Málþing Gerum gott betra

Miðvikudaginn 9. október var haldið málþing á Akureyri þar sem fjallað var um lærdóm og reynslu þriggja grunnskóla af starfi stoðteymis skólanna í starfsþróunarverkefni sem heitir Gerum gott betra. Verkefnið fékk styrk úr Sprotasjóði og var unnið á síðasta skólaári.

Heiðurinn af því að setja málþingið féll í minn hlut. heiður að setja það og hérna fyrir neðan er ávarpið.

Key note speakers, fyrirlesarar, aðrir þátttakendur í dagskrá og gestir – velkomin á málþing Gerum gott betra. Annemarie and Esther, I am both happy and honored to welcome you to the conference Let´s do good things better.

Það er með stolti og ánægju sem ég set málþing verkefnisins Gerum gott betra hér í dag. Í dag er markmiðið að fleiri en skólarnir þrír, Dalvíkurskóli, Naustaskóli og Þelamerkurskóli kynnist leiðarljósi og starfsháttum DeWijnberg í Venlo í Hollandi ásamt því að heyra hvernig skólarnir þrír hafa unnið úr því sem þeir hafa haft tækifæri til að læra af þeim. 

Eins og ljóst er, þá er verkefnið Gerum gott betra Sprotasjóðsverkefni en hugmyndin að því kviknaði þegar ég fór ásamt nokkrum skólastjórum í skólaheimsókn haustið 2016 í DeWijnberg stofnunina. Þar fengum við kynningu á starfsháttum stofnunarinnar og ég sannfærðist um að við gætum lært af þeim og gert það sem við gerum vel enn betra. Til þess að það gæti orðið sótti Þelamerkurskóli um Erasmus+ styrk til að fara í kynningarheimsókn. Haustið 2017 heimsóttum við aðstoðarskólastjóri og iðjuþjálfi Þelamerkurskóla, skóla DeWijnberg stofnunarinnar. 

Heiti Erasmus+ verkefnisins var Skipulag náms og stöðluð matstæki. Markmið þess var að gera starfsfólk Þelamerkurskóla færara en áður í að nýta markvissar matsaðferðir og að læra að skipuleggja nám og kennslu á niðurstöðum mats. Til viðbótar var markmið verkefnisins að kynnast  fleiri aðferðum en áður í útikennslu og kennslu list- og verkgreina ásamt því að skoða hvernig nemendur í De Wijnberg skólanum nýta hæfileika sína og sterkar hliðar í náminu. Það má með sanni segja að starfsfólk skólans hafi tekið einstaklega vel á móti okkur. Hver mínúta var vel skipulögð í kringum þær spurningar sem við höfðum og áttu að leiða okkur áfram til þess að gera gott starf betra. 

Á heimleiðinni á flugvellinum í Amsterdam gerðum við okkur óskalista yfir það sem við vildum gera með lærdóm ferðarinnar. Náði listinn bæði yfir einstök verkefni og viðburði ásamt því að rýna í eigin starfshætti varðandi nemendur sem þurfa mikla námsaðlögun. Upp úr því varð svo til Sprotasjóðsverkefnið Gerum gott betra. Það verkefni hefur þrjú meginmarkmið:

  1. Að bæta þjónustu við nemendur með sértæka námserfiðleika og námsaðlögun.
  2. Að innleiða formlegt mat á framvindu náms, líðan og hegðunar nemenda sem fá námsaðlögun.
  3. Að auka hlut náms sem byggir á að efla virkni og færni hjá nemendum með sértæka námsörðugleika þar sem áhugi þeirra og styrkleikar eru nýttir til að stýra námsframvindunni.

