Sækja salat!

Image

Árni Heiðar ánægður með uppskeruna.

Nýjasta eldhúsiðja Árna Heiðars er að sækja salat út í garð enda er sá tími ársins að uppskeran er þess virði.

Það eru ekki nema kannski 15 ár síðan ég fór að rækta sjálf eitthvert grænmeti á sumrin. Það var þegar við fluttum á Bjarkarbrautina á Dalvík. Þar var gamall kartöflugarður og undir honum lá heitavatnslögn bæjarins. Svo hann var fyrirtaks „varmareitur“. Enda komu þaðan bestu jarðaber sem mér hefur tekist að rækta. Og einnig óx grænmetið þar hratt og vel án þess að ég legði mikið á mig.

Hér á Mörkinni hefur mér ekki tekist að koma mér upp almennilegri jarðaberjaræktun. En það stendur til bóta á hverju sumri. Sumarið er bara svo stutt að það dugar ekki alltaf fyrir allar hugmyndirnar sem fæðast.

grodursetning og sáning

Fyrstu handtökin í vor. Baunir, salat, blóm og kryddjurtir.

Ég hef ekki lært almennilega að forsá plöntum. Þær plöntur (rófur, grænkál og brokkolí) sem þess þurfa sérstaklega kaupi ég í plöntusölu eða þá að vinir mínir sem eru duglegir að forsá gefa mér plöntur á vorin. Í vor fékk ég til dæmis salatplöntur og blóm frá einum vini.

Ég hef fundið út að okkur er nóg að rækta salat í pottum á pallinum sunnan við húsið og að vera með 2-3 kálplöntur í garðinum. Ég sái beint í pottana á pallinum og set forsáðar í garðinn. Í vor var allt frekar seint á ferðinni, bæði vegna veðurs og ýmissa anna. Ég sáði salatinu um mánaðamótin maí og júní og núna í fyrstu viku júlí er hægt að borða uppúr pottunum, blandað salat, spínat, klettasalat og mizuna-salat sem er nýjungin í ár. Ég keypti þann fræpoka óvart af því ég var gleraugnalaus og sýndist þetta vera klettasalat á myndinni því ég sá alls ekki hvað stóð á pokanum. En svo voru þetta ekki klettasalatsfræ. Mizuna-salatið vex vel á pallinum svo hugsanlega verða þessi mistök í innkaupum til þess að fjölgar varanlega í salatflórunni á Mörkinni.

Baunagras

Baunagrasið farið að láta á sér kræla.

Í fyrra var nýjungin baunaræktun í aflöngum blómapotti. Í honum hafði ég áður verið með blóm en fannst það vera of dýrt svo ég setti niður nokkrar baunir. Þær komu upp, blómstruðu og báru mikið af gómsætum baunum. Svo baunir geta verið fyrir augað, munn og maga. Í ár setti ég baunir í tvo aflanga potta og nokkra litla. Og næsta vor er áformað að flýta fyrir baunauppskerunni með því að forrækta þær innandyra fyrst.

Blandað salat, mizuna, klettasalat og spínat

Blandað salat, mizuna, klettasalat og spínat.

Mér finnst bæði spennandi og skemmtilegt að standa í þessari litlu ræktun og vildi gjarnan gefa mér meiri tíma til að sinna þessum áhuga. Dreymir um gróðurhús og lítinn varmareit neðst á lóðinni hér við Mörkina. Og hver veit nema að það verði að veruleika einn daginn.

1 thoughts on “Sækja salat!

Leave a Reply to Elísabet María Ástvaldsdóttir, lIekskólakennariCancel reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.