Netmálstofur á tímum Covid19

Í haust hef ég ásamt Önnu Kristínu Sigurðardóttur haft umsjón með námskeiðinu Þróun í menntastofnunum í deild kennslu- og menntunarfræða við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Námskeiðið er á meistarastigi og flestir nemanna eru fólk sem stundar námið með vinnu. Hópurinn er fjölbreyttur; nemarnir koma af öllum skólastigum og víða að úr menntageiranum. Eins og önnur námskeið við HÍ þetta misserið fór námskeiðið fram á netinu. Það var áskorun fyrir okkur að setja námskeiðið upp þannig að hópastarf, umræður og vinna í staðlotum myndu nýtast nemendum eins og þegar þau mæta í húsnæði skólans. Venjulega hefur verið boðið upp á tvær hálfs dag staðlotur ásamt tæplega tveggja tíma málstofum með kennurum í um það bil hverjum mánuði. Þessu til viðbótar voru fyrirlestrar og umræður inni á vefsvæði námskeiðsins sem í gegnum tíðina hefur verið Moodle-kerfið. Í haust tók HÍ upp námsumsjónarkerfð Canvas. Í haust var það líka nokkur áskorun, bæði fyrir kennara og nemendur HÍ að venja sig bæði við nýtt námsumsjónarkerfi og að aðlaga námskeiðin að því þau færu fram á netinu.

Eitt af verkefnum nemanna í Þróunarstarf í menntastofnunum var að kynna lokaverkefni sín fyrir samnemendum á málstofum. Þegar það verkefni var sett inn í verkefnaflóru námskeiðsins sáum við Anna Kristín ekkert annað fyrir okkur en að við yrðum „í húsi“ í Stakkahlíðinni og að nemendur hefðu kost á því að vera í a.m.k. tveimur eða þremur stofum og að þeir gætu valið sér kynningar til að hlusta á. Málstofurnar áttu að vera nokkurs konar uppskeruhátíð eða mini-málþing þar sem nemarnir deildu hver með öðrum því sem þau hefðu lært á námskeiðinu og hvernig þau ætluðu að nýta það í starfi sínu. Þessi viðburður fékk svo heitið Uppskeran.

Einkennismynd Uppskerunnar er fengin frá Unsplash photos og höfundar hennar er Elaine Casap.

Þegar ljóst var að við myndum ekki ná því að hittast í húsi var um fátt annað að ræða en að færa Uppskeruna á netið. Eftir að ég hafði í haust verið þátttakandi í netmenntabúðum #Eymennt, UtísOnline og Menntakviku vissi ég að þetta væri mögulegt en þar sem erindin á Uppskerunni gætu orðið nálægt 40 var ég ekki örugg á því hvernig við gætum skipulagt þetta þannig að dagskráin væri ekki flókin, verkfærin væru aðgengileg og einföld fyrir alla og að málþingið næði því að vera gagnvirkt, hagnýtt og umfram allt skemmtileg tilbreyting við lok námskeiðsins. Einnig reyndi ég að miða við að lítil eftirvinnsla yrði á miðlun efnisins eftir að Uppskerunni lyki.

Einfalt og áður þekkt

Til að gera þetta ekki flókið var ákveðið að kynna ekki nein ný verkfæri til leiks heldur að nýta þau sem við höfðum þegar notað á námskeiðinu. Mástofurnar voru settar upp sem þrír fundir á Zoom og þrír af kennurum námskeiðsins (Oddný Sturludóttir bættist í hópinn) stofnuðu hver um sig einn fund á Zoom aðgangi sínum. Það var gert til þess að nemendur gætu farið á milli málstofa að eigin vali þegar þeim hentaði. Við fengum lánaðan einn Zoom-aðgang til viðbótar þar sem fjórði fundurinn fór fram. Þar hittumst við öll í upphafi og lok Uppskerunnar. Einnig átti þessi fundur að vera sá staður þar sem hægt væri að fara í frímínútur að vild og hitta aðra á námskeiðinu og spjalla saman. Það gekk hins vegar ekki alveg eftir af því að fundurinn lokaðist um tíma að morgninum. En einhverjir náðu að fara þangað inn en hittu engan af því nemendur voru uppteknir á málstofum.

