Ósoðið marmelaði

Ósoðið marmelaði

Árni Heiðar sér um lið 3 í uppskriftinni.

Árni Heiðar er í heimsókn á Mörkinni (Þeló eins og búið er að kenna honum) þessa vikuna. Í morgun hjálpaði hann mér að gera marmelaði. Hann var ekki gamall þegar hann sýndi eldhússtörfum mikinn áhuga og fékk að sitja uppi á borði og fylgjast með starfseminni á eldhúsbekknum og einnig að aðstoða við að hræra, sleikja, smakka, opna, loka, kveikja og slökkva. Hann dáir að fá að horfa á hrærivélina og hakkavélina að störfum svo ekki sé minnst á að halda í handþeytarann. Það hefur komið fyrir að hann fylgist með mér elda matinn í myndsímtali (Facetime). Fyrir hann er það eins og að horfa á uppáhaldsbarnaefnið. Svo ef ég veit að von er á honum á Mörkina doka ég með marmelaðigerðina svo hann geti verið mér innan handar.

Mamma gaf mér þessa uppskrift þegar á átti heima á Ísafirði (fyrir 1988). Í mínum huga hefur hún „alltaf“ gert þetta marmelaði. Þessi uppskrift er líka mátulega stór og fljótleg til að ég gefi mér tíma til að búa marmelaðið. Stundum finnst mér ekki taka því að gera hana svona litla og tvöfalda hana, enda get ég þá gefið vinum mínum mér mér.

2, appelsínur, flysjaðar (hægt að leggja börkinn af annarri í bleyti yfir nótt og hakka með í marelaðið)

1 sítróna, flysjuð

1/2 poki þurrkaðar apríkósur

500 g sykur

1. Leggið apríkósurnar í bleyti yfir daginn eða nótt (2-3 tímar duga líka).

2. Hakkið appelsínurnar (og börkinn af annarri hafi það verið valið), apríkósurnar og sítrónuna.

3. Hrærið sykrinum saman við. Ég hef undanfarið sett í hana hrásykur og set þá helmingi minna magn af sykri.

4. Látið standa í kæli yfir nótt á meðan sykurinn leysist upp.

5. Sett á sótthreinsaðar krukkur.

Þetta marmelaði þarf að geyma í kæliskáp vegna þess að það er ekki soðið (ætli það teljist hráfæði?). Þess vegna er best að gera ekki mikið af því í einu og þá er líka oftast ferskt marmelaði á boðstólnum.

3 thoughts on “Ósoðið marmelaði

  1. Bakvísun: Ekki bara kökur og konfekt! | Bara byrja

  2. Bakvísun: Nýja bananabrauðið | Bara byrja

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.