Soðið brauð

soðið brauð

Soðið brauð með kúmeni

Þegar ég flutti til Dalvíkur kynntist ég því að nánast allur bakstur var kallaður „brauð“. Fram að því hafði bakstur í mínum huga verið kökur og brauð. Á Dalvíkinni er það þannig að það er sætt brauð eða kaffibrauð og svo bara brauð. Ég segi enn kökur og brauð, en líka „brauð“ þegar það á við. Til dæmis við skipulag á veislum með dalvískum eða svarfdælskum konum er gjarnan sagt: En hvernig er með brauðið? Þá eiga menn (oftast konur) við kökurnar/kaffibrauðið sem á að bjóða uppá.

Ég kynntist líka kaffibrauði sem heitir Soðið brauð og er heiti þess sjaldnast beygt í máli manna; en hvað með soðið brauð? Hver kom með soðið brauð (ekki soðna brauðið)? Soðið brauð hafði ég ekki fengið vestur á Ísafirði og þess vegna tel ég hiklaust að soðið brauð sé norðlenskt fyrirbæri.

Ég komst fljótlega að því að engin uppskrift er nákvæmlega eins; hvert heimili virðist eiga uppskrift sem er örlítið öðruvísi en annarra. Sumir vilja brauðið þunnt, aðrir þykkt, sumir með kúmeni og aðrir alls ekki með kúmeni. Ég sankaði að mér þremur uppskriftum, einni frá Steinunni nágranna og annarri frá Jónu nágranna hennar. En það voru þær sem kenndu mér handtökin við baksturinn. Því miður var snjallsíminn ekki kominn til sögunnar þá og því var ekki smellt mynd af þeirri kennslustund.

Svo fékk ég þriðju uppskriftina frá konu á Dalvík sem hét Sissa og það er sú uppskrift sem ég held mig við, einfaldlega vegna þess að það brauð er ljúffengt og auðvelt í bakstri. Þetta brauð baka ég að minnsta kosti einu sinni á ári, fyrir jólin. Stundum baka ég þetta brauð á sumrin og þá helst til að taka með í nesti í gönguferðir. Soðið brauð er náttúrulega best með hangikjöti (heimareyktu) eða reyktum laxi. Og núna er það steikt vegna þess að við eigum von er á gönguhópnum okkar í næstu viku.

Uppskriftin er á þessa leið. Hún er nokkuð stór en það er samt aldrei afgangur, frekar beðið um meira:

6 bollar hveitii (ég hef helming heilhveiti og helming hveiti)

9 tsk lyftiduft

4 msk sykur

1 stór dós hrært KEA skyr

4 dl mjólk

salt og kúmen e smekk

Hnoðað þar til sleppir borði, flatt út og skorið í hæfilega bita. Steikt í feiti frá Kristjáns bakaríi á Akureyri.

6 thoughts on “Soðið brauð

Leave a Reply to Hafrún ÁstaCancel reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.