MAKVISE á alltaf við – líka núna!

Um þessar mundir skoðar skólafólk hvernig hægt sé að skipuleggja skólastarf þannig að það uppfylli skilyrði samkomubanns sóttvarnarlæknis.

Eðlilega velta margir fyrir sér hvernig hægt sé að skipuleggja fjarkennslu og hvort og þá hvernig tæknin nýtist í þeim tilgangi. Upplýsingum um verkfæri og tæki hefur m.a. verið dreift á samfélagsmiðlum og oft án frekari útskýringa. Ég viðurkenni að ég hef tekið fullan þátt í því. Ég geri mér líka fulla grein fyrir því að það nægir flestum að skipuleggja ramma skólahaldsins svo ekki þurfi líka að vera að læra á ný verkfæri eða tæki. Það ætti samt ekki þegar frá líður að stoppa okkur í því að skoða nám og kennslu í nýju ljósi. Enda var það þarft framtak hjá Ingva Hrannari Ómarssyni að dreifa opnu Google skjali þar sem safnað er saman kennsluhugmyndum en ekki bara slóðum á verkfæri eða tæki.

Á meðan ég lét mér detta eitthvað í hug til að skrá inn í skjalið rifjaði ég upp lykilorðið MAKVISE úr kennaranáminu mínu í Noregi. MAKVISE vísaði til eyðublaðs sem við kennaranemarnir notuðum á meðan við vorum í æfingakennslu á vettvangi. Lykilorðið var sett saman úr upphafsstöfum annarra lykilorða sem vísuðu til þeirra kennslufræðilegu þátta sem hver kennslustund, lota eða þemaskipulag átti að innihalda. Fyrir kennslustundir þurftum við að kynna fyrir æfingakennaranum og stundum háskólakennaranum hvernig við skipulögðum kennsluna og uppfylltum MAKVISE. Eftir kennslustundir, lotur eða þemavinnu var svo allt metið út frá MAKVISE. En það stendur fyrir:

M = motivering Hvernig ætluðum við að kveikja áhuga nemenda á viðfangsefninu?

A = aktivisering Hvernig ætluðum við að hvetja nemendur til að hefjast handa við verkefnið? Hvað og hvernig áttu nemendur að læra? Hvað í verkefninu átti að höfða til áhuga þeirra?

K = kreativitet/konkretisering Hvernig ætluðum við að koma sköpun nemenda fyrir í kennslustundinni? Hvernig tengist viðfangsefnið reynsluheimi og nærumhverfi nemenda?

V = variasjon/visualisering Hvernig verður viðfangsefnið kynnt að nálgast á mismunandi vegu? Hvernig er viðfangsefnið og úrvinnsla þess sýnilegt, nemendum og/eða öðrum sem koma að skólastarfinu?

I = individualisering Tekur viðfangsefnið og skipulagið mið af mismunandi getu og þörfum allra nemenda?

S = samarbeid Hvernig er gert ráð fyrir samvinnu nemenda eða annarra við vinnslu þessa verkefnis?

E = evaluering Hvernig á að meta þessa vinnu? Bæði hluta kennarans og nemenda? Og hvernig átti að bregðast við matinu?

Kennarar eru fagfólk sem veit að tæknin ein og sér er ekki málið heldur hvernig hún nýtist við nám og kennslu; hvort sem nemendur er í skólanum eða stunda fjarnám. Í fagmennsku kennara liggur líka vitneskjan um að innihaldssríkt nám þarf að vera áhugatengt og hafa þýðingu fyrir nemandann bæði í nútíð og til framtíðar. Munum það, hvað sem við tökum okkur fyirr hendur og hvernig sem við veljum að framkvæma það á næstu vikum.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.