Til að hafa allar upplýsingar á einum stað var sett upp vefsíða með dagskrá, yfirliti yfir málstofurnar, hnöppum á zoom-slóðir málstofanna og fleira. Vefsíðan var einföld, bara forsíða og ekki þurfti að fara á undirsíður til að nálgast upplýsingarnar.

Fyrir Uppskeruna var nemendum boðið upp á stuttar „tæknilegar æfingar“ fyrir þá sem töldu sig þurfa þess. Þar var hægt að æfa sig í að deila skjá á Zoom, setja inn á Padlet og senda skilaboð á Zoom.

Virkni og gagnvirkni

Til að nemendur hefðu val um á hvaða kynningar þau hlustuðu þennan dag voru þau hvött til að setja eigin kynningar inn á Padlet-vegg þannig að allir gætu kynnt sér hvað yrði fjallað um og gætu þennig sett saman eigin dagskrá til að fylgja á sjálfri Uppskerunni. Á Padlet-veggnum var líka hægt að leggja inn spurningar og/eða gefa samnemendum endurgjöf á kynningarnar. Nemendur voru líka hvattir til að nota spjallrásina á Zoom til að spyrja spurninga.

Við lok Uppskerunnar mátu nemendur viðburðinn; undirbúning og framkvæmd. Til þess nýttum við hópherbergin (breakout-rooms á Zoom) og hóparnir settu niðurstöður sínar í könnun sem unniin var í Google Forms.

Ánægjuleg samvera – ekki bara enn einn Zoom fundurinn eða fyrirlestraröðin á netinu

Einn af nemunum fylgist með að heiman.

Til að gera Uppskeruna ánægjulega og aðeins öðruvísi en venjulegan Zoom-fund var hún opnuð tímanlega og þar rúllaði glærusýning með kveðjum frá kennurum og undir glærusýningunni hljómaði ómþýða aðventulagið Desemberkveðja með Sigríði Thorlacíus og Sigurði Guðmundssyni. Uppskerunni fylgdi líka svokallað vrikni-bingó sem nemendur voru hvattir til að fylla út. Í upphafi Uppskerunnar var sagt frá því að í lok hennar yrði heildarvirkni hópsins mæld.

Virkni bingó Uppskerunnar.

Til þess að mæla heildarvirkni hópsins nýttum við könnunarmöguleikann á Zoom. Í könnuninni merktu þátttakendur (nafnlaust) við í hve mörg hólf á bingóinu þau höfðu náð að fylla. Í ljós kom að nokkuð margir höfðu náð að fylla í fimm hólf eða fleiri. Þessi litli möguleiki á Zoom hleypti kátínu í slitin á Uppskerunni.

Svona kvaddist hópurinn við slitin á Uppskerunni

Mat á Uppskerunni

Nemendur kunnu að meta að upplýsingarnar voru á einum stað (vefsíðunni) og í aðeins tveimur af 10 svörum er það nefnt að einhver hafi lent í smávægilegum tæknilegum vandræðum þennan dag. Það er einna helst að þau sakni þess að hafa ekki getað hlustað á fleiri kynningar og í einum hópnum er bent á að þau hefðu viljað fá upptöku á kynningunum.

Hægt er að skoða matið í heild sinni hérna.

Að lokum

Það verður að viðurkennast að ég fór í nokkra hringi við undirbúninginn og er núna fegin að ég fór ekki alla leið með fyrstu hugmyndina; hún var mun flóknari en sú sem svo varð að veruleika. Eftir að hafa prófað þessa leið og haldið mig við að reyna að gera viðburðinn einfaldan, gagnvirkan og skemmtilegan veit ég að það er mögulegt án alltof mikilliar fyrirhafnar og án margra tæknilega flókinna verkfæra. Það sýndi sig þennan morgun að með einföldum verkfærum er hægt að gera netkennslu fjölbreytta.

Upptaka á kynningu á Uppskerunni á Fjarmenntabúðum Kennaradeildar Háskólans á Akureyri og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands er hérna.

Önnur útgáfa af sams konar uppsetningu á netmálstofum nema vorið 2021 er hérna.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.