Eykur Nearpod skilvirkni starfsmannafunda?

nearpod

Á starfsmannafundum kemur það fyrir að þar þarf að vera með fræðslu á glærusýningu. Það kemur líka fyrir að starfsmenn nota tímann á slíkum fundum til að hræra í tölvunni sinni eða snjalltækjum og sumir jafnvel taka fram handavinnu sína á meðan á fræðslunni stendur. Fræðsla með hefðbundnum glærusýningum getur líka verið ágæt til síns brúks, þegar það á við en á fundum með starfsmannahópi sem þarf að koma sér saman um viðbrögð og vinnulag eru þær kannski ekki alltaf skilvirkasta leiðin. Ég hef sennilega ekki tölu á þeim fundum og fræðsluerindum sem ég hef haldið með þessu formi. Fræðsla um Olweus-áætlunina gegn einelti er dæmi um fundi þar sem verkefnisstjóri fer yfir glærur með fróðleik sem starfsmenn eiga að tileinka sér og stilla saman vinnu sína eftir því. Í gegnum tíðina hef ég haldið marga slíka fræðslufundi.

Um daginn stóð einmitt til að halda fræðslufund um Olweus áætlunina á starfsmannafund í skólanum og til að slá nokkrar flugur í einu höggi ákvað ég að nýta mér Nearpod við fræðsluna á þeim fundi. Með því vildi ég:

  1. Að æfa sjálfa mig í notkun Nearpod
  2. Kynna Nearpod aftur og betur fyrir starfsmönnum
  3. Fanga athygli og auka virkni fundarmanna með því að klæða gamalt efni í nýjan búning
  4. Kanna hvort næðist meiri gagnvirkni með Nearpod en með hefðbundinni glærusýningu og umræðum

Nearpod PresentationÞað er auðvelt að búa til kynningu í Nearpod og skipanastikan er einföld og ég var fljót að átta mig á henni þannig að umhverfi Nearpod ætti ekki að vera mér þröskuldur til að nýta það meira. Ég kann vel að meta nýja fídusinn sem gefur möguleika til samtals og samstarfs á meðan kynningunni stendur. Ég prófaði þennan fídus í upphafi kynningarinnar og notaði opna spurningu um efni fundarins. Einnig setti ég þennan möguleika inn seinna í kynningunni þegar efnið gaf tilefni til og ég hélt að flestir væru farnir að missa athyglina. Einng setti ég spurningarnar sem við höfum venjulega rætt og ég skráð hjá mér inn í kynninguna og varpaði svörum fundarmanna upp eftir að allir höfðu svarað. Það voru svo þessi svör sem urðu uppspretta umræðnanna. Það er mat mitt að sú nálgun geti verið skilvirkari en sú sem ég hef nýtt fram til þessa.

Það er því niðurstaða mín að Nearpod er ekki síður verkfæri fyrir skólastjórnendur til að nota með starfsmönnum sínum heldur en verkfæri fyrir kennara með nemendum. Nearpod getur líka að mínu mati, betur en hefðbundin glærusýning, fangað athygli fundarmanna og einnig aukið gagnvirkni á starfsmannafundum. Það eitt ætti að geta orðið til þess að ég noti það aftur.

Fyrir þá sem hafa áhuga geta þeir smellt hérna og skoðað Nearpod kynninguna. Hún fjallaði um 4. kafla Olweus handbókarinnar sem er um eftirlitskerfi skólans.

3 thoughts on “Eykur Nearpod skilvirkni starfsmannafunda?

  1. Þú gerir þetta vel. Þarf að koma mér upp svona bloggi. Ekki spurning.

  2. Bakvísun: Gagnvirkni í glærusýningum | Bara byrja

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.