furuhnetur eða möndlur (helst hýðislausar), parmesanost, hvítlauk og ólífuolíu. Í rauða pestóið bætast svo sólþurkkaðir tómatar.

Þó pestó hafi upprunalega verið búið til í morteli þá er venjan nú á dögum að nota matvinnsluvélar. Ég nota gamla múlínexið. Ég á enga eiginlega uppskrift að pestói en reyni að miða við það sem er hér fyrir neðan. Bæti því sem mér finnst vanta í uppskriftina hverju sinni til að fá „rétta“ áferð, þykkt eða bragð.

Grænt pestó I

2 lúkur af basil blöðum

25 g ristaðar furuhnetur

2 hvítlauksrif

75 g nýrifinn parmesanostur

Góð ólífuolía (ca 0,5-1 dl.) þar til maukið hefur fengið þá áferð og þykkt sem vill. Örlítið af salti (osturinn er saltur svo það þarf ekki mikið) og malaður svartur pipar og sítrónusafi.

Setjið basilblöðin, furuhneturnar og hvítlaukinn í matvinnsluvél. Setjið maukið í skál, rífið ostinn yfir og blandið ólífuolíunni saman við. Saltið og piprið eftir smekk.

Grænt pestó II (frá Önnu Rósu Bjarnadóttur vinkonu minni)

150 g kasjúhnetur sem hafa verið aðeins ristaðar í ofni

Safi úr einni sítrónu

2 hvítlauksgeirar

2 dl ólífuolía

2 tsk maldon salt eða auðvitað saltið af Reykjanesi við Djúp

1,5 búnt af ferskri baskilikku

Allt er sett í matvinnsluvél þar til það er orðið að mauki.

 

Grænt pestó III

2-3 lúkur af klettasalati

0,5 lúka af basilblöðum

25 g ristaðar furuhnetur

1 hvítlauksrif

75 g rifinn parmesanostur

Góð ólífuolía (ca 0,5-1 dl.) þar til maukið hefur fengið þá áferð og þykkt sem vill. Örlítið af salti (osturinn er saltur svo það þarf ekki mikið) og malaður svartur pipar og sítrónusafi.

Setjið klettasalatið, basilblöðin, furuhneturnar og hvítlaukinn í matvinnsluvél. Setjið maukið í skál, rífið ostinn yfir og blandið ólífuolíunni saman við. Saltið og piprið eftir smekk.

Rauða hættan (hættulega gott, maður hættir ekki fyrr  en allt er búið)

1 krukka af sólþurrkuðum tómötum (veiða tómatna uppúr og setja olíuna til hliðar)

1,5 lúka af basil blöðum

2-2,5 lúkur af ristuðum furuhnetum (fara samt varlega með magnið því bragðið á þeim má ekki yfirgnæfa tómat-, basil- og parmesanbragðið). Sumir nota hýðislausar möndlur í rautt pestó og það er í lagi. Mér finnast furuhneturnar samt betri.

1 hvítlauksrif

50-75 g (eftir smekk) nýrifinn parmesanostur

Olían af tómötunum. Örlítið af salti (osturinn er saltur svo það þarf ekki mikið) og nýmalaður svartur pipar. Setjið tómatana, basilblöðin, furuhneturnar og hvítlaukinn í matvinnsluvél (eða hakkavélina). Setjið maukið í skál, rífið ostinn yfir og blandið olíunni saman við. Saltið og piprið eftir smekk. Ef olían af tómötunum dugar ekki til að fá þá þykkt bæti ég góðri ólífuolíu saman við maukið.

Hundasúrupestó

Í matreiðsluþættinum Á bak við eldavélina í fréttabréfi Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá því í maí 2010 gefur kona að nafni Bolette upp uppskrift að hundasúrupestó. Til gamans læt ég þessa uppskrift fylgja með því á henni sést og einnig hinum hér að ofan að uppistaðan í maukinu er oftast sú sama og það er um að gera að leyfa hugmyndafluginu og bragðlaukunum að ráða við pestógerðina.

