Miðlun reynslu

Ég fylgist með bloggi sem heitir Connected Principals og á dögunum var þar verið að fjalla um hvernig skólastjórnendur gætu miðlað reynslu sinni og þekkingu með því að blogga um starf sitt. Þar rak ég augun í setninguna:

You think you have nothing to say but you have a story to tell!

recite-4cirz7

Þessi setning hefur minnt á sig að undanförnu þar sem ég hef fylgst með stjórnendum reyna sig á því að tísta saman á ESHA ráðstefnunni og einnig á meðan ég hlustaði á fyrirlesara á málstofum ráðstefnunnar hvetja þátttakendur til að segja frá öllu því góða sem um er að vera í skólastarfi og hvernig kennarar og skólastjórnendur læra daglega af starfi sínu. Þannig fræðast aðrir um starfið og þeir sem skrá og miðla, ígrunda starf sitt með því að koma því í orð og deila ígrundun sinni. Og til viðbótar megi segja að starfsþróun stéttarinnar breiðist hraðar út en hún hefur nokkurn tímann haft möguleika á að gera vegna þess að einnig er hægt að miðla lærdómi sínum í starfi með því að segja frá honum í sérstökum hópum á Facebook eða tísta um einstök hugðarefni í starfinu og fylgjast líka með öðrum á Twitter í svipuðum pælingum.

Ég nýtti tækifærið á ráðstefnunni til að taka saman glósurnar mínar í eina litla glósubók á One Note. Áður en ég hélt af stað skipulagði ég hana miðað við dagskrá ráðstefnunnar og það sem ég hafði valið mér að hlusta á og taka þátt í. Hvert atriði fékk einn flipa og innan hans fengu fyrirlesarar blaðsíður. Svo fór að myrkrið í salnum þar sem aðalfyrirlestrarnir voru haldnir, varð til þess að ég notaði Twitter meira en glósubókina og stundum tók ég fleiri myndir en ég náði að setja jafnóðum inn á glósubókina. Enda varla hægt að nota dýrmætan tíma á fyrirlestrum til að föndra við slíkt. Ég gat samt safnað því mesta saman inn á glósubókina þegar heim var komið með því að:

  • Gera samantekt Twitterfærslna minna í Storify og setja samantektina á pdf-skjal (einn möguleiki Storify við að deila því sem þar er geymt) sem ég setti inn í glósubókina. Öðruvísi er erfitt að setja tíst inn í bókina.
  • Hlaða myndunum af símanum inn á albúm á GooglePhotos og setja hlekk af albúminu inn á viðeigandi stað í glósubókinni. Það var t.d. mjög handhægt eftir skólaheimsóknina. Inn á hverja mynd er svo hægt að glósa stutta lýsingu á því sem þar er, sjálfum sér og öðrum til gagns.

Á þessu lærði ég að:

  • Með One Note er auðvelt að nýta sér og tengja saman marga miðla, tæki og tól á netinu til að búa til rafræna glósubók í myndum og máli. Þannig er ég ekki með allt sem ég sé og skrái útum allt, t.d. á netinu, í tölvunni eða í símanum.
  • Það er svo auðvelt að miðla sögu sinni úr ferðinni með því deila glósubókinni rafrænt með öðrum á samfélagsmiðlum, bæði í heild sinni og einstökum blaðsíðum.
  • Það eru til ótal leiðir til að safna upplýsingum, geyma þær og miðla þeim. Það er bara að finna það sem  hentar sjálfum sér og tilefninu hverju sinni; stundum er það blogg, stundum er það Twitter, stundum skjal á Google Drive, stundum færsla á Facebook eða bara eitthvað allt annað.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.