Þegar rútínan rofnar

Í dag tók ég ásamt Jakobi Frímanni Þorsteinssyni þátt fræðslufundi á vegum Heimilis og skóla og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Fundurinn var sá fjórði í röðinni fyrir páska. Eftir páska verða fleiri fræðslufundir. Allir fundirnir hafa verið teknir upp og hægt er að nálgast upptökurnar á heimasíðu fræðslunnar Heimilin og háskólinn.

Í dag fjölluðum við Jakob um nám og frístundastarf ásamt því að tala um hvað hægt væri að gera um páskana með fjölskyldunni þegar ferðast á innandyra. Dóttir Jakobs, Dísa Jakbos kom með heilræði og hugmyndir fyrir foreldra um hvað væri hægt að gera með ungmennunum í fjölskyldunni. Hérna er glærurnar hans Jakobs og hérna er hægt að smella til að komast inn á vefinn Innihaldsríkt fjölskyldulíf á tímum samkomubanns og sóttkvíar sem hann og fleiri foreldrar í Laugarneshverfinu hafa tekið saman. Á fræðslufundinum var ennig rætt um það hvernig ný rútína gæti litið út þegar sú gamla skyndilega rofnar.

Funda- og fræðsluaðstaða dagsins.

Í lok fræðslufundarins brugðum við okkur út í garð. Heima hjá Jakobi beið fjölskyldan úti í garði og þar var búið að kveikja eld, hnoða í snúbrauð og byrjað að poppa við opinn eld. Ég kom mér fyrir á pallinum í skógarjaðrinum sem er upp við garðinn í Hjallatröð 1 og fékk mér heitt súkkulaði með þeyttum rjóma og eplabrauð.

Í fræðslunni kom fram að nám getur farið fram alls staðar; heimurinn er eiginlega skólastofan. Það er okkar að nýta umhverfið til að leika okkur, vaxa og þroskast; jafnt úti sem inni. Einnig komum við inná að það er heilmikil lífsleikni fólgin í því að laga sig að nýjum aðstæðum. Aðstæðurnar undanfarnar vikur, um páskana og eftir að páskaleyfi lýkur kalla á að við þurfum að búa okkur til nýja rútínu af því að utanaðkomandi aðstæður hafa rofið gömlu rútínuna.

Þetta var skemmtilegt og fróðlegt. Sérstaklega fannst mér gaman að skoða og velta fyrir mér hvað og hvernig er hægt að nýta nærumhverfið til að vera saman, leika sér og læra saman og hvernig er hægt að flétta lífsleikni og lýðræði inn í þá pælingu. Glærurnar sem ég notaði eru svo hérna fyrir neðan. Samantekt og upptöku frá fræðslu dagsins er hægt að skoða með því að smella hérna. Á glærunum eru líka hlekkir á tvær síður þar sem hægt er að nálgast spilareglur spila með 52 spilum Það þarf nefnilega ekki alltaf að eiga stór eða dýr borðspil til að spila saman.

Ég hvet fólk til að fylgjast með þessu skemmtilega og fróðlega framtaki Heimilis og skóla og Menntavísindasviðs Háskóla Íslans. Það er meðal annars hægt á heimasíðu samstarfsins og heimasíðu Heimilis og skóla.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.