80 g hundasúrur, graslaukur, fíflablöð, steinselja eða annað grænt sem til er í húsinu eða garðinum

25 g furuhnetur

1 hvítlauksgeiri

salt

ólífuolía

3 msk ferskur rifinn parmesanostur

Setjið það græna, hnetur, hvítlauk og salt í matvinnsluvél þannig að það saxist smátt. Bætið olíu út í þangað til að ykkur finnst það mátulega lint. Bætið ostinum við í lokin.

 

Sækja salat!

Image

Árni Heiðar ánægður með uppskeruna.

Nýjasta eldhúsiðja Árna Heiðars er að sækja salat út í garð enda er sá tími ársins að uppskeran er þess virði.

Það eru ekki nema kannski 15 ár síðan ég fór að rækta sjálf eitthvert grænmeti á sumrin. Það var þegar við fluttum á Bjarkarbrautina á Dalvík. Þar var gamall kartöflugarður og undir honum lá heitavatnslögn bæjarins. Svo hann var fyrirtaks „varmareitur“. Enda komu þaðan bestu jarðaber sem mér hefur tekist að rækta. Og einnig óx grænmetið þar hratt og vel án þess að ég legði mikið á mig.

Hér á Mörkinni hefur mér ekki tekist að koma mér upp almennilegri jarðaberjaræktun. En það stendur til bóta á hverju sumri. Sumarið er bara svo stutt að það dugar ekki alltaf fyrir allar hugmyndirnar sem fæðast.

grodursetning og sáning

Fyrstu handtökin í vor. Baunir, salat, blóm og kryddjurtir.

Ég hef ekki lært almennilega að forsá plöntum. Þær plöntur (rófur, grænkál og brokkolí) sem þess þurfa sérstaklega kaupi ég í plöntusölu eða þá að vinir mínir sem eru duglegir að forsá gefa mér plöntur á vorin. Í vor fékk ég til dæmis salatplöntur og blóm frá einum vini.

Ég hef fundið út að okkur er nóg að rækta salat í pottum á pallinum sunnan við húsið og að vera með 2-3 kálplöntur í garðinum. Ég sái beint í pottana á pallinum og set forsáðar í garðinn. Í vor var allt frekar seint á ferðinni, bæði vegna veðurs og ýmissa anna. Ég sáði salatinu um mánaðamótin maí og júní og núna í fyrstu viku júlí er hægt að borða uppúr pottunum, blandað salat, spínat, klettasalat og mizuna-salat sem er nýjungin í ár. Ég keypti þann fræpoka óvart af því ég var gleraugnalaus og sýndist þetta vera klettasalat á myndinni því ég sá alls ekki hvað stóð á pokanum. En svo voru þetta ekki klettasalatsfræ. Mizuna-salatið vex vel á pallinum svo hugsanlega verða þessi mistök í innkaupum til þess að fjölgar varanlega í salatflórunni á Mörkinni.

Baunagras

Baunagrasið farið að láta á sér kræla.

Í fyrra var nýjungin baunaræktun í aflöngum blómapotti. Í honum hafði ég áður verið með blóm en fannst það vera of dýrt svo ég setti niður nokkrar baunir. Þær komu upp, blómstruðu og báru mikið af gómsætum baunum. Svo baunir geta verið fyrir augað, munn og maga. Í ár setti ég baunir í tvo aflanga potta og nokkra litla. Og næsta vor er áformað að flýta fyrir baunauppskerunni með því að forrækta þær innandyra fyrst.

Blandað salat, mizuna, klettasalat og spínat

Blandað salat, mizuna, klettasalat og spínat.

Mér finnst bæði spennandi og skemmtilegt að standa í þessari litlu ræktun og vildi gjarnan gefa mér meiri tíma til að sinna þessum áhuga. Dreymir um gróðurhús og lítinn varmareit neðst á lóðinni hér við Mörkina. Og hver veit nema að það verði að veruleika einn daginn.