Til að fleiri en Þelamerkurskóli nyti góðs af lærdómi námsferðarinnar til De Wijnberg og aðverkefnið fengi fleiri sjónarhorn fengum við til liðs við okkur Dalvíkurskóla og Naustaskóla. Verkefni þeirra sem taka þátt í Gerum gott betra var að æfa sig í að nota verkfæri De Wijnberg í daglegu starfi með nemendum. Verkefnið var unnið með aðferðum starfendarannsókna þar sem starfsmenn skólanna þriggja rýndu saman í eigið starf og studdu hvern annan í að greina og jafnvel breyta eigin starfsháttum. Hver þeirra valdi sér námsaðstæður eins skjólstæðings til að vinna með yfir veturinn. Haldnir voru rýnifundir þar sem hver þeirri kynnti málið og fékk leiðbeiningar og stuðning frá öðrum; bæði stoðteymum skólanna þriggja og öðrum sem boðið var til fundanna. Á fundunum fengu þeir sem kynntu endurgjöf. Endurgjöfin var þannig að hver og einn á fundinum gaf eitt hrós/gullkorn, spurði einnar spurningar og gaf heilræði í áframhaldandi vinnu. Ykkur sem hér eruð komin gefst nú kostur á því að taka þátt með þeirri aðferð. Pallborðið mun gera það munnlega en við hin fáum að gera þetta rafrænt. Í dag fáum við því að nota símana okkar og snjalltæki til eigin náms og annarra. 

Það er ómetanlegt fyrir fámenna skóla að fá tækifæri til að búa sér til aðstæður til samstarfs við aðra skóla; bæði erlendis og hérlendis. Þetta litla en jafnframt ígrundaða og kröftuga verkefni ber nokkur merki framtíðarfagmennsku eða hinnar nýju fagmennsku sem þeir Trausti Þorsteinsson og Sigurður Kristinsson ásamt fleiri fræðimönnum hafa rannsakað og rætt um. Í þeirri fagmennsku er gert ráð fyrir að í starfi fagmanna sé réttur skjólstæðinga þeirra til sjálfræðis og upplýsinga virtur. Það er m.a. gert með gagnsæi þar sem fagmennirnir gera grein fyrir starfsemi sinni á opinberan hátt. Í hinni nýju fagmennsku er líka lögð áhersla á starfsþróun, hagnýtar rannsóknir og miðlun þekkingar. Í skrifum sínum árétta Trausti og Sigurður að með virkri þátttöku í eigin starfsþróun og annarra ásamt þátttöku í rannsóknum og mótun umræðu um skólastarf efli fagfólk skólanna sjálfsvirðingu sína og einnig virðingu annarra fyrir fagmennsku sinni.

Á nýafstöðnu skólamálaþingi Kennarasambands Íslands í tilefni af alþjóðlega kennaradeginum 5. október, minntist formaður þess á einkunnarorð nokkurra finnskra skólamanna við innleiðingu þeirra á nýrri aðalnámskrá. Eins og við vitum er það hlutverk skyldunáms hvers samfélags að veita þegnum þess almenna menntun. Menntun sem bæði muni gagnast hverjum og einum og samfélaginu í heild. Finnarnir sem vitnað var til hafa það að viðmiði að almenn menntun eigi að vekja með nemendum vitund um rætur sínar og líka að gefa þeim vængi svo þeir geti látið sig dreyma um framtíðina og séu færir um að sjá bæði hana og samtíma sinn í nýju ljósi. 

Það er von mín að málþingið í dag veki með okkur umhugsun um rætur starfs okkar, m.a. það sem gott er.  Og að málþingið muni jafnframt verða til þess að gefa okkur vængi til að sjá möguleika til nýta það góða til nýsköpunar og gera starf okkar enn betra.

Að þessu sögðu, set ég málþing Gerum gott betra og fel Jóni Svani Jóhannssyni verkefnastjóri skólahluta Erasmus+ stjórnun þess, því án Erasmus+ værum við ekki hér í dag.

Hérna er svo hægt að komast inn á vefsvæði málþingsins. Þar eru glærur þess og önnur gögn.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.