Sykurbrúnaðar möndlur

IMG_2382

Sykurbrúnaðar möndlur á öllum stigum

Á Mörkinni eru brenndar möndlur brúnaðar í hrásykri og kanil ómissandi á aðventunni fyrir utan að vera tilvaldar til að gleðja vini og vandamenn.

Mig minnir að ég hafi fundið þessa uppskrift á læknabiðstofu fyrir nokkrum árum þegar ég fletti þar gömlu dönsku blaði. Það var áður en ég fór að nota símann til að taka myndir af öllu sem ég þarf að muna. Ég hripaði uppskirftina á umslag sem ég var með í veskinu og hef síðan gert hana margoft á hverri aðventu og aldrei er til nóg.

500 g möndlur með hýði

Þær eru settar í 200 gr heitan ofn í 10-15 mínútur. Hræra í þeim alla vega einu sinni á meðan þær eru í ofninum. Passa að þær dökkni ekki of mikið.

130 g hrásykur (í gömlu uppskriftinni eru 150 g af hvítum sykri)

Sykurinn er hitaður (ekki að bráðna alveg í karamellu) á pönnu við vægan hita. Ef notaður er of mikill hiti verða þetta að karamellu og þá er erfiðara að fá möndlurnar „hrímaðar“ af sykrinum.

2 tsk kanill

Bætt á pönnuna með sykrinum og hrært í á meðan sykurinn hálfbráðnar.

Þegar möndlurnar eru orðnar heitar í ofninum er þær teknar út úr honum og hellt saman við hálfbræddan kanilsykurinn á pönnunni. Hrært í öllu saman þar til möndlurnar hafa blandast vel saman við sykurinn. Þá er 0,5 dl af vatni bætt út á pönnuna og hrært í þar til möndlurnar eru orðnar hrímaðar af sykrinum (vatnið gufað upp og pannan orðin þurr). Þetta getur tekið smá stund og munið að hafa hitann vægan og vera þolinmóð.

Möndlunum er þá hellt af pönnunni og látnar kólna á smjörpappír. Líka hægt að borða þær volgar og sumir geta ekki beðið og borða þær beint af pönnunni.

Njótið sem allra best

 

Appelsínu marmelaði

 

Þegar við bjuggum í Noregi lærðum við að þar tilheyra appelsínur páskunum. Þar þykir tilhlýðilegt í miðri skíðaferð að tylla sér á stein eða trjábol til að snæða appelsínu og drekka Sóló-appelsín. Í búðunum voru auglýstar páska-appelsínur á sérstöku tilboðsverði. Mér dettur þetta alltaf í hug þegar páskarnir fara að nálgast en seint mun ég venjast því að borða appelsínu í miðri skíðaferð. Nú fyrir þessa páska sauð ég marmelaði sem ég hef ekki gert lengi. Það varð afbragðsgott og þess vegna deili ég uppskriftinni með ykkur:

6 appelsínur. Afhýðið þrjár appelsínur og leggið börkinn af þeim í bleyti yfir nótt. 

Hálfur pakki þurrkaðar apríkósur. Leggið í bleyti yfir nótt (í aðra skál en appelsínubörkurinn).

Daginn eftir eru hinar þrjár appelsínurnar afhýddar. Þær og hinar þrjár eru skornar í mátulega báta fyrir hakkavélina. Vatninu er hellt af berkinum og hann skolaður. Apríkósurnar, allar appelsínurnar og börkurinn sem var í bleyti eru svo hökkuð í hakkavél. Maukið er viktað og út í það er settur hrásykur sem er helmingurinn af þyngd mauksins (í upphaflegu uppskriftinni var sama magn af hvítum sykri og þyngdin á maukinu). Hrært er í maukinu og sykrinum þar til sykurinn er uppleystur, það er sett í pott og soðið við vægan hita í 20 mínútur. Slökkt undir og látið kólna yfir nótt. Morguninn eftir er maukið hitað að suðu, sett á hreinar krukkur, lokað strax og sett í kæli.

Útgáfuna hérna fyrir ofan mætti kalla slow food þar sem marmelaðigerðin tekur þrjá daga. Á síðasta laugardag prófaði ég að gera þetta á einum degi og mætti kalla það fast food útgáfuna. Þá lagði ég börkinn og apríkósurnar í bleyti að morgni, hakkaði og sauð um miðjan dag (eftir skíðaferð) og sauð upp á því aftur rétt fyrir háttinn. Þá átti ég splunkunýtt marmelaði í ísskápnum strax morguninn eftir.

Verði ykkur að góðu og gleðilega páska.

Orkunasl

Í erli dagsins er auðvelt að falla í þá grifju að stinga upp í sig því sem er hendi næst og það er ekki gefið að það sé manni hollt og nærandi til lengdar. Hæfilegt magn af orkunasli getur því verið lausnin. Áðan bjó ég mér til blöndu sem mér finnst lofa góðu. Hún er söltuð, sæt og með kanilbragði til viðbótar. Ég hafði keypt hráefnið í þessa blöndu þegar heilsuvörur voru á afslætti í Nettó um daginn og allt er það sagt og merkt sem lífrænt ræktað. Þeir sem vilja annað geta auðvitað notað það.

500 g möndlur með hýði settar á bökunarplötu sem hefur verið klædd bökunarpappír og sett inn í 190 gráðu heitan ofn í 10-15 mínútur eða þar til þær eru orðna heitar. Þá eru þær teknar út úr ofninum og 3-4 msk af tamarísósu hellt yfir þær. Hrært í þeim á meðan sósan þornar á möndlunum. Ef það gerist hægt má bregða möndlunum aftur inn í ofninn til að þurrka þær.
3 lúkur af kókosspæni eru settar á heita pönnu og 2 tsk af kanil er stáð yfir. Velt um á pönnunni þar til það hefur tekið fallegan lit.
100 g trönuber (má nota rúsínur í staðinn)

Þegar kókosflögurnar og möndlurnar hafa kólnað er öllu blandað saman og sett í ílát sem hægt er að loka vel. Og muna svo að taka með sér til að grípa í á milli mála. Það sakar heldur ekki narta í dagskammtinn af 70% súkkulaðinu með möndlunum sem orðnar eru saltar af tamarísósunni.

IMG_1375-0.